Tímareikningur á Íslandi

Þriðjudaginn 31. október 2000, kl. 19:05:08 (1035)

2000-10-31 19:05:08# 126. lþ. 16.10 fundur 124. mál: #A tímareikningur á Íslandi# frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 16. fundur, 126. lþ.

[19:05]

Guðjón Guðmundsson:

Herra forseti. Nú líður að kvöldi og ég býst við að forseti vilji fara að ljúka þessum fundi. Ég skal vera stuttorður en ég vil aðeins lýsa andstöðu minni við þetta frv. Sú andstaða stafar kannski fyrst og fremst af því að ég man enn hversu góð breyting mér þótti það fyrir rúmum 30 árum þegar við hættum að hringla með tímann. Ég hef aldrei séð eftir þeirri breytingu. Mér fannst hún í alla staði hin ágætasta.

Alþingi samþykkti þá lög þar sem sumartíminn var festur í sessi. Mér finnst því ekki alveg rétt þegar menn tala í þessum umræðum um sumartíma því við erum með sumartíma allt árið á Íslandi.

Hv. þm. hvatti menn til að lesa spjaldanna á milli þá grg. sem fylgir frv. og það höfum við að sjálfsögðu gert. Mér finnst hún vægast sagt afskaplega sérkennileg. Ég gæti vitnað í margt í henni en ætla ekki að eyða miklum tíma í það.

Í upphafi er mikið vitnað í Evrópusambandið og sagt að í skýrslu framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins til Evrópuþingsins og ráðherraráðsins, hvorki meira né minna, sé fjallað um áhrif sumartíma. Síðan segir, með leyfi forseta:

,,Athuganir framkvæmdastjórnarinnar leiddu í ljós að engin meiri háttar vandamál væru því samfara að viðhalda sumartíma í Evrópusambandinu þó að til séu þeir sem telja breytingar hafa óþægindi í för með sér.``

Þá segi ég: Athuganir mínar hafa leitt í ljós að engin meiri háttar vandamál eru því samfara að viðhalda sumartíma allt árið á Íslandi þó að til séu þeir sem telja að þær breytingar hafi óþægindi í för með sér, svo sem eins og hv. flutningsmenn þessa frv.

Í grg. er einnig vitnað í umsögn þar sem segir, með leyfi forseta, að það væri ,,tvímælalaust til bóta ef beinar sjónvarpsútsendingar frá knattspyrnuleikjum gætu hafist klukkustund síðar á deginum``. Mér finnst þessar útsendingar frá knattspyrnuleikjum --- ég og börn mín horfum mikið á þær --- á ágætum tíma. Börn og unglingar horfa mikið á þessar útsendingar og við sjáum t.d. að í meistarakeppni Evrópu eru sýndir tveir leikir á kvöldi. Síðari leiknum lýkur einhvern tímann að ganga 11 og ég held að það sé ágætur tími fyrir fjölskyldurnar og fyrir börnin, að þessum útsendingum ljúki á þeim tíma. Mér finnst þetta ekki gott innlegg í málið nema síður sé.

Svo er það þessi makalausa tilvitnun í reynslu Íra. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Ekki hafa borist neinar spurnir af því að geðheilsa íbúa vesturstrandar Írlands sé sérstaklega slæm eða að þar séu svefntruflanir meðal almennings meiri eða heilsufar almennt verra en gengur og gerist. Þvert á móti er mikill efnahagslegur uppgangur á vesturströnd Írlands og þar hefur tekist mun betur að skapa ný störf og laða að fólk en á Austurlandi, ...``

Það skyldi þó ekki vera að það leysti öll vandamál Austfirðinga að taka upp þennan Evrópusambandstíma. Við höfum rætt byggða- og atvinnumál á Austurlandi af miklum þunga í þinginu, ekki síst á síðasta þingi. Menn hafa rifist um hvort þar ætti að koma upp álveri til að leysa atvinnuvandann. Nú deila menn um hvort leyfa eigi sjókvíaeldi þar til að skapa atvinnu. En mér sýnist á þessu að hægt sé að leysa öll þessi vandamál með því að taka upp Evrópusambandstíma. Mér finnst þessi rök gersamlega út í hött. Þetta er svipað og við segðum: Það er búið að vera góðæri á Íslandi í fjöldamörg ár. Það er sennilega af því að við erum með sumartíma allt árið. Það eru álíka skarpleg rök.

Af því að Evrópusambandið vitnar um að menn séu almennt ánægðir með þetta þó að einhverjir telji að það hafi óþægindi í för með sér, hefur verið vakin athygli á því að Frakkar eru almennt mjög óánægðir með þetta. Það hefur komið fram í fréttum að þeir séu þreyttir á tilfærslu klukkunnar og hafi mikinn hug á að breyta í þá veru sem er hér á Íslandi, þ.e. láta klukkuna í friði, láta hana standa allt árið um kring án þess að hringlað sé með hana. Það hefur komið fram að þeir telja að þetta hringl með klukkuna leiði til þess að fólk sofi minna, þetta hafi áhrif á vellíðan eða vanlíðan fólks, breyti matarvenjum og valdi svefntruflunum. Frakkar hafa haldið því fram að það taki fólk allt að þrjár vikur að jafna sig og ná áttum eins og líkaminn þarf í hvert skipti sem klukkunni er breytt. Læknar í Frakklandi telja einnig að merki séu um aukna lyfjanotkun samfara breytingum á klukkunni og einnig hafa þeir sem þurfa að sjá um stillingu á tölvum og klukkum mikið að gera þegar skipt er um tíma. Það er því ekki svo að allir séu í himnasælu með slíkar breytingar.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta. Það mætti svo sem tína margt fleira til úr þessari grg. sem er allsérkennileg að mínu áliti. Ég læt hér staðar numið en hvet hv. þm. að fara að ráðum hv. þm. Arnbjargar Sveinsdóttur og lesa grg. alla. Ég býst við að við þann lestur muni þeim fækka sem verða við þeirri áskorun hv. þm. að samþykkja þetta frv.