Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 11:48:47 (1335)

2000-11-03 11:48:47# 126. lþ. 20.12 fundur 175. mál: #A leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis# frv., SvanJ
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[11:48]

Svanfríður Jónasdóttir:

Herra forseti. Það er ástæða til að fagna því að þetta frv. er hér fram komið. Eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra er þörf á því að til sé löggjöf sem skýri réttarstöðu þeirra sem áhuga kynnu að hafa á því að leita, rannsaka eða vinna, ef svo heppilega vildi til, kolvetni af íslenska landgrunninu.

Það hefur ekki verið til slík löggjöf og fyrir liggur að þeir aðilar sem kynnu að hafa á því áhuga að hefja rannsóknir eða eftir atvikum vinnslu, treysti sér ekki til slíks nema réttarstaða þeirra sé skýrð með svipuðum hætti væntanlega og gert er hjá nágrannaþjóðum okkar, sem hefur verið leitað í smiðju til við gerð þessa frv., og þá einnig í samræmi við það hvernig þessum málum er háttað hjá Evrópusambandinu.

Eins og fram kemur í 1. gr. frv. er talað um að lögin taki til leitar, rannsókna og vinnslu kolvetnis og flutnings þess eftir leiðslukerfi í landhelgi, efnahagslögsögu og landgrunni. Eins og hæstv. ráðherra gat um áðan þá hafa þær takmörkuðu rannsóknir, eða sú takmarkaða leit skulum við segja, sem fram hefur farið við Ísland leitt í ljós að það kann að vera einhver möguleiki á því að olía eða gas finnist. Sá möguleiki er ekki mikill á setlögunum fyrir norðan landið en þó einhver og það kann líka að breytast við frekari skoðun. Við erum auðvitað líka að horfa til annarra svæða eins og Jan Mayen-svæðisins og Hatton-Rockall svæðisins og þá skiptir verulegu máli að við náum að rökstyðja kröfu okkar gagnvart landgrunnsnefnd Sameinuðu þjóðanna í samræmi við hafréttarsáttmálann á þann veg að við fáum þau réttindi sem við teljum að okkur beri miðað við íslenska landgrunnið og hvernig það verður skilgreint.

Herra forseti. Ég ætla að víkja að nokkrum atriðum sem ég vil ýmist fá svör við eða velta upp vegna þess að mér finnst að þau þurfi að skoða frekar í nefnd.

Það er í fyrsta lagi spurningin um viðkomandi 2. gr. þar sem verið er að skilgreina leit og síðar 6. gr. þar sem talað er um leyfi til leitar. Af hverju er ekki gert ráð fyrir því að auglýst sé eftir þeim aðilum sem fá leyfi til leitar? Það kemur ekki fram í greininni að það eigi að gera. Það kemur ekki heldur fram í þeim skýringum sem fylgja. Eigi að síður kemur fram í skýringu að það geti hugsast, eða eins og hér segir, með leyfi forseta:

,,Þó getur hugsast að svo ólíklegt sé að kolvetni finnist á ákveðnum svæðum að stjórnvöld semji svo um við aðila, sem fær leyfi til þess að leita að kolvetni, að hann njóti forgangsréttar þegar kemur að því að rannsaka og vinna kolvetni.``

Ég svona velti því fyrir mér af hverju ekki er gert ráð fyrir auglýsingu gagnvart þeim aðilum sem vilja leita fyrst menn gera þó ráð fyrir því að slíkur aðili geti hugsanlega samið um forgangsrétt af því að um leið og við erum komin inn í rannsóknir og síðan vinnsluþáttinn, sem hangir að ákveðnu leyti saman, þá erum við auðvitað komin að atriðum þar sem við teljum, og fram kemur í frv. og er í reglum nágrannaþjóðanna, að mikilvægt sé að aðilar njóti jafnræðis, að allir eigi aðgang að. Mér finnst þetta vera atriði sem við þurfum að skoða nánar, þ.e. hvort við getum verið með þetta í þessum búningi, að menn geti fengið leitarleyfi án undangenginnar auglýsingar og þá hugsanlega samkeppni um leitarleyfið fyrst gert er ráð fyrir því að í einhverjum tilvikum geti síðan verið um forgang að ræða til rannsókna og vinnslu.

Herra forseti. Ég vil líka spyrja hæstv. ráðherra í hvaða tilvikum það geti komið til að úthlutað sé rannsóknar- og vinnsluleyfum án auglýsinga. Í 4. mgr. 8. gr. er slíkt ákvæði, ákvæði um að iðnrh. sé heimilt að veita leyfi til rannsókna og vinnslu kolvetnis án auglýsingar. Þetta ákvæði um leyfisveitingu án auglýsingar kemur eftir að búið er að tíunda í fyrri málsgreinum að að jafnaði skuli auglýsa eftir umsækjendum, hvernig standa eigi að auglýsingu og sérstaklega tekið fram að við veitingu leyfis skuli umsækjendum ekki mismunað og að jafnræðis skuli gætt. Jafnframt að leyfið skuli veitt á grundvelli hlutlægra viðmiðana og að þessar hlutlægu viðmiðanir þurfi að hafa verið gerðar opinberar, þ.e. allir aðilar eiga að vita hver skilyrðin eru. Því spyr ég: Hvernig víkur því þá við eða hvaða aðstæður eru það sem upp geta komið að iðnrh. geti veitt leyfi til rannsókna og vinnslu án auglýsingar? Svo kemur hér ákvæði um að þessa ákvörðun eigi að tilkynna í Lögbirtingablaðinu og Stjórnartíðindum Evrópubandalagsins.

Herra forseti. Miðað við þá almennu reglu sem er í frv. þurfum við að skoða undantekningar eins og þessar mjög nákvæmlega.

Í 11. gr. er síðan farið yfir þau atriði sem þurfa að vera í rannsóknar- og vinnsluleyfi. Þetta eru 15 atriði og í inngangi segir að í rannsóknar- og vinnsluleyfi skuli m.a. tilgreina þessi 15. Ekkert mælir á móti því að þau geti jafnvel orðið enn þá fleiri ef svo ber undir. En þarna eru sem sé rakin þau atriði sem talið er nauðsynlegt að komi fram strax þegar rannsóknar- og vinnsluleyfi er veitt og ég tek eftir því, herra forseti, að í 13. og 14. lið er gert ráð fyrir kostnaðargreiðslum, bæði greiðslu kostnaðar við mat á umsækjanda og veitingu leyfisins og einnig greiðslu kostnaðar vegna eftirlits með starfseminni.

Í 15. lið er síðan talað um önnur gjöld. Þar virðist vera um valkosti að ræða, að það geti verið gjald í samræmi við stærð svæðisins eða gjald í samræmi við verðmæti þess kolvetnis sem unnið er. Nú veit ég ekki hvort þetta er haft svona vegna þess að ráðuneytið vill hafa ákveðinn sveigjanleika í því hvernig önnur gjöld eru innheimt, hvaða viðmið eru notuð. Ég velti því líka fyrir mér hvort nokkuð í þessu ákvæði komi í veg fyrir að tilboð geti verið aðgengileg. Mér finnst að það sé mjög eðlilegt að menn reyni að búa til strax í þessum reglum ákveðin viðmið og það þarf að fara yfir það hvernig þetta virkar í rauninni gagnvart leyfishöfum og einnig hvernig þetta virkar gagnvart eigandanum sem samkvæmt frv. er íslenska ríkið. Við þurfum að skoða þessi ákvæði mjög vandlega með tilliti til þess að hér kynni að vera um þannig auðlind að ræða að þess gæti verið að vænta að af henni yrðu tekjur sem um munaði. Þess vegna er mjög mikilvægt að þannig sé um búið að íslenska ríkið, íslenska þjóðin fái það afgjald af nýtingu auðlindarinnar sem eðlilegt og sanngjarnt getur talist.

Herra forseti. Hér er líka atriði sem lýtur að umhverfismálum sem ég held að við ættum að skoða betur. Í 21. gr., grein sem heitir Mat á umvherfisáhrifum, segir að við veitingu leyfis eða samþykkis fyrir starfsemi samkvæmt þessum kafla skuli gæta ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum. Það er gert ráð fyrir því að hér verði farið eftir lögum um mat á umhverfisáhrifum og væntanlega þarf þá að breyta þeim til þess að taka til þeirrar fjölbreyttu starfsemi sem kann að leiða af þessari löggjöf ef leit gefur tilefni til.

Ég velti því hins vegar fyrir mér af hverju við förum ekki svipaða leið og mér sýnist að Norðmenn hafi farið en samkvæmt þeim upplýsingum sem koma í greinargerð virðist það vera þannig hjá þeim að áður en leitin hefst, ekki áður en rannsókn og vinnsla hefst heldur áður en leitin hefst, þurfi að hafa farið fram mat á umhverfisáhrifum auk mats á efnahagslegum og félagslegum áhrifum starfseminnar. Ég held að það skipti máli fyrir okkur að þannig sé gengið frá þessum málum að ekki þurfi að skapast deilur um það hvort leyfi til leitar, rannsóknar eða vinnslu þurfi að fara í unhverfismat, að löggjöfin sé alveg skýr að þessu leyti. Ég velti fyrir mér hvort þessi vísun í lögin um mat á umhverfisáhrifum er nægjanleg eða hvort það þarf að kveða sterkar að orði. Fyrst og fremst velti ég því fyrir mér hvort við getum fundið leiðir til að koma í veg fyrir deilur og tortryggni sem ávallt fylgir deilum sem upp kynnu að koma ef þessir hlutir eru ekki algjörlega á hreinu hjá okkur. Þetta er það sem slær mig við fyrsta yfirlestur frv. og þess vegna held ég að nauðsynlegt sé að á þetta verði litið.

[12:00]

Í máli hæstv. ráðherra kom fram að sérleyfi mundi vera það fyrirkomulag sem hentaði okkur best, enda væri það það fyrirkomulag sem nágrannaríki okkar og þeir sem við erum að miða okkur við og erum í rauninni að leita til varðandi löggjöf okkar er sú aðferð sem þeir aðilar hafa notað. Ég sé í sjálfu sér ekkert í fljótu bragði sem ætti að koma í veg fyrir að það yrði líka sú aðferð sem við mundum nota. Við hljótum auðvitað fyrst og fremst að horfa til þess að jafnræðis sé gætt við úthlutun slíkra leyfa, að þjóðin fái eðlilegan og sanngjarnan arð af þessari eign sinni og að umhverfismálin séu í því horfi að umhverfinu verði ekki spillt. Ef þessi ákvæði eru uppfyllt sýnist mér að það fyrirkomulag að veita sérleyfi geti af efnahagslegum ástæðum verið ákjósanlegt fyrirkomulag.

Eins og fram hefur komið er hér um rammalöggjöf að ræða, rammalöggjöf til að skýra réttarstöðu og þess vegna eru ótal mörg atriði, ótal margar greinar sem enda á því að síðan sé það ráðherra að setja frekari reglur. Við erum að fjalla um löggjöf sem getur skipt verulegu máli, en það kom mér satt að segja svolítið á óvart, herra forseti, og ég vildi gjarnan fá frekari skýringar á því, að fram kemur að ekki þótti ástæða til að setja jafnítarlega löggjöf og í nágrannalöndunum af því að minni líkur væru á að kolvetni fyndist hér í nægjanlegu magni. Mér finnst svona röksemdafærsla kannski ekki alveg boðleg, að af því að minni líkur séu á að kolvetni finnist sé ekki ástæða til jafnítarlegrar löggjafar og í nágrannalöndunum. Ég velti fyrir mér, á þá að mæta óvæntum uppákomum, sem þó eru þekktar í nágrannaríkjunum og tekist er á við með löggjöf, með reglugerðum eða hvaða úrræði hafa menn þá ef löggjöfin er of takmörkuð og bregðast þarf við? Hvaða atriði eru það aðallega sem eru ekki jafnítarleg í okkar löggjöf og löggjöf nágrannaríkjanna? Almennt séð er það ekki góð venja í lögum að segja að ekki þurfi ítarlega löggjöf þar sem minni líkur séu á einhverju. Geta menn þá velt fyrir sér t.d. refsilöggjöfinni íslensku þar sem eru jú ítarleg ákvæði, það er ítarleg löggjöf með ítarlegum ákvæðum jafnvel gagnvart brotum sem eru tiltölulega litlar líkur á, blessunarlega, að verði framin. Mér finnst, herra forseti, þessi rökstuðningur ekki algjörlega boðlegur og kemur væntanlega fram skýring á því annaðhvort hér á eftir eða síðar við vinnslu málsins.

Ég er sammála því sem fram kemur að auðvitað er æskilegast að þetta mál fái skjótan framgang en sá framgangur þarf líka að byggja á vandaðri umfjöllun því að hér er um það mikilvægt mál að ræða.

Ljóst er að það frv. sem við erum með í höndunum er að ákveðnu leyti framhald af ályktun Alþingis frá árinu 1997 þar sem farið var í að skoða möguleika á olíu- eða gasfundi á landgrunni Íslands en eins og menn þekkja kom út ágæt skýrsla um þau atriði haustið 1998 þar sem niðurstaðan varð sú að verðmæt olíuefni kynnu að leynast á íslenska landgrunninu. Eins og ég gat um áðan eru það kannski ekki stórir möguleikar í dag en mjög ítarleg leit hefur heldur ekki farið fram.

Í framhaldi af þessum niðurstöðum er þörf á löggjöf um leit, rannsóknir og vinnslu og eins og fram kom hjá hæstv. ráðherra er sú þörf ekki hvað síst sprottin af því að erlendir aðilar hafa sýnt því áhuga að skoða þessi mál nánar. En af því að hér er um svo kostnaðarsamar aðgerðir að ræða eru menn ekki tilbúnir til að fara inn í slíka hluti nema réttarstaða þeirra sé skýrð sem er þá verið að gera atlögu að með þessu frv.

Eins og ég sagði, herra forseti, hefur komið fram að þetta frv. er byggt á norsku og dönsku lögunum auk þess sem vísað er til Evrópusambandsins og þeirrar samþykktar sem um þessi mál gildir þar. Ég tek eftir því þegar ég skoða það sem fram kemur í greinargerðinni um löggjöf nágrannaríkjanna að þar er ekki mikið fjallað um gjaldtöku eða hvernig farið er með slík mál. Einhvern grun hef ég um að þar sé um að ræða sérstök lög sem lúta að sköttum og gjöldum. Það er því spurning til hæstv. ráðherra hvort við eigum þá von í framhaldinu á frv. um slíka hluti eða hvernig ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra hefur hugsað sér þá nálgun. Eins og ég fór yfir áðan er í 11. gr. farið yfir kostnaðargjöld og önnur gjöld en það væri fróðlegt samt sem áður að heyra hvernig þetta er hugsað í framhaldinu.