Samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 17:07:50 (855)

2000-10-19 17:07:50# 126. lþ. 14.10 fundur 92. mál: #A samkeppnishæf menntun og ný stefna í kjaramálum kennara# þál., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[17:07]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Ég gat þess að þetta væri frv. Samfylkingarinnar vegna þess að orðið Samfylkingin kemur fyrir mörgum sinnum á hverri síðu eins og það væri eitthvert einkamál hennar að stunda menntamálaþróun. (Gripið fram í: Hún flytur málið.)

Það sem Sjálfstfl. hefur verið að gera er að hann hefur undið ofan af áratuga einokun vinstri manna á menntakerfinu. Hægt og rólega hefur hann undið ofan af þessu, tekið upp samræmd próf, tekið upp samkeppni, aukið einkavæðingu eftir getu en það er við ramman reip að draga.

Að undanförnu hefur tölvuvæðing stóraukist. Ákveðin stefna er í gangi um að allir nemendur fái aðgang að tölvum. Stóraukin áhersla er lögð á kennsluefni á tölvutæku formi. Ég var einmitt að heimsækja þessa ágætu sýningu, Agora, og rakst þar á bás Námsgagnastofnunar og þar var verið að kynna mjög mikið af nýjum kennsluhugbúnaði. Það er verið að gera marga góða hluti og verður unnið frekar að því að búa til marga góða hluti í samræmi við þá hugmynd eða hugljómun sem ég og margir aðrir sjá að það verði bylting í kennslumálum á næstu 5 eða 10 árum, hvort sem við Íslendingar viljum eða ekki. Þetta verður alþjóðleg bylting.