Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:03:33 (995)

2000-10-31 17:03:33# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:03]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Það var einmitt þetta sem ég kom inn á. Við erum með sumartíma allt árið, klukkan á Íslandi er stillt rúmum klukkutíma fram fyrir sig. Hádegi á Íslandi er rúmar tuttugu mínútur yfir eitt, aðeins breytilegt eftir tímum og hvort við erum á Austfjörðum eða Vestfjörðum, það er hin rétta klukka. Við byrjuðum einhvern tímann á öldinni, ég man ekki hvenær það var, að hafa sumartíma eins og Evrópuþjóðirnar. Síðan ákváðum við að hafa sumartíma líka á veturna, þ.e. við erum allt árið með þennan sumartíma. Nú kemur hv. þm. og fer fram á að við bætum bara við öðrum sumartíma, þannig að við séum komin með tvo klukkutíma í sumartíma, þ.e. við erum orðnir þá vitlausir í tímanum um nærri tvær og hálfa klukkustund. Þá get ég sagt sem svo: Af hverju vill hann ekki bara fara þrjá tíma fram o.s.frv.?

Hins vegar liggur það þá fyrir að öllum einstaklingum er frjálst að vakna hvenær sem þeir vilja. Verkalýðsfélögin geta samið um breytilegan vinnutíma. Margir aðilar gera það nú þegar og það er mjög algengt og eflaust mjög hollt að vakna snemma á morgnana. Menn hafa þetta því alveg frjálst ef þeir vilja vakna klukkan sjö. Menn sem vakna klukkan sjö á Íslandi í dag eru að vakna raunverulega klukkan hálfsex. Ef við breytum þessu eins og hv. þm. vill gera þá fer maður að vakna kl. hálffimm.

Kannski er þetta allt mjög hollt og hann þekkir eflaust menn sem eru við mjög góða heilsu á Norður-Spáni og ég þekki marga á Íslandi sem eru við ágætis heilsu þrátt fyrir að við séum bara einn og hálfan tíma á undan. Við getum lengi haldið áfram að tala um þetta. Ég get ekki komið auga á það til hvers í ósköpunum við ættum að vera að þessu yfirleitt.