Kjaramál framhaldsskólakennara

Miðvikudaginn 01. nóvember 2000, kl. 14:02:14 (1056)

2000-11-01 14:02:14# 126. lþ. 17.91 fundur 76#B kjaramál framhaldsskólakennara# (umræður utan dagskrár), SJóh
[prenta uppsett í dálka] 17. fundur, 126. lþ.

[14:02]

Sigríður Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Verkfall framhaldsskólanna skellur á ef ekki hafa náðst samningar fyrir 7. nóv. Ekki er því annað sýnna en að af því verði því þó ríkisstjórnin hafi haft heilt ár til að semja við framhaldsskólakennara hefur hún varla lyft til þess hendi og það er með ólíkindum að engar alvöruviðræður hafa farið fram fyrr en þá í þessari viku, sé hægt að kalla þær þreifingar samningaviðræður. Talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa á hinn bóginn lagt sig fram um að gera framhaldsskólakennara tortryggilega vegna launakrafna sem fjalla þó að miklu leyti um það eitt að fylgja í launum öðrum viðmiðunarstéttum.

Nú er það svo að standi samningaviðræður undir nafni þurfa viðsemjendur að leitast við að finna þann punkt sem þeir geta mæst á. Ég lít svo á að í þessu efni hafi samninganefnd ríkisstjórnarinnar með öllu brugðist. Engu er líkara en þeir sem á tyllidögum vilja láta hylla sig sem boðbera framfara í íslenskum skólum haldi að takist þeim að flæma úr starfi þá kennara sem fyrir eru muni þeir í framtíðinni geta tínt af trjánum þá hugsjónamenn sem helga vilja sig kennslu fyrir þá umbun eina sem felst í smánarlaunum og fimbulfambi sjálfumglaðra ráðamanna um mikilvægi menntunar.

Hæstv. forseti. Kennarar, nemendur, já raunar þjóðin öll hefur fyrir löngu fengið sig fullsadda á því menntakerfi sem gegnum tíðina hjakkar fram brautina dregin fram af yfirkeyrðum, illa launuðum kennurum og stýrt af þeim sem ekki hafa framtíðarstefnu heldur metnað til þess eins að vagninn hökti áfram frá degi til dags. Höfum við ekki þrek til að breyta nú um áherslur og semja um kennaralaun sem laða úrvalsfólk að starfinu þá mun okkar skömm vara lengi.