Kjaramál framhaldsskólakennara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 13:55:28 (1053)

2000-11-01 13:55:28# 126. lþ. 17.91 fundur 76#B kjaramál framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 126. lþ.

[13:55]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Vegna ummæla um fjárlagfrv. á næsta ári og framhaldsskólann vil ég geta þess að þar er verið að ræða um 35 millj. kr. af um 500 millj. kr. hækkun til framhaldsskólans þegar menn tala um sérstök gæluverkefni mín. Ber það vott um það hvernig þessi málflutningur allur er hjá stjórnarandstöðunni þegar hún veltir þessum málum fyrir sér. Einnig það að menntmrn. hafi ekki látið að sér kveða í þessari deilu er algjörlega rangt. Menntmrn. hefur komið meira að þessum viðræðum um kjaramál kennara núna en nokkru sinni fyrr og lagt fram meiri upplýsingar og er betur í stakk búið en nokkru sinni fyrr til að koma að þessum málum. Fram hafa komið fjölmargar fyrirspurnir frá kennurum sem hefur öllum verið svarað skriflega um öll þau atriði sem fulltrúar kennara hafa spurt um. Ráðuneytið hefur lýst þeirri skoðun sinni, sem er alveg skýr, að við viljum búa við sveigjanlegt og opið kerfi þar sem faglegar forsendur stýri þróun og breytingum sem gerðar eru á skólastarfinu. Þetta höfum við sett skýrt fram og að skólastarf þurfi að vera með þeim hætti að nemendur eigi kost á fyrsta flokks þjónustu og kennarar búi við skapandi og gefandi starfsumhverfi.

Um leið og kjarasamningum er ætlað að kveða á um skyldur starfsmanna og tryggja rétt þeirra þurfa þeir að bjóða upp á sveigjanleika sem gerir skólum kleift að bregðast við breyttum kröfum til þeirra. Þetta eru meginsjónarmið menntmrn. sem við höfum sett fram um leið og við höfum svarað öllum spurningum sem fram hafa komið til okkar um nýbreytni í skólastarfi, um málefni einstakra starfsmanna, um skipulag fjarkennslu og alla þá þætti sem við höfum verið spurð um. Þetta liggur allt skriflega fyrir fyrir samninganefnd ríkisins og eins og ég segi þá hefur menntmrn. aldrei komið jafnskipulega að gerð kjarasamninga og verið hefur í þessari samningalotu.