Tekjustofnar sveitarfélaga

Fimmtudaginn 09. nóvember 2000, kl. 10:33:03 (1460)

2000-11-09 10:33:03# 126. lþ. 22.5 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., félmrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 22. fundur, 126. lþ.

[10:33]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um tekjustofna sveitarfélaga. Þetta frv. er byggt á tillögum svokallaðrar tekjustofnanefndar sem verið hefur að störfum undir forustu hv. þm. Jóns Kristjánssonar. Nefndin var annars skipuð hv. þm. Guðmundi Árna Stefánssyni og Arnbjörgu Sveinsdóttur ásamt fulltrúum sveitarfélaganna, Eggert Jónssyni borgarhagfræðingi, Guðmundi Bjarnasyni, bæjarstjóra í Neskaupstað, og Ingimundi Sigurpálssyni, sem var bæjarstjóri í Garðabæ en er nú orðinn forstjóri Eimskipafélagsins. Frá fjmrn. sat í þessari nefnd Bolli Bollason og starfsmenn félmrn. unnu einnig með nefndinni.

Þessi nefnd náði sameiginlegri niðurstöðu sem allir skrifuðu undir. Fulltrúi stjórnarandstöðunnar, hv. þm. Guðmundur Árni Stefánsson, skrifaði að vísu undir með fyrirvara og fulltrúar sveitarfélaganna voru með bókun þar sem þeir töldu, eins og þar segir, ,,öll rök benda til þess að auka þurfi árlegar tekjur sveitarfélaganna í heild um 6--7 milljarða króna.

Í erindisbréfi nefndarinnar var kveðið á um hlutverk hennar og ítrekað að markmið slíkrar endurskoðunar ætti að vera að tryggja að tekjustofnar sveitarfélaganna séu á hverjum tíma í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögunum er lögskylt að sinna. Þar segir enn fremur að stefnt skuli að því með endurskoðuninni að viðhalda einföldu og sveigjanlegu tekjustofnakerfi sem jafnframt skapi sveitarfélögunum nægilega tekjustofna til að sinna lögbundnum verkefnum.

Í stuttu máli er efni þessa frv. að hámarksútsvarsprósentan verður hækkuð í tveimur áföngum og hækkunin nemur samtals tæpu prósentustigi eða 0,99 prósentustigum. Þessi tekjuauki sveitarfélaganna, ef fullnýttur verður, er um 3,8--4 milljarðar. Í fyrri áfanga er lagt til að frá 1. janúar 2001 hækki hámarksheimild til útsvarsálagningar um 0,66 prósentustig og verði því 12,70 í stað 12,04 eins og nú er. Á móti lækki tekjuskattsprósenta ríkisins um 0,33%. Lágmarksútsvarsprósentan verði óbreytt eða 11,24. Í seinni áfanga er lagt til að frá 1. janúar 2002 hækki hámarksheimild til útsvarsálagningar um 0,33 prósentustig og verði því 13,03% í stað 12,70 miðað við fyrri áfanga og enn þá verði lágmarksútsvarið óbreytt. Þarna skapast sveitarfélögunum svigrúm til að ákveða útsvar á talsverðu bili.

Í þessu frv. er líka gert ráð fyrir því, eins og í tillögum nefndarinnar, að álagningarstofn fasteignaskatts verði fasteignamat. Sú breyting hefur í för með sér verulega lækkaðar álögur fyrir einstaklinga og fyrirtæki utan höfuðborgarsvæðisins en snertir ekki höfuðborgarsvæðið. En með þessari breytingu er skatturinn lagður á raunverulegt verðmæti fasteigna.

Einnig er samkomulag um það, þó þess sé ekki getið í þessu frv., að ríkið leggi 700 millj. í Jöfnunarsjóð sveitarfélaga á fjáraukalögum ársins 2000 og 700 millj. á fjárlögum næsta árs og að á árinu í ár verði þessum 700 millj. varið með svipuðum hætti og fólksfækkunar- og þjónustuframlögunum á síðasta ári en síðan verði framlaginu á árinu 2001 eða úthlutunarreglunum e.t.v. breytt. Ríkið leggur þannig sveitarfélögunum til 1.250--1.300 millj. af tekjuskatti, 1.100 millj. til að leiðrétta fasteignaskatt og tvisvar sinnum 700 millj. eða alls 1.400 millj. í fólksfækkunar- og tekjufallsframlag, þ.e. 3,8 milljarða beint úr ríkissjóði og þar að auki rýmka álagningarheimildir sveitarfélaganna um 0,66% eða um 2.500 millj. í tveimur áföngum.

Rétt er að undirstrika að verkefni nefndarinnar var að tryggja að tekjustofnar sveitarfélaga væru í samræmi við þau verkefni sem sveitarfélögunum er lögskylt að sinna. Það var aldrei meiningin að tekjuauki sveitarfélaga kæmi allur frá ríkinu. Sjálfstæði sveitarfélaganna fylgir nefnilega ábyrgð og möguleikar til ákvarðanatöku fyrir sveitarstjórnarmenn.

Nú skal ég ekki fullyrða um hvort sveitarfélögin telja sig þurfa að nýta þessar heimildir að fullu. Ég geri þó fremur ráð fyrr því að langflest geri það. Ég veit að Samband íslenskra sveitarfélaga er því fylgjandi að sveitarfélögin nýti þá tekjustofna sem þeim eru þarna fengnir.

Í dag er vegið meðalútsvar 11,96% en hámarkið er eins og menn vita 12,04% miðað við álagninguna vegna ársins 2000. 81 af sveitarfélögunum í landinu er með hámarksútsvar, 6 eru með lágmarksútsvar en 37 þar á milli. Fullnýti sveitarfélag heimild til hækkunar útsvars á næsta ári þá hækkar útsvar einstaklings með 2 millj. kr. tekjur á næsta ári um 6 þús. kr. Menn geta velt fyrir sér hvort um skattahækkun yrði að ræða hjá þeim sveitarfélögum sem nýttu hækkunarheimildirnar. Það er ekki alveg gefið. Í fyrsta lagi verkar breyting fasteignaskatta sem skattalækkun þar sem matsverð er lægra en í Reykjavík. Í öðru lagi hefur stórfelld hækkun barnabóta verið ákveðin og í þriðja lagi léttir hinn nýi fæðingarorlofssjóður verulegum kostnaði af sveitarfélögunum.

Þörfin fyrir tekjuaukann er líka mjög mismunandi hjá sveitarfélögunum. Frá 1996--1999 hafa útsvarsstofnar á höfuðborgarsvæðinu hækkað á föstu verðlagi um 31,5%, hæst í Kópavogi um 51,2%. En á móti þessu 31,5% sem útsvarsstofninn hefur hækkað á höfuðborgarsvæðinu þá hefur hann ekki hækkað á landsbyggðinni nema um 17,2%, þ.e. nær helmingi minna en á höfuðborgarsvæðinu. Á milli áranna 1998 og 1999 hækkaði útsvarsstofn í Reykjavík um 10,7 milljarða, í Kópavogi um rúma 3 milljarða og í Hafnarfirði um 2 milljarða. Fasteignaskattsstofnanir hafa líka breyst á milli áranna 1997 og 2000. Á höfuðborgarsvæðinu hafa þeir hækkað um 27,2% en 22,4% annars staðar. Það má geta þess að á Vestfjörðum hefur t.d. útsvarsstofninn ekki hækkað nema um 6,5% á móti þessu 51% sem hæst var í Kópavogi. Á þessu má sjá að aðstaða sveitarfélaganna er mjög misjöfn og þörfin fyrir auknar tekjur mjög mismunandi.

Vinna er að hefjast við endurskoðun á reglum Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Það er líka að hefjast eða í undirbúningi starf við fækkun undanþágna samkvæmt tillögum tekjustofnanefndarinnar, undaþága frá fasteignaskatti. En eins og menn vita eru ýmsar sameiginlegar eignir undanþegnar fasteignaskatti, kirkjur, skólar, sum orkuver, félagsheimili o.s.frv.

En það er fleira sem hefur áhrif á möguleika sveitarsjóða og gjaldþol heimila. Mér er sérstök ánægja að tala um frv. sem er til meðferðar í þinginu um stórhækkun barnabóta. Með frv. þessu eru lagðar til breytingar á fjárhæðum barnabóta og skerðingarmörkum þeirra og eignatengingar eru afnumdar. Föst fjárhæð barnabóta er ákveðin til allra barna yngri en sjö ára 33.470 kr. (GÁS: Hvað kemur það sveitarstjórnum við?) og fjárhæðir barnabóta verða hækkaðar í þremur áföngum. Það er rétt að þetta kemur ekki sveitarsjóðunum beint við en þetta kemur hins vegar gjaldendunum við, þ.e. þeim sem eiga börn. Þannig er þetta allt hluti af dæminu.

Skerðingarmörk barnabóta hækka um 17% og skerðingar á árunum 2001--2003 og skerðingarhlutföll hækka um 2 prósentustig eða nálega þriðjung. Eignatenging barnabóta verður afnumin og barnabætur hækka um þriðjung eða alls 2 milljarða. Þessi útfærsla er að mínu mati mjög skynsamleg og þetta fyrirkomulag bætir hag allra fjölskyldna með börn undir sjö ára aldri. Þar að auki bætir það verulega hag allra fjölskyldna með lægri og meðaltekjur auk þess sem eignatenging barnabóta er afnumin. Þarna mun sú fjárhæð sem fer til barnabóta hækka um 2 milljarða í áföngum á næstu þremur árum. Það er meira en þriðjungshækkun á heildarupphæð barnabóta. Þetta tel ég mjög mikilvæga breytingu og fagna henni ákaflega, enda gáfum við framsóknarmenn fyrirheit í þessu efni fyrir síðustu kosningar.

[10:45]

Fæðingarorlofssjóðurinn sem settur var á stofn í fyrravor með lögum sem hér voru samþykkt léttir 400 millj. árlega af sveitarsjóðunum sem þeir hafa borið og greitt í fæðingarorlof. Þegar þetta er allt tekið saman þá leikur enginn vafi á því að hlutur sveitarsjóðanna hefur verið réttur stórkostlega og ríkið hefur spilað út miklum fjárhæðum. Ég fullyrði að sveitarfélögin hafa út úr þessum ákvörðunum, og heimildum sem þau eiga völ á að nota, fyllilega þá upphæð sem fulltrúar þeirra í tekjustofnanefndinni töldu að vantaði, þ.e. 6--7 milljarða. Það kann að vera að ég hafi gleymt að geta þess að ónýttar heimildir í útsvari hjá sveitarfélögunum nú eru samtals um 400 millj.

Þar að auki er unnið að lausn sérstaks fjárhagsvanda nokkurra sveitarfélaga á Vestfjörðum en þau hafa orðið illilega úti m.a. vegna fólksfækkunar og vilji ríkisins stendur til að aðstoða þau til að komast á raunhæfan rekstrargrundvöll.

Samkvæmt samningi skal í ár endurmeta kostnað sveitarfélaga við yfirfærslu grunnskólans, þ.e. breytingar sem ákveðnar er af ríkinu, breytingu á aðalnámskrá, lengdum skóladegi, fjölgun skóladaga og þess háttar. Það er hlutverk sérstakrar nefndar að yfirfara það mál, en sú nefnd hefur ekki lokið störfum, því miður. Ég tek þetta fram hér því að þetta var ekki á verkefnalista nefndar hv. þm. Jóns Kristjánssonar. Þetta var sérstök nefnd í grunnskólamálinu, grunnskólakostnaðinum.

Það eru nokkur fleiri atriði sem ég vildi koma að, herra forseti. Í fyrsta lagi vil ég benda á 2. gr. frv. Í því ákvæði sem er í 2. gr. er lagt til að allar jarðeignir og hlunnindi verði skattlagðar á sama hátt, óháð því hvort þær eru nytjaðar til landbúnaðar eða ekki. Núverandi framkvæmd hefur reynst vandkvæðum bundin sökum þess að það getur reynst erfitt að ákvarða hvort jörð er í reynd nytjuð til landbúnaðar. Þá hafa dómar Hæstaréttar Íslands frá 18. júní 1999, í málum nr. 450 og 451/1998, orðið til að vekja vafa um hvort mismunandi álagningarprósenta fasteignaskatts á jarðeignir og hlunnindi eftir notum stríði gegn jafnræðisreglu 65. gr. stjórnarskrárinnar.

Í 3. gr. frv. er ákvæði sem ætlað er að skýra hvaða mannvirki sæti hærri álagningarprósentu en þau mannvirki sem falla undir undantekningarákvæði a-liðar 3. mgr. 3. gr. laganna. Eru því sérstaklega talin upp mannvirki sem valdið hafa vafa við framkvæmd núgildandi ákvæða, svo sem fiskeldismannvirki, mannvirki tengd ferðaþjónustu, veiðihús o.s.frv. Talsverður styr hefur staðið um mismunandi álagningu sem víða hefur verið tíðkuð á annars vegar bændagistingu og sumarhús tengd ferðaþjónustu og hins vegar hótel og veitingahús. Skal í því sambandi bent á úrskurð yfirfasteignamatsnefndar frá 9. maí 1997, í máli nr. 8/1996. Þar varð niðurstaðan sú að bændagisting, þar sem ákveðinn hluti húss hafði verið innréttaður gagngert í því augnamiði að leigja til gistingar, félli utan ramma venjulegs landbúnaðar. Gat sá hluti húss sem þetta átti við um því ekki fallið undir undantekningarákvæði a-liðar.

Síðan vil ég segja um 4. gr. frv. að henni er ætlað að tryggja að þau sveitarfélög sem verða fyrir tekjutapi vegna breytingar þeirrar sem lögð er til í 1. gr. frumvarpsins, þ.e. að ganga út frá fasteignamati eins og það er á hverjum stað, verði jafnsett og áður. Í greininni er gert ráð fyrir að framlag úr ríkissjóði til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga vegna þessa nemi 0,64% af skatttekjum ríkissjóðs af beinum og óbeinum sköttum, eða 1,1 milljarði kr. á núvirði til að jafna stöðu sveitarfélaga. Með þessum hætti er tryggt að lækkunin mun skila sér beint til þeirra gjaldenda sem góðs njóta af breytingunni. Kemur framlagið til viðbótar þeim 1,4% af skatttekjum ríkissjóðs af beinum og óbeinum sköttum, sem innheimtir eru í ríkissjóð, er Jöfnunarsjóður fær skv. a-lið 1. mgr. 8. gr. tekjustofnalaganna.

Herra forseti. Á fjármálaráðstefnu sveitarfélaganna sem nýlega var haldin hér í borginni voru þessar tillögur tekjustofnanefndar ræddar ítarlega og ég verð að segja að sveitarstjórnarmenn tóku þeim yfirleitt og nær undantekningarlaust vel þannig að ég tel að nefnd hv. þm. Jóns Kristjánssonar hafi unnið mjög gott starf og rétt hlut sveitarfélaganna verulega þannig að þau ættu að geta búið við þetta um sinn og sinnt sínum lögskyldu verkefnum með fullnægjandi hætti.

Ég vil að endingu þakka nefnd Jóns Kristjánssonar, tekjustofnanefndinni, fyrir mjög góða vinnu og mikla vinnu við vandasamt verkefni og síðan, herra forseti, leggja til að mál þetta verði sent til hv. félmn. til athugunar að lokinni umræðunni í dag.