Atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:44:52 (1957)

2000-11-20 15:44:52# 126. lþ. 27.94 fundur 126#B atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), GÖ
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:44]

Guðrún Ögmundsdóttir:

Herra forseti. Atvinnumál og byggðaröskun á landsbyggðinni eru grafalvarlegt mál og kosta bæði fjárhagslegar og félagslegar fórnir. Hvað mun t.d. gerast ef af samruna bankanna verður sem allar líkur standa til? Tölur sem heyrst hafa eru að það eigi að leggja niður 18 útibú á landsbyggðinni. Þetta kemur auðvitað mest niður á einum hóp sem eru konur. Það er verið að tala um 200 konur og það er ekki lítil tala þegar verið er að horfa til landsbyggðar. Flestar eru eflaust á miðjum aldri, búnar að sérhæfa sig á þessu sviði. Hvað á að gera í málefnum þeirra? Er búið að að hugsa fyrir einhverjum lausnum? Eiga þær kannski allar að flytja suður?

[15:45]

Samkvæmt upplýsingum hæstv. forsrh. er kostnaður sveitarfélaganna 3--6 millj. á hvern einstakling sem flytur á suðvesturhornið. Ef 2 þúsund manns flytja á ári eins og reyndin er þá kostar það 6--12 milljarða á ári. Inn í þetta er ekki reiknað tap sveitarfélagsins sem flutt er frá. Til samanburðar má nefna að allar sjúkratryggingar á ársgrundvelli kosta 11 milljarða. Félmrn. með málefnum, manni og mús, kostar 14 milljarða. Framhaldsskólinn kostar 7 milljarða. Háskólinn kostar 4 milljarða. Við erum að tala um óheyrilega mikið af peningum. Eins og ég segi, þetta eru ekki litlar upphæðir.

Þingmenn geta sjálfir reiknað hvað það muni kosta ef 200 konur ásamt fjölskyldu geta ekki lengur verið í heimabyggð sinni vegna skorts á atvinnutækifærum.

Svona getur þetta ekki haldið áfram, byggðaröskunina verðum við að stöðva á einhvern hátt. Slíkt mundi auðvitað draga úr þenslu og verðbólgu, landsmönnum öllum til heilla. Það þarf að skoða af fullri alvöru hvert við stefnum í þessum málum, það lifir enginn á háleitum markmiðum. Við þurfum aðgerðir.