Blindrabókasafn Íslands

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 11:33:29 (1331)

2000-11-03 11:33:29# 126. lþ. 20.11 fundur 177. mál: #A Blindrabókasafn Íslands# (verkefni og stjórn) frv., menntmrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[11:33]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Fjmrn. hefur lagt mat á kostnað vegna frv. eins og skylt er. Þar kemur fram að frv. breyti ekki þeirri lagaskyldu Námsgagnastofnunar að tryggja að í grunnskólum sé ætíð völ á námsbókum og öðrum námsgögnum sem standast kröfur gildandi laga og aðalnámskrá. Að mati fjmrn. hafa breytingar á verkefnum Blindrabókasafns því ekki áhrif á útgjöld ríkissjóðs en það kemur fram í greinargerðinni að undanfarin tvö skólaár hafi Blindrabókasafnið komið að samvinnu við Námsgagnastofnun og séð um að færa á blindraletur efni frá Námsgagnastofnun gegn greiðslu frá stofnuninni. Ákveðið er samkvæmt þessu að það sé flæði milli þessara tveggja ríkisstofnana og ef Blindrabókasafnið tekur að sér verkefni sem nú eru á verksviði Námsgagnastofnunar, þá ætti það í sjálfu sér ekki að leiða til aukinna útgjalda fyrir ríkissjóð.