Fjáraukalög 2000

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 15:09:01 (981)

2000-10-31 15:09:01# 126. lþ. 16.5 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., GE
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[15:09]

Gísli S. Einarsson:

Herra forseti. Við umræður um fjáraukalög á liðnum árum hef ég oft bent á að það hefur vantað á að farið sé að fjárreiðulögum. Svo er enn. Það felst í því að fyrirséð útgjaldatilefni sem eiga í rauninni að vera í fjárlagafrv. eru þar ekki en eru sett inn í frv. til fjáraukalaga. Ekki nóg með það, ég tel að á þessari stundu liggi málin þannig að það eigi eftir að koma verulegur viðauki við þá tölu sem er núna í útgjaldaaukningu, eða rúmir 5,7 milljarðar, sem útgjaldaaukningin er orðin og það á eftir að koma veruleg viðbót við þá tölu þegar líður fram til áramóta.

Mér fyndist ástæða til að ræða við hæstv. fjmrh. um það að þegar umræða fer fram, 3. umr. eða lokaumræða um fjáraukalög, þá skili hæstv. fjmrh. því til samráðherra sinna að það sé rétt að þeir verði viðstaddir svo það þurfi ekki að kveðja þá hvern og einn til að biðja þá að gera grein fyrir því sem þeir hafa farið fram úr á fjárlögum. Við í stjórnarandstöðunni munum bíða með að ræða málin þangað til þeir verða viðstaddir, svo það liggi alveg hreint fyrir. Kannski er ekkert við því að segja við 1. umr. þegar hæstv. fjmrh. leggur fram plaggið að hæstv. ráðherrar séu ekki viðstaddir en við 3. umr. tel ég að þeim sé skylt að vera hér sé einhver af fjárlaganefndarmönnum eða þm. hv. sem óski eftir að fá skýringu af hverju var farið út í fjárfestingar eða fjárráðstafanir jafnvel þær sem voru fyrirséðar þegar fjárlögin voru samþykkt síðast. Þetta er bara ósk um að koma þessu á framfæri, herra forseti.

Það frv. sem við erum að ræða er, eins og mörg önnur systkini þess á liðnum árum, vottorð um óráðsíu æðstu stofnana ríkisins. Þær stofnanir eru m.a. forsetaembættið, forsrn. og síðan hvert ráðuneytið og hver stofnun ríkisins á fætur annarri.

En ég tel að þó að svona sé þá verði að afgreiða þessi mál og það á að afgreiða þau þegar þetta liggur ljóst fyrir eins og nú gerist en ég tek aftur fram að mörg af þeim útgjaldatilefnum sem gerð er grein fyrir í þessum fjáraukalögum voru fyrirséð, eins og hægt er að rekja upp, lið fyrir lið. Ég ætla að fara í sparðatíning á öðrum vettvangi en þetta er samtals upp á 5,7 milljarða.

Kannski er rétt að geta um þetta japanska sendiráð sem er verið að karpa svolítið um hér. Ég tel að menn hafi ekki haft það á hreinu hver upphæðin yrði en ég tel mig vera búinn að fá fullvissu fyrir því að það sé skynsamlegra að kaupa en leigja. Þótt þetta sé há tala, upp á nærri milljarð sem menn hefðu auðvitað átt að vera með einhverja tölu inni fyrir, þá er verið að gera skynsamlega hluti í þessu efni. Ég tel mig vera búinn að fá vitneskju um það.

Herra forseti. Að sjálfsögðu er ástæða til að velta fyrir sér ástandinu hjá ríkissjóði. Það er alveg ljóst hver svör stjórnarliða eru um þau efni. Þau eru bara á einn veg: Stjórnarliðar segja að ástand ríkissjóðs sé frábært. Ég get vitnað um ágæta stöðu ríkissjóðs, en mér dettur ekki í hug að loka augunum fyrir 9 milljarða skuldaaukningu vegna gengisfalls krónunnar á liðnu ári. Mér dettur heldur ekki í hug að loka augunum fyrir því að fjárhagsstaða ríkissjóðs væri allt önnur ef sveitarfélögin hefðu fengið sanngjarnan hlut í sjóði sína til að standa undir þeim verkefnum sem þeim hefur verið gert að standa undir með lögum og reglum.

Það er alveg ljóst að það sem menn eru að velta fyrir sér varðandi tekjuskiptingu sveitarfélaga og ríkisins, er að þar vantar að bæta verulega í. Það liggur fyrir sem staðreynd að það er a.m.k. yfir 5 milljarðar sem hallar á sveitarfélögin sem þarf að leiðrétta. Þó verið sé að gera þeim kleift að hækka tekjur sínar með útsvarshækkunum dugir það ekki nándar nærri til til þess að vega á móti þeim verkefnum sem þeim hefur verið gert að sinna.

[15:15]

Það er kannski rétt eina ferðina enn að minna á að það er í 18 liðum, og það var kallaður sparðatíningur hér við fjárlagaumræðu þegar ég fór yfir það hvern lið fyrir sig hversu hallaði á sveitarfélögin. Ég gat þá um nokkra liði og ætla að bæta við, herra forseti, það sem ég ekki tíndi upp þá. Ég vil bara benda á að lögin sem við settum um umhverfismat hafa að sjálfsögðu í för með sér verulega útgjaldaaukningu fyrir sveitarfélögin. Hvar er gert ráð fyrir því? Hvergi nokkurs staðar.

Ég er ekki á móti umhverfismati, síður en svo. Ég vil að almennt sé látið fara fram umhverfismat við allar þær framkvæmdir þar sem þörf krefur.

Ég minni á lagabreytingu sem hér var gerð varðandi meindýraeyðingu þar sem hlutur sveitarfélaga var verulega aukinn. Þetta er einn þátturinn. Og staðan er orðin þannig að með virðisaukaskattsgreiðslu sveitarfélaganna er ríkið farið að hafa tekjur af eyðingu refa og minka. Annað í því máli er að umhvrn. átti að taka sérstaklega á vanda minni sveitarfélaganna þar sem víðáttumikil svæði eru og þau þurfa að standa í meindýraeyðingu, umhvrn. átti að taka á því máli en hefur gjörsamlega vísað því frá sér í hvert einasta skipti sem til þeirra hefur verið leitað varðandi þessi vandamál svoleiðis að ég heiti því hér að það skal verða suðað um það mál og hamast á því þangað til það verður kominn fastur grundvöllum um að bæta stöðu þeirra sveitarfélaga sem í hlut eiga.

Það má tína til mörg atriði. Ég get nefnt t.d. heilbrigðiseftirlit, lögin frá 1998 þar sem gjaldskránni um hollustuhætti og mengunarvarnir var gjörbreytt þannig að það hallar beint á sveitarfélögin. Ég get nefnt hafnamálin þar sem lögum var breytt þannig að sveitarfélögin sem greiddu áður 10% vegna hafnarframkvæmda greiða núna 25%. Hvað kom í tekjur á móti hjá sveitarfélögunum? Ekki nokkur skapaður hlutur.

Ég get talað um lög frá 1997 um skipulags- og byggingarmál. Þar hallar einnig á sveitarfélögin. Ég get talað um hækkun sjálfræðisaldurs í 18 ár sem hefur í för með sér kröfur um aukið þjónustuframlag sveitarfélaganna. Það koma engar tekjur á móti, ekki nokkrar tekjur á móti. Svona get ég haldið áfram, herra forseti, og minnt hæstv. fjmrh. á að ekki er allt sem sýnist í þessum málum og sveitarfélögunum ber hluti af þessum mikla afgangi sem hæstv. fjmrh. er svo ánægður með.

Ég ætla að bíða með að fjalla um vitnisburðinn um van\-áætlanir og mistök ríkisstjórnarinnar. En mig langar að benda á, herra forseti, hvað Íslendingur dagsins í dag þarf að búa við. Ég tók með mér greiðsluseðil bara til vitnis um það hvað Íslendingur dagsins í dag þarf að búa við. Ég er hér með greiðsluseðil vegna láns sem tekið er 21. janúar 1988. Það eru um það bil tólf ár síðan þetta lán var tekið. Lánsupphæðin á þeim tíma var 1.200 þús. kr. Lánsupphæðin nú, þegar búið er að greiða vexti og afborganir reglulega allan þennan tíma og aldrei verið um vanskil að ræða, er 2 millj. 162 þús. kr. Það þarf töluverða talnaleikfimi til þess að koma þessu í þetta ástand og það þarf töluverða leikfimi til að segja fólki að það sé jafnvægi í efnahagsmálum, góð staða í efnahagsmálum. Halda menn að heimilin finni ekki fyrir þessu?

Og hvað er svo á þessum blessuðum seðli? Það er fróðlegt að lesa það. Þegar búið er að greiða afborgunina þá eru eftirstöðvar nafnverðs eftir greiðslu 1 millj. 39 þús. 549 kr. og 30 aurar. En áfallnar verðbætur eftir greiðslu eru 1 millj. 122 þús. 691 kr. og 50 aurar. Það er eðlilegt að fólk hrökkvi við þegar það fær slíkan seðil. Alls eru eftirstöðvarnar, eins og ég sagði áðan, 2 millj. 162 þús. 240 kr. En hvað kemur svo fyrir meðaljóninn að lesa? Jú, staða jöfnunarreiknings fyrir greiðslu er 136 þús. 472 kr. Lánaðar verðbætur, herra forseti, á jöfnunarreikning eru 967 kr. Lánaðir vextir á jöfnunarreikning 1 millj. 683 þús. kr. Flutt af jöfnunarreikningi 3 millj. 371 þús. kr. Staða jöfnunarreiknings eftir greiðslu 135.751 kr.

Hvernig á nú meðaljóninn að taka við svona seðli? Hann verður auðvitað að gera það því að hann stofnaði til lántökunnar í upphafi. En þetta, herra forseti, er nákvæmlega dæmið um það sem Íslendingurinn í dag þarf að búa við. Á tólf árum er verðbólga 100%. Þetta er glæsilegt, þetta er glæsileg einkunn.

Herra forseti. Ég ætla ekki að ræða um tekjuaukninguna sem gerð er grein fyrir í fjáraukalagafrv. Sá tekjuauki byggist á óhóflegri eyðslu og skuldasöfnun. Það er slæmt að það megi rekja tekjuauka ríkissjóðs að verulegum hluta til eyðslu og óhófs. Ég hef rætt hér um og gert að umræðuefni ráðstöfun fjármuna hjá ríkissjóði og ég segi: Ríkisstjórnin ber fyllilega ábyrgð á þeirri umframkeyrslu sem er fram yfir fjárlög.

Það er kannski rétt að skoða raunástandið í þjóðfélaginu. Og hvernig er best að skoða það? Ég tel að það sé einfalt fyrir hvern sem er að sjá hvernig ástandið er. Ef menn fletta dagblöðum núna þá er þar síða eftir síðu með nauðungaruppboðsauglýsingum fyrirtækja og einstaklinga. Er til nokkuð annað betra til að sjá ástandið hjá almenningi eða hjá þjóðinni í dag en að vitna í það að þegar ástandið var skást þá sáust varla nauðungaruppboðsauglýsingar en núna eru viku eftir viku auglýsingar um nauðungaruppboð hjá fyrirtækjum og einstaklingum. Ég segi bara að þetta er skýr vitnisburður um mun verra efnahagsástand en ríkisstjórn hæstv. forsrh., Davíðs Oddssonar, vill vera láta.

Herra forseti. Ég tel að efnahagsforsendurnar séu ekki í lagi. Það má kannski segja eins og hv. 7. þm. Reykv., Össur Skarphéðinsson, sagði: ,,Þær eru gjörsamlega út úr kortinu.`` Þjóðhagsþróun hefur farið langt fram úr því sem menn spáðu. Frávik í fjárfestingum eru upp á 7,8%. Áætlunin var 2,7%. Ég nefni þetta bara til þess að menn sjái hversu mikill munurinn er á því sem menn ætla og þess sem raunin er. Gjöldin hafa vaxið um 5,1%. Hver var áætlunin? Ég minni, herra forseti, hæstv. fjmrh. á að áætlunin var upp á 2,8%. Það vantar mikið á að menn haldi stöðugleikanum í þessum málum.

Ég tel að ekkert sé að draga úr þenslu eins og er. Menn voru með óskir og vonir um að draga mundi úr þenslunni. Því miður sé ég engin merki þess. Því miður óttast ég að það eigi eftir að verða frekara gengishrun eða gengissig á krónunni og það kemur beinustu leið inn á þennan greiðsluseðil sem ég var að lesa áðan. Þessi greiðsluseðill gæti orðið eftir áramót svona 200--300 þús. kr. hærri en hann er nú, þó svo að greitt sé reglulega af honum á réttum gjalddögum með öllu því sem tilheyrir.

Herra forseti. Ég læt þetta duga en minni á að þegar við getum raunverulega rætt fjáraukalagafrv. sem mun væntanlega liggja fyrir hér eftir mánaðartíma eða svo þá tel ég að hæstv. ráðherrar ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar eigi að vera hér viðstaddir, ekki bara hæstv. fjmrh. Við getum rætt við hann um útgjaldatilefni sem hans ráðuneyti hefur stofnað til. Hinir ráðherrarnir eiga að svara líka, en ekki bara hæstv. fjmrh.