Atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda

Mánudaginn 20. nóvember 2000, kl. 15:58:19 (1963)

2000-11-20 15:58:19# 126. lþ. 27.94 fundur 126#B atvinnumál landsbyggðar og byggðastefna stjórnvalda# (umræður utan dagskrár), iðnrh.
[prenta uppsett í dálka] 27. fundur, 126. lþ.

[15:58]

Iðnaðarráðherra (Valgerður Sverrisdóttir):

Hæstv. forseti. Ég vil eins og málshefjandi þakka fyrir þessa umræðu. Mér finnst hún hafa verið á þeim nótum sem ég held að sé affarasælla, að tala frekar á rólegu nótunum en í æsingatón sem mér finnst enginn hafa gert hér.

Við erum öll sammála um að við erum óánægð með þá byggðaröskun sem verið hefur. Við viljum öll að þessu verði breytt. Það sem hv. þm. hefur eftir samflokksmanni mínum, hæstv. félmrh., tek ég ekki undir vegna þess að Framsfl. hefur alltaf litið á það sem aðalsmerki sitt að standa með landsbyggðinni og berjast gegn byggðaröskun, þó árangurinn sé ekki meiri en raun ber vitni.

Af því sumir hv. þm. taka það ráð að kenna fyrst og fremst hæstv. forsrh. og Sjálfstfl. um þá þróun sem varð á síðasta kjörtímabili þá vil ég ekki taka undir það. Að sjálfsögðu var Framsfl. líka í þeirri ríkisstjórn og hlýtur að bera ábyrgðina jafnt á við Sjálfstfl.

Ég get hins vegar að nokkru leyti tekið undir það sem hv. þm. hafði eftir Þorsteini Gunnarssyni, rektor Háskólans á Akureyri, að ríkisstjórnin vissi á síðasta kjörtímabili ákaflega vel að stóraðgerðir hér á suðvesturhorninu, bæði stækkun álversins í Straumsvík og nýtt álver í Hvalfirði, mundu hafa afleiðingar. Hins vegar verð ég að segja að aðkoman, þegar við framsóknarmenn komum að ríkisstjórnarborðinu, var þannig, atvinnuleysið var slíkt, að það hefði verið djörf ákvörðun að afþakka það þegar erlendir aðilar voru tilbúnir að setja mikið fjármagn inn í atvinnureksturinn.

[16:00]

Svo langar mig að segja það af því að nánast allir þingmenn Samfylkingarinnar sem hafa talað hér hafa talað gegn því að sameina bankana vegna þess að það gæti hugsanlega fækkað störfum á landsbyggðinni. Ég lít þannig á að þetta sé stefnubreyting hjá Samfylkingunni því að formaðurinn talaði þannig fyrir nokkrum vikum að hann vildi sameina bankana en hann vildi láta markaðinn gera það. Er trúlegra að það hefði verið affarasælla fyrir landsbyggðina að fara þá leiðina? Ég segi nei.