Iðgjaldahækkanir tryggingafélaganna

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 13:40:58 (964)

2000-10-31 13:40:58# 126. lþ. 16.1 fundur 155. mál: #A iðgjaldahækkanir tryggingafélaganna# beiðni um skýrslu frá viðskrh., SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[13:40]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég tel sjálfsagt að samþykkja þessa skýrslubeiðni. Ég tel sjálfsagt og einboðið að þeir sem eiga síðan að gefa upplýsingar samkvæmt skýrslunni geri það. Ég undrast ummæli hæstv. ráðherra hér sem gefur sér þá niðurstöðu fyrir fram, þau jöðruðu við að vera í hótunarstíl, að þessar upplýsingar mundu ekkert koma þó svo Alþingi heimili hér beiðni um skýrslugjöf um þessa hluti. Ég verð að segja að ég hef æ meiri áhyggjur af því, herra forseti, að það sé með ýmsum hætti verið að grafa undan og veikja stöðu Alþingis til þess að krefjast upplýsinga um mál. Alþingi hefur ekki framselt Fjármálaeftirlitinu vald sitt og rétt sinn til að krefjast upplýsinga um opinber eða hálfopinber málefni og hvaðeina annað sem ekki á leynt að fara samkvæmt beinum ákvæðum í öðrum lögum. Þannig er það og verður að vera áfram. Ég segi því já.