Gengisþróun íslensku krónunnar

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 15:23:03 (907)

2000-10-30 15:23:03# 126. lþ. 15.1 fundur 63#B gengisþróun íslensku krónunnar# (óundirbúin fsp.), SJS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[15:23]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Þetta var mjög biblíulegur texti hjá hæstv. ráðherra að það væri ekki sérstök ástæða til þess um þessar mundir að bregðast við gengisfalli krónunnar. Er það um einhverjar aðrar mundir sem við sambærilegar aðstæður væri kannski ástæða til þess?

Staðreyndin er sú að hér hefur orðið þetta mikið gengisfall eins og ég fór yfir áðan. Mér finnst eðlilegt að ríkisstjórnin geri betur en kom fram í svari hæstv. fjmrh. hvað það varðar að þetta kallar væntanlega á einhver viðbrögð vegna afleiðinga þessa gengisfalls. Er t.d. ekki ástæða til að fara að endurmeta þjóðhagsforsendur nú þegar? Er ekki alveg ljóst að frá því að gengið var frá forsendum þjóðhagsáætlunar í aðdraganda þess að fjárlagafrv. var lagt fram, þ.e. í ágústmánuði eða fyrri hluta septembermánaðar sl., er orðið umtalsvert gengisfall? Það hlýtur að hafa einhver áhrif á mat þjóðhagsforsendnanna og það hvernig horfur eru í m.a. ríkisbúskapnum á næsta ári. Eða er hæstv. fjmrh. að reyna að segja það að þetta breyti engu?