Búsetuúrræði fyrir fatlaða

Miðvikudaginn 15. nóvember 2000, kl. 13:32:50 (1749)

2000-11-15 13:32:50# 126. lþ. 25.1 fundur 40. mál: #A búsetuúrræði fyrir fatlaða# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 25. fundur, 126. lþ.

[13:32]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Eins og hv. þm. sagði gerðu áætlanir biðlistanefndarinnar eftir búsetu og annarri þjónustu svæðisskrifstofu málefna fatlaðra frá í desember 1998 ráð fyrir að tíu ný sambýli tækju til starfa á árunum 1999 og 2000 í Reykjavík og Reykjanesi, þ.e. fimm sambýli á hvoru svæði. Þetta hefur gengið eftir hér um bil. Í Reykjavík hafa tekið til starfa þrjú sambýli í samræmi við áætlunina, þ.e. sambýli við Viðarrima, Skúlagötu og Mýrarás og íbúar þessara sambýla eru 14. Í hönnun og í útboði eru þrjú sambýli sem eru staðsett við Hólmasund, Sólheima og Jöklasel og rými á þessum sambýlum verða 16. Þá hefur ráðuneytið keypt lóð við Barðastaði fyrir sambýli.

Á Reykjanesi hafa tvö sambýli hafið starfsemi, þ.e. í Tjaldanesi og í Hulduhlíð í Mosfellsbæ. Íbúar sambýlanna eru níu. Á næsta ári munu þrjú sambýli taka til starfa, í Grindavík og tvö í Hafnarfirði og rými á þessum sambýlum verða 16. Áætluninni hefur sem sagt seinkað aðeins en vonir standa til þess að okkur takist að standa við þá áætlun sem biðlistanefndin gerði.

Þannig er mál með vexti að um það bil 0,5% af íbúum landsins þurfa á sérhæfðri þjónustu að halda og það er mat kostnaðarnefndar sem sett var upp til að meta félagsþjónustufrv. að kostnaður vegna þjónustu við fatlaða og vegna húsnæðismála verði tæplega 4,1 milljarður. Nú búa 877 á sambýlum í sjálfstæðri búsetu með frekari liðveislu eða á vistheimilum og þeim hefur fjölgað um 42 frá árslokum 1997. Íbúum á sambýlum hefur fjölgað um 55. Þeim sem njóta frekari liðveislu hefur fjölgað um 16 en það hefur fækkað á vistheimilum um 29. Nú vantar 134 búsetu á sambýlum og 75 frekari liðveislu. 17% þeirra sem eru á biðlistum eftir búsetu í Reykjavík njóta skammtímavistunar reglulega og 30% á Reykjanesi. Rétt er að árétta að margir þeirra sem skráðir eru á biðlista njóta dagþjónustu og skammtímaþjónustu.

Á biðlista eftir búsetu eru þrír einstaklingar í fötlunarflokki sjö, þ.e. þyngsta fötlunarflokknum. Þrír einstaklingar eldri en 21 árs eru í fötlunarflokki sjö. Í fötlunarflokki sex eru sjö einstaklingar eldri en 21 árs eða samtals 10 í tveimur þyngstu flokkunum og þar að auki eru 18 einstaklingar í fimmta flokki eldri en 21 árs. Í Reykjavík eru án dagsþjónustu 29. Þar af búa 14 á sambýlum. Innan skamms verður unnið að því að tryggja dagþjónustu fyrir alla í Reykjavík.

Á Reykjanesi eru 11 án dagþjónustu og þar af búa fjórir á sambýlum. Án þjónustu á þessum svæðum eru 22 einstaklingar sem er að sjálfsögðu of mikið en vonir standa til að úr rætist áður en langt um líður.