Almannatryggingar

Mánudaginn 30. október 2000, kl. 17:38:29 (946)

2000-10-30 17:38:29# 126. lþ. 15.16 fundur 26. mál: #A almannatryggingar# (tekjutenging bóta) frv., heilbrrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 15. fundur, 126. lþ.

[17:38]

Heilbrigðisráðherra (Ingibjörg Pálmadóttir) (andsvar):

Virðulegi forseti. Því er þannig farið með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur, fyrrv. félmrh., að hún segir manni yfirleitt hvað maður megi segja og hvað maður megi ekki segja áður en maður stígur í ræðupúlt. Það er eins núna. Hún segir að ég megi alls ekki segja að tekjutengingin hafi ávallt átt sér stað því það vill hún ekki heyra. Þá þarf ég auðvitað að spyrja hana að því og hún hlýtur að vilja svara því hér:

Barðist hún fyrir því að afnema þessa tekjutengingu þegar hún var ráðherra í sex ár? Minnkuðu tekjutengingar í almannatryggingakerfinu á meðan hún sat sem ráðherra? Ég held að við verðum að fá svar við þessu.

Það er rétt að ég sagði það fyrir þremur árum að þetta væru allt of miklar tengingar. Ég sagði það ekki aðeins heldur hef ég stigið tvö skref til að minnka þessar tengingar. Hér er ég spurð að því hvort 360 millj. dugi til að afnema þetta alveg. Ég tel að það dugi ekki því við erum þegar búin að setja 500--700 millj. til að minnka þessar tekjutengingar. Ég tel að við þurfum meira fjármagn til að afnema það alveg því að við erum búin að stíga þau tvö skref sem sumum fannst vera hænuskref en það eru þær upphæðir sem það hefur kostað.

Ég er fegin að heyra það að hv. þm. Samfylkingarinnar eru sammála mér í því að það eigi að koma til móts við þá sem minnst hafa. Það höfum við verið að gera á ýmsa vegu en við þurfum að ganga miklu lengra í því. Sú nefnd sem er að starfa fyrir ríkisstjórnina er einmitt að vinna að því að koma með tilögur í þá áttina og þær verða tilbúnar fyrir áramót.

Spurt er að því hvort tekjutengingin sé annars staðar Norðurlöndum varðandi bætur maka, hvort það sé rétt að það séu aðeins félagslegu bæturnar. Ég er með upplýsingar frá NOSOSKO sem sýna það að a.m.k. í Danmörku og í Noregi og í Svíþjóð eru þessar tekjutengingar við almannalífeyri. Ég er búin með tímann en ég skal í seinna andsvari mínu lesa nákvæmlega upp úr skýrslunni.