Kynbundinn munur í upplýsingatækni

Fimmtudaginn 19. október 2000, kl. 18:32:40 (880)

2000-10-19 18:32:40# 126. lþ. 14.16 fundur 123. mál: #A kynbundinn munur í upplýsingatækni# þál., RHák
[prenta uppsett í dálka] 14. fundur, 126. lþ.

[18:32]

Ragnheiður Hákonardóttir:

Forseti. Ég þakka hv. þm. Hólmfríði Sveinsdóttur fyrir grg. sína og að vekja máls á þessu með þáltill. sinni eins og það er sett fram að draga úr kynbundnum mun í upplýsingatækni. En maður getur ekki annað en spurt í hverju þetta felst.

Í ágætri grg. kemur fram að mestmegnis er stuðst við rannsóknir sem gerðar hafa verið á fámennum hóp sem og vísað til rannsókna sem gerðar hafa verið erlendis. Þar kemur fram að á áhugasviði stúlkna og drengja liggja þættir varðandi tölvunotkun. Ég held að í hverju og einu fagi og í hverju því sem snertir okkur í daglegu lífi liggi einmitt mismunandi þættir, mismunandi áhugasvið einstaklinga á hvers konar vali. Ég er ekki að mæla þessu bót. Ég er ekki að mæla því bót að stúlkur skuli í minna mæli en drengir sýna upplýsingatækni áhuga --- en það er átt við tölvunotkun, upplýsingatækni er hluti hennar.

Í grunnskólum í dag og niður í allflesta leikskóla er það markmið að allir nemendur, drengir og stúlkur, hafi jafnan aðgang að tölvum. Ég þekki ekki til staða þar sem þetta er ekki veruleikinn.

Aftur á móti má spyrja: Hvernig má vekja áhugann á þessari tækni frekar hjá stúlkum en verið er? Ég get ekki svarað því en ég get sagt að í því umhverfi sem ég kem úr sé ég ekki mun á áhuga drengja og stúlkna hvað varðar tölvunotkun og upplýsingatækni að leita sér upplýsinga í gegnum þetta kerfi. Hitt er annað mál að það er mismunandi hvernig einstaklingar vinna og það kemur líka fram hjá Sólveigu Jakobsdóttur.

Ég held að það að ýta þessari þáltill. áfram og setja upp nefnd sé ekki það markmið sem hún ætti að vera. Hún ætti að vera hluti af verkefnum menntmrn. í almennri útfærslu menntunar. Ég vísa til grunnskólalaga þar sem tekið er á þessu og í framhaldsskólalög. Í leikskólum hefur þetta komið inn eins og ég nefndi áðan. Ég held að þetta sé framkvæmdaratriði.

Ég bendi á að þættir eins og þessir eru dýrir í framkvæmd. Það tekur tíma. Þessi viðhorfsbreyting tekur líka tíma sem kemur þá í gegnum eldri kynslóðir til einstaklinga. Það er ágætt dæmi að vísa til tæknibreytinga sem urðu þegar bíllinn kom til Íslands. Lengi vel tóku aðeins karlar bílpróf. Þannig er það viðhorf jafnvel þeirra eldri sem skal heldur breyta en þeirra yngri vegna þess að þau yngri telja þetta sjálfsagðan hlut.