Almannatryggingar

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 16:12:21 (844)

2000-10-19 16:12:21# 126. lþ. 14.9 fundur 78. mál: #A almannatryggingar# (tryggingaráð) frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[16:12]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Hér er hreyft mjög góðu máli sem felst í því að þeir sem eru notendur eða viðskiptamenn Tryggingastofnunar hafi einhver áhrif í stjórn þeirrar stofnunar. Þetta er sambærilegt mál og það sem ég hef lagt til varðandi lífeyrissjóði, að sjóðfélagar lífeyrissjóða komi að stjórn þeirra stofnana sem eru að mínu mati eign sjóðfélaganna.

Þannig er að fá lög eru með jafnmikið af heimildum til stjórnar og lögin um almannatryggingar. Þau eru morandi í heimildum. Þetta eru varla lög, þetta er bara rammi og stjórn Tryggingastofnunar þarf að fylla út í þennan ramma alla daga. Þetta er til vansa. Svona á þetta ekki að vera. Lögin eiga að vera miklu skýrari, en þau eru það ekki. Afleiðingin af því er að stjórn Tryggingastofnunar er að leggja pólitíska línu alla daga í því hvernig bætur eigi að greiða. Afleiðingin af því er svo aftur að fólk veit ekki um rétt sinn, fær ekki rétt sinn og stundum hefur komið fyrir að það hafi verið úrskurðað rangt, því miður, sem er afskaplega slæmt fyrir fólkið sem er viðskiptamenn þessarar stofnunar, gamalt fólk og öryrkja, oft og tíðum fólk sem ekki getur varið sig.

Ég tel því mjög mikilvægt að þessir aðilar fái fulltrúa í stjórn. Ég hefði reyndar talið heppilegra ef því væri við komið að allir öryrkjar og allir aldraðir eða allir sem eru á lífeyrisbótum gætu kosið þá fulltrúa, en það er sennilega of þunglamalegt þó að það sé vel mögulegt í dag á tímum netsins og nýrrar tækni. Ég fellst því á það að landssamtök öryrkja og aldraðra kjósi þessa menn.

Ég vil endurtaka, herra forseti, að ég styð þetta og tel þetta jafnmikla réttarbót og að sjóðfélagar lífeyrissjóða fái að kjósa stjórnir í sína sjóði.