Leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis

Föstudaginn 03. nóvember 2000, kl. 13:56:34 (1345)

2000-11-03 13:56:34# 126. lþ. 20.12 fundur 175. mál: #A leit, rannsóknir og vinnsla kolvetnis# frv., iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 20. fundur, 126. lþ.

[13:56]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég þakka fyrir þá ágætu umræðu sem hér hefur farið fram og mjög svo jákvæðu umræðu að ég tel. Ég þakka hv. þm. stjórnarandstöðunnar fyrir hvað þeir hafa verið jákvæðir gagnvart málinu. Hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson bætti mjög úr í síðari ræðu sinni en mér fannst tónn hans í hinni fyrri ekki alveg eðlilegur miðað við það að hann hefur viljað láta líta á sig sem aðalbaráttumann þess að sett verði lög á þessu sviði og nú lítur frv. dagsins ljós að hans mati 30 árum of seint. Þá hlýtur hann að vera glaður og ég skildi seinni ræðuna þannig að hann er glaður og það gleður mig líka.

Það eru nokkur atriði sem hv. þm. hafa spurt um eins og eðlilegt er og að vísu er það hin hefðbundna regla að farið sé ofan í hverja einstaka grein í nefndarstarfi. Ég efast ekki um hv. iðnn. mun leysa það vel af hendi. Ég get tekið undir með síðasta ræðumanni og ýmsum fleirum hvað það varðar að engin ástæða er til að vera allt of bjartsýnn um að hér finnist miklar auðlindir af kolvetni eða olíu. Hins vegar er algerlega ljóst að við þurfum að setja um þetta lög til þess að á þetta geti reynt fyrir einhverri alvöru og til þess er leikurinn gerður. Þetta er rammalöggjöf og má kannski gagnrýna að ekki sé nægilega skýrt kveðið á um ýmis atriði í lagatextanum. Hins vegar er það þannig með t.d. Norðmenn að þeir hafa látið framkvæmdina ráða miklu um löggjöfina. Miðað við það að á þessari stundu vitum við ekkert um árangur væri það að mínu mati dálítið broslegt ef við færum þannig í þetta mál að setja löggjöf sem kvæði á um hin smæstu atriði. Ég tel að það sé frekar seinni tíma mál ef svo vel vill til að þarna verði um árangur að ræða og auðvitað er það ósk okkar allra.

Um það sem hv. þm. Svanfríður Jónasdóttir talaði og varðar auglýsingar er ekki talin ástæða til þess í sambandi við leitina að það sé sérstaklega auglýst því það á að vera auðvelt að fá leyfi til þess að leita. Þegar að því kemur að rannsaka eða vinna er meginreglan sú að það þurfi leyfi. Hins vegar er það þannig á þeim svæðum sem þykja mjög ólíkleg og má segja að viðkomandi fyrirtæki taki það mikla áhættu sjálft að ekki sé ástæða til að hafa mjög þröngar skorður. Þetta er pólitík sem er stunduð og meira að segja sjálft Evrópusambandið er með tilskipun sem varðar þetta ákvæði, Open Door Policy kallast það.

[14:00]

Ég held því að við hljótum að líta til þjóða sem hafa meiri reynslu og laga okkur að þeim ákvæðum og reglum sem þær setja sér.

Síðan var talað um gjöldin og þó nokkuð margir töldu ástæðu til þess að gera 15. lið 11. gr. að umtalsefni. Að sjálfsögðu verður að skoða í nefndinni hvort það sé ekki rétt nálgun og réttur texti sem hér er tillaga um. En hvað það varðar að nánar þurfi að kveða á um mat á umhverfisáhrifum í þessari löggjöf þá tel ég að svo sé alls ekki. Langar mig í því sambandi að lesa upp 2. gr. laga um mat á umhverfisáhrifum sem er svona, með leyfi forseta:

,,Lög þessi gilda um allar framkvæmdir sem kunna að hafa í för með sér umtalsverð umhverfisáhrif hvort heldur er á landi, í landhelgi, lofthelgi eða í mengunarlögsögu Íslands.``

Í lögum sem sett voru í vor um eignarrétt íslenska ríkisins að auðlindum hafsbotnsins er ákvæði í 4. gr. sem segir, með leyfi forseta:

,,Við veitingu leyfa samkvæmt lögum þessum skal gætt ákvæða laga um mat á umhverfisáhrifum.``

Ég vil því leyfa mér að halda því fram að þetta sé hin hefðbundna leið sem hér er farin og að ekki þurfi frekar að kveða á um mat á umhverfisáhrifum í þessum lögum. En auðvitað er það allt til athugunar í nefnd.

Hv. þm. sögðu að ráðherra ætti að setja mikið af reglum og hefði kannski dálítið mikið vald samkvæmt þessum lagatexta. En þá vitna ég til þess sem ég sagði áður að það er að mínu mati ekki rétt að kveða mjög nákvæmlega á um öll atriði í þessari löggjöf sem er rammalöggjöf eins og svo oft hefur komið fram.

Um skattahlið málsins er það að segja að auðvitað er farið að lögum um tekjuskatt og eignarskatt og um þau hlutafélög sem hugsanlega ættu hér í hlut gilda lög um skattlagningu hlutafélaga. Ef þetta yrði umfangsmikil atvinnugrein yrði að sjálfsögðu til skoðunar að velta fyrir sér sérstakri löggjöf hvað skattaþáttinn varðar í samvinnu við fjmrn.

Svo er það í sambandi við 20. gr. Komið var inn á þá grein af nokkrum þingmönnum, a.m.k. nefndi hv. þm. Guðmundur Hallvarðsson 20. gr. Það sem þarna liggur til grundvallar er að ástæða þykir til þess að ,,infrastrúktúr``, ef svo má að orði komast, sé ekki byggður upp af mörgum aðilum heldur sé um það að ræða að nýta það sem til er og skylda menn á vissan hátt til þess að samnýta. Það er líka leið sem aðrar þjóðir hafa farið.

Spurt var um auðlindalöggjöfina almennt og hvort hér væri um stefnubreytingu að ræða í sambandi við greiðslu gjalds og vitnað til auðlindaskýrslunnar í því sambandi. Hér er ekki um stefnubreytingu að ræða og ef hv. þm. vilja setja þetta í rétta röð má gjarnan láta það koma fram að frv. leit dagsins ljós sl. vor, en hins vegar skilaði auðlindanefnd ekki af sér fyrr en síðar þannig að vera má að auðlindanefndin hafi haft þetta frv. sérstaklega í huga þegar hún setti niður ákvæði í sína skýrslu.

Ég held ég komi ekkert inn á fleiri atriði sem sérstaklega var spurt um í sambandi við greinar frv. en ég vil segja í lokin um það sem hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir talaði um varðandi Hatton-Rockall svæðið þar sem líkurnar eru kannski mestar á því að þessa auðlind sé að finna, að réttarstaða er ekki ljós á þessari stundu hvað það varðar. Hins vegar munu íslensk stjórnvöld skila kröfum og verða að skila kröfum fyrir árið 2004 um þetta svæði og önnur þar sem ekki hefur náðst niðurstaða og síðan hefur nefnd á vegum Sameinuðu þjóðanna það hlutverk að vinna úr kröfugerð ríkjanna. Mörg ríki gera kröfur inn á þetta svæði og við höfum þar engu minni möguleika en aðrar þjóðir. Á þessari stundu eru þessi mál því miður ekki algjörlega skýr. En úr því verður bætt.

Ég vil að lokum segja að frv. er rammalöggjöf. Möguleikarnir eru nokkrir. Það er ljóst að erlend fyrirtæki sem hafa sýnt áhuga munu ekki koma og leggja í kostnað í efnahagslögsögu okkar án þess að hér gildi lög um leit, rannsóknir og vinnslu kolvetnis. Þess vegna er mikilvægt að við setjum lögin og ég vonast til þess að eiga gott samstarf við þingið um það mál.