Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 17:27:09 (999)

2000-10-31 17:27:09# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[17:27]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Það var ágætt að fá þetta fram hjá hv. þm. Drífu Hjartardóttur um það sem snýr að bændum. Það er dálítið merkilegt að þegar flett er upp í blöðum frá þeim tíma þegar hringlið var sem mest með klukkuna voru bændur ekki síður með kvartanir, lesendabréf í blöðin, yfir hringlinu með klukkuna. Hvaða áhrif þetta hefur á kýrnar skal ekki mikið um fjallað hér en hins vegar væri fróðlegt að taka það inn í það dæmi sem er nú mest rætt um, þ.e. hinar norsku kýr, hvernig áhrif það muni hafa á þær.

Hvað snertir veðurtöku þá er það þeirra mál, hvernig sem spáð er, hvort menn hlusta á spárnar eða ekki. Hins vegar miðast veðurtaka við miðtíma, Greenwich Mean Time, þannig að það er margt sem miðast við það. Hvaða varðar birtuna á sumrin, það hefur engin áhrif á það varðandi færslu á klukkunni þegar ferðamenn eru hér yfir hásumarið. Það er bjart allan sólarhringinn.

Það er alveg ljóst að við erum með sumartíma á vetrarmánuðunum. Miðað við hnattstöðu erum við með rangan tíma yfir vetrarmánuðina. Það er alveg ljóst, það fer ekkert á milli mála. Hvernig það virkar á fólk, það getum við bara séð úti í þjóðfélaginu.