Atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:32:51 (1953)

2000-11-20 15:32:51# 126. lþ. 27.94 fundur 126#B atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), iðnrh. (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:32]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Nú liggja fyrir tölulegar upplýsingar um búferlaflutninga fyrstu níu mánuði ársins sem eru með nokkuð öðrum hætti en verið hefur um langt skeið. Þær sýna að dregið hefur úr búferlaflutningum af landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðisins sem er staðfesting á því að breytingin sem við fyrst sáum móta fyrir í vor hefur haldið áfram. Ekki þori ég að vona að orðið hafi viðvarandi umsnúningur í fólksflutningum en þessi þróun ætti engu að síður að geta verið okkur öllum nokkur vísbending um að unnt er í raun að snúa vörn í sókn.

Það sem vekur ekki síst athygli varðandi þessar tölur Hagstofunnar er að flutningur af höfuðborgarsvæðinu út á land hefur ekki aukist. Þetta á þó aðeins við um svæðið umhverfis Reykjavík, en bæði á Suðurnesjum og Vesturlandi eru fleiri aðfluttir en brottfluttir innan lands og á Suðurlandi er munurinn lítill. Það eru þéttbýlissvæðin í þessum landshlutum sem draga helst til sín fólkið. Á Vesturlandi eru það Akranes og Borgarbyggð, og Selfoss og Hveragerði á Suðurlandi. Þá er einnig sýnileg breyting á Akureyri.

Því miður heldur áfram að fækka í sveitunum eins og verið hefur um langt skeið. Eina meginorsök fólksflutninga frá landsbyggðinni til höfuðborgarsvæðsins má eflaust rekja til breytinga í hefðbundnum atvinnugreinum, sjávarútvegi og landbúnaði og mikillar þenslu í allri atvinnustarfsemi á höfuðborgarsvæðinu. Á árunum 1996--2000 sköpuðst 1.900 ný störf í hinu svokallaða nýja hagkerfi, þ.e. hátæknifyrirtækjum í hugbúnaðargerð, líftækni og fjarskiptum. Þetta er um 100 störfum fleiri en þau sem töpuðust í landbúnaði og sjávarútvegi samanlagt á sama tíma. Ég tel að atvinnuþróunarstarf stjórnvalda þurfi í meiri mæli að beinast að því að ný störf sem skapast í þessum tæknigreinum verði hornsteinn atvinnuþróunar á landsbyggðinni á næstu árum.

Flestum er ljóst að hinar hefðbundnu atvinnugreinar munu í framtíðinni ekki standa undir uppbyggingu atvinnulífs á landsbyggðinni í þeim mæli sem verið hefur fram til þessa. Vissulega munu þessar atvinnugreinar eflast í takt við tæknilegar framfarir og nýja þekkingu. En störfum í þessum greinum mun halda áfram að fækka. Ný sókn í byggðamálum sem hefur það að markmiði að tryggja varanlega atvinnuuppbyggingu þarf því að byggja á nýjum forsendum. Við þurfum að hverfa frá aðgerðum er miða að því að viðhalda hefðbundnu atvinnulífi. Reynslan hefur sýnt að slíkar ráðstafanir geta e.t.v. mildað tímabundin skakkaföll en hafa lítil varanleg áhrif. Í stað þess þarf nýja nálgun sem er uppbygging á nýrri atvinnustarfsemi sem byggir á nýrri þekkingu.

Ég tel að við þurfum að laga starfsemi Byggðastofnunar að breyttum tímum. Starfsemi hennar þarf í meiri mæli að beinast að því að stuðla að nýsköpun og atvinnuþróun á landsbyggðinni. Að sama skapi ætti að breyta áherslum í lánastarfsemi stofnunarinnar, sérstaklega hvað varðar útlán til hefðbundinna atvinnugreina. Hins vegar þarf að verja meira fé til starfsemi Byggðastofnunar en nú er gert til að gera stofnuninni kleift að taka virkan þátt í verkefnum er lúta að atvinnuuppbyggingu.

Í tengslum við flutning Byggðastofnunar á Sauðárkrók gefst tækifæri til að endurskipuleggja starfsemi hennar og setja fram nýjar áherslur fyrir starfsemina. Ég tel að auk lánastarfseminnar eigi meginviðfangsefni Byggðastofnunar að vera átaksverkefni. Sem dæmi vil ég nefna að stofnunin hafi frumkvæði að því að setja af stað átaksverkefni á sviði nýsköpunar og atvinnuþróunar á landsbyggðinni í samræmi við þær áherslur sem ríkisstjórn og iðnrn. setja á hverjum tíma.

Ég nefni þróunarsetur. Til að tryggja betur yfirfærslu þekkingar þarf að efla starfsemi þróunarsetra. Það þarf m.a. að gera með því að tengja starfsemi þeirra enn betur en nú er við menntakerfið í landinu. Til að framkvæma þetta þyrfti Byggðastofnun að ráða yfir fjármagni til að hafa forgöngu um stofnun og eflingu slíkra setra. Aðilar að þróunarsetrum yrðu fyrst og fremst atvinnuþróunarfélög, háskólar, rannsóknarstofnanir atvinnuveganna og fyrirtæki.

Hæstv. forseti. Byggðastofnun er um þessar mundir að leggja lokahönd á skýrslu um framkvæmd byggðaáætlunar sem Alþingi samþykkti í mars 1999 í formi þingsályktunar. Ég mun leggja skýrsluna fyrir Alþingi þegar vinnu við hana er lokið, en þá gefst jafnframt tækifæri til að fjalla um það hvernig til hefur tekist. Í framhaldi af umræðu um skýrsluna mun ég setja af stað vinnu til að móta tillögur um nýja byggðaáætlun sem þá ætti að koma til framkvæmda þann 1. janúar árið 2002.