Almannatryggingar

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 17:19:49 (945)

2000-10-30 17:19:49# 126. lþ. 15.16 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., JóhS
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[17:19]

Jóhanna Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér hafa orðið mjög góðar umræður um stöðu og kjör öryrkja og er það vel og mætti vissulega vera meira af því vegna þess að kjör öryrkja hafa dregist mjög aftur úr því sem gerist almennt í þjóðfélaginu í því góðæri sem ríkt hefur á undanförnum árum.

Við erum að fjalla um eina hliðina á kjörum öryrkja sem snertir tengingu við tekjur maka og skerðingu þess vegna, mál sem hefur verið flutt nokkrum sinnum af þingmönnum Samfylkingarinnar undir forustu Ástu R. Jóhannesdóttur. Ég fullyrði að hér er á ferðinni mál sem mikil sátt er um í þjóðfélaginu almennt að nái fram að ganga. Ég fullyrði líka að svo er einnig í röðum þeirra sem styðja þá stjórnarflokka sem hér hafa verið við völd frá 1995 en ekki gengið þá leið sem Öryrkjabandalagið hefur lagt áherslu á, þ.e. að afnumin verði að fullu tenging við tekjur maka.

Ég fullyrði einnig að það er sátt um það hér, a.m.k. meiri hluti fyrir því, í þingsölum að fara þá leið sem hér er lagt til og það er ekkert ofsagt við það sem hefur fram komið hjá þeim sem hér hafa talað að vissulega er um mannréttindabrot að ræða og brot á ýmsum lögum og alþjóðasamþykktum eins og hér hefur verið talið upp, bæði stjórnarskránni, stjórnsýslulögum, mannréttindasáttmálum og alþjóðasamningum. Það verður að segjast eins og er að það er til skammar fyrir ríkisstjórnina að Öryrkjabandalagið hefur þurft að fara með þetta mál til dómstólanna til að reyna að fá leiðréttingu á þessu sjálfsagða réttlætismáli.

Ég er reyndar þeirrar skoðunar að það sé fullur vilji hjá hæstv. heilbrrh. að leiðrétta það misrétti sem er á ferðinni og hæstv. ráðherra hefur reyndar gengið tvö mikilvæg skref í því máli í átt til þess að afnema þessa tekjutengingu. Reyndar hefur hæstv. ráðherra einnig haft orð uppi um að það beri að afnema tekjutengingu við tekjur maka að fullu og eins og fram kom í máli hv. 1. flm. þá hefur ráðherrann viðhaft þau orð að hér væri um siðferðisbrot að ræða.

Ég vil því spyrja hæstv. ráðherra hvenær við megum vænta þess að skrefið verði stigið til fulls og þetta verði að fullu afnumið?

Við erum ekki að tala um háar fjárhæðir, herra forseti. Við erum að tala um 360 millj. kr. sem er helmingi minna en sú fjárhæð sem á að verja á næsta ári samkvæmt fjárlagafrumvarpinu til að koma á sendiráði í Kína (Gripið fram í: Í Tókíó) --- í Tókíó, segi ég, í Japan. Það eru til peningar til þess til þess að koma á sendiráði í Japan sem krefst tvöfalt hærri fjáhæðar en kostar að stíga þetta skref sem ég held að flestir séu sammála um að fara.

Við erum að tala hér um fjárhæð, 360 millj., sem hæstv. fjmrh. munaði nú ekkert um á síðasta þingi að setja til jeppaeigenda til þess að létta þeim þunga skattbyrði. Hér er auðvitað um að ræða forgang ríkisstjórnarinnar, hvaða forgang hún hefur á málum. Spurningin er ekki hvort til séu fjármunir til að fara þessa leið. Það er nú staðreynd málsins.

Samstarfsflokkur hæstv. heilbrrh. lofaði heldur betur að rétta af kjör öryrkja og aldraðra fyrir síðustu kosningar. Ég man ekki betur en landsfundur sjálfstæðismanna hafi lofað því að setja 7,6 milljarða til þess að afnema allar tekjutengingar í kerfinu. Það er kominn tími til þess að fara að efna þau loforð. Við erum ekki að biðja um neina 7,6 milljarða. Við erum að tala um 360 millj. til að fara þessa leið. Sjálfstfl. og landsfundur Sjálfstfl. lofaði 85 þús. kr. greiðslu til allra, óháð tekjum. Hvar eru þau loforð? Ég hef grun um það, og ég vona þá að einhver þingmaður sjálfstæðismanna sé hér inni til þess að leiðrétta mig, að það sé ekki síst Sjálfstfl. sem standi í vegi fyrir því að hæstv. heilbrrh. geti gengið þessa leið að afnema tengingu við tekjur maka. Ég held að hæstv. ráðherra sé full af vilja til að ganga þessa leið.

Þess vegna vil ég spyrja hæstv. ráðherra: Er það rétt og samþykkir hún það að það kosti ekki nema 360 millj. að afnema að fullu tengingu við tekjur maka?

Ég held að það bæti ekkert þá leið sem við viljum fara að hæstv. ráðherra komi hér upp í ræðustól og segi að þetta hafi viðgengist allar götur frá því almannatryggingakerfið var sett á fót. Þessu var breytt með reglugerð. Það var ekki gert með lögum frá Alþingi, fyrr en á árinu 1998 þegar hæstv. ráðherra lögfesti þetta mannréttindabrot, einmitt á sama tíma og hún var að stíga jákvætt skref í að draga úr þessari tekjutengingu. Ég held að það sé ekki jákvætt í ýmsum góðum málum sem ráðherrann hefur komið til leiðar að fara þá leið að lögfesta þetta mannréttindabrot.

Þegar litið er til kjara öryrkja á þessu kjörtímabili og þó litið væri til þess frá 1995 þá vitum við, og hæstv. ráðherra er auðvitað sannfærð um það í hjarta sínu, að hvorki öryrkjar né aldraðir hafa fengið réttmætan hlut af því góðæri sem við höfum búið við.

Hæstv. ráðherra veit líka í hjarta sínu að 26 milljarða tekjuafgangur ríkissjóðs á þessu ári er m.a. fenginn með því að skerða kjör öryrkja miklu meira en nemur því sem aðrir hafa búið við í þjóðfélaginu á umliðnum fimm árum.

Aldraðir sáu sig t.d. knúna til þess að standa fyrir framan Alþingishúsið þegar Alþingi kom saman á haustdögum til að minna á bág kjör sín, minna á að hlutfall af launum aldraðra þegar það er borið saman við laun verkamanna, er miklu minna en það var á árinu 1991 þegar við bjuggum þó við mikla lægð í efnahagsmálunum. Þar munar 18% og þyrfti að setja þrjá milljarða í kjör öryrkja og aldraðra í dag til þess að þeir stæðu jafnfætis því sem var 1991.

Ég verð að segja eins og er að mér liði ekki vel í stóli ráðherra eða ef ég væri í sporum hæstv. heilbrrh. við slíkar kringumstæður, horfandi á hvernig kjör öryrkja og aldraðra hafa dregist aftur úr á umliðnum árum.

Það er eins og þessi ríkisstjórn miði alltaf hækkanir á lífeyrisgreiðslum til öryrkja við lægsta viðmið sem hún getur nokkurs staðar fundið. Það er bara leitað og leitað eftir lægsta viðmiði og síðan er það sett til öryrkja og þeir fá molana sem hrjóta af borði ríkisstjórnarinnar. Þannig hefur ríkisstjórnin, eftir að hún tók upp ákveðið viðmið 1997 eða 1998, miðað við neysluvísitölu. Talað er um að miða við almenna launaþróun en þó ekki lægri en neysluvísitölu og af því að neysluvísitalan hefur verið lægri en launavísitalan á undanförnum árum þá hefur ríkisstjórnin auðvitað fundið sér það viðmið til þess að miða kjör lífeyrisþega við. Það finnst mér ekki sýna að ríkisstjórnin eða stjórnarflokkarnir beri kjör lífeyrisþega fyrir brjósti.

[17:30]

Við getum litið til þess að frá 1995 til október 2000 hefur grunnlífeyrir og tekjutrygging hækkað um 25% en launavísitalan hefur hins vegar hækkað frá sama tíma um 41,5%. Það mundi muna töluverðu ef ríkisstjórnin hefði miðað við launavísitöluna í staðinn fyrir það viðmið sem hún hefur notað sem skammtar lífeyrisþegunum eins lítið og hægt er. Mér sýnist, herra forseti, nema hæstv. heilbrrh. beiti sér í þessu máli, að fjárlagafrv. fyrir næsta ár gefi lífeyrisþegum enga von um betri tíð á næsta ári vegna þess að forsendur fjárlaga eru byggðar á því að lífeyrisþegar fái 3% hækkun ... (Gripið fram í.) Fjögur prósent, segir hæstv. ráðherra, og finnst mér sú hækkun bitamunur en ekki fjár. Spurning er hvenær sú hækkun á að koma. Það skiptir verulegu máli hvort þessi 4% koma strax í upphafi ársins eða ekki. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra um það hvaða áform séu uppi í því efni.

Vissulega mætti tína fleira til um það hvernig kjör aldraðra hafa dregist almennt aftur úr kjörum annarra hópa og eins það hvað ýmislegt annað í aðbúnaði öryrkja hefur orðið til að skerða framfærslu þeirra og auka á framfærslubyrði eins og hækkunin á lyfjum, hækkun á leigukostnaði eða hækkun á leigu á almennum markaði, styrkir til bifreiðakaupa öryrkja færri að raungildi en þeir voru 1995 og síðan mætti draga ýmislegt annað fram. Við getum talað um biðlista eftir þjónustuíbúðum, eftir leiguíbúðum o.s.frv., þar sem staða aldraðra er vægast sagt ömurleg að horfa upp á. Vissulega er það svo að við erum ekki að tala um alla heildina af öryrkjum eða lífeyrisþegum en við erum að tala um verulega stóran hóp, herra forseti, vegna þess að staðreyndin er sú að meira en helmingur aldraðra er með framfærslueyri undir lágmarkslaunum og 40% lífeyrisþega hafa óskerta tekjutryggingu. Það kom fram í skýrslu sem ég bað forsrh. um á sl. ári að 43% allra öryrkja fá engar greiðslur úr lífeyrissjóði og einnig að 22% ellilífeyrisþega eða 5.800--5.900 voru með tekjur undir 4.000 kr. á mánuði árið 1999.

Ekki er óeðlilegt, herra forseti, að umræðan leiðist almennt út í afkomu aldraðra og öryrkja undir þessum dagskrárlið en ég vil á þeim stutta tíma sem ég hef aflögu í þessum ræðustól fara nákvæmar inn á það mál sem er til umræðu. Vonandi gefst tími til þess fljótlega aftur að taka upp almenna umræðu um kjör öryrkja en mér hefur fundist vera misskilningur a.m.k. í málflutningi hæstv. forsrh. --- ég skal ekki fullyrða hvort það hefur komið fram hjá hæstv. heilbrrh. --- um það að þetta sé ekkert einsdæmi á Íslandi að það sé þessi tenging við tekjur maka. Hafa þeir vitnað til Norðurlandanna í því sambandi. Hv. þm., Ásta R. Jóhannesdóttir, 1. flm. þessa máls, kom einmitt inn á það sem er staðreyndin í þessu máli. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hún geti þá ekki tekið undir að það sé rétt, til að við séum að tala um málið út frá réttum forsendum og réttum staðreyndum, að það sé einungis sums staðar tenging við tekjur þegar um er að ræða félagslegar bætur eins og heimilisuppbót o.s.frv. en ekki þegar um er að ræða almennar lífeyrisgreiðslur úr almannatryggingakerfinu eins og annars staðar Norðurlöndunum að þá sé greiddur lífeyrir óháð tekjum maka. Mér finnst mikilvægt að leiðrétta það ef þetta hefur verið uppi í umræðunni þannig að við tölum um málið út frá staðreyndum.

Síðan finnst mér hafa komið fram líka hjá forráðamönnum ríkisstjórnarinnar að þeir hafa talað um að miklu dýrara væri að afnema að fullu tekjutenginguna en er í raun og sanni. Ég spyr hæstv. ráðherra um þetta tvennt að því viðbættu að hún upplýsi okkur þá um það líka hvenær megi vænta þess að skrefið verði stigið til fulls sem ég veit að hæstv. ráðherra hefur fullan hug á.

Það hefur verið dregið fram í umræðunni hvaða félagsleg áhrif það hefur að binda lífeyrisgreiðslurnar þannig að þær séu háðar tekjum maka. Það hefur réttilega verið bent á að þegar bæði hjón eru lífeyrisþegar þurfa þau að sæta því, alveg óháð þessu, að búa við þriðjungs lægri greiðslur úr almannatryggingakerfinu en þeir sem eru einir, þannig að því til viðbótar kemur það að þetta fólk eða hjón hafa þegar þurft að sæta þessari skerðingu.

Það er alveg rétt sem kom fram í greinargerð með frv. og hefur komið fram opinberlega, að við erum ekki einungis að skerða afkomu þessa fólks heldur grefur þetta undan hjónabandinu og möguleikum lífeyrisþega til að hefja sambúð og stofna fjölskyldu. Það er ekki svo lítið og full ástæða til að fella þann þátt undir mannréttindabrot þegar þetta er afleiðing af því að fara þessa leið.

Herra forseti. Ég veit að hæstv. ráðherra hefur kvatt sér hljóðs til að fjalla um þetta mál eða vera með andsvar við ræðu mína eða hvað það var nú. Ég sá að ráðherrann hæstv. bað um orðið og ég held að það sé afar mikilvægt að fá innlegg hæstv. ráðherra í málið og að hér geti farið fram málefnalegar umræður um það hvenær og hvernig hægt verður að ná sátt í málinu í þingsölum þannig að við getum stigið skrefið til fulls. Það er það sem skiptir máli fyrir öryrkja og þá sem hafa þurft að búa við tekjutenginguna. Ég vona svo sannarlega, herra forseti, að málið fari ekki í þann farveg eða þá stöðu að enn einu sinni þurfi að mæla fyrir þessu máli á næsta þingi.