Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 14:04:46 (2005)

2000-11-21 14:04:46# 126. lþ. 28.4 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv., GHall (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Guðmundur Hallvarðsson (andsvar):

Herra forseti. Síðasti hv. þm. kom að máli þar sem hann taldi að þingmenn Reykjavíkur bæru lítið skynbragð á hina dreifðu byggð og starfsemi sem þar færi fram. Að vísu gat hann þess að það væru sumir þingmenn Reykjavíkur. Ég tek það ekki til mín nema að hluta til. Ég tel mig þekkja hina dreifðu byggð nokkuð vel og jafnvel betur en sá sem talaði síðast.

Óréttlætið sem hann gat um áðan gagnvart sjóflutningum eða landflutningum er löngu þekkt fyrirbrigði.

Það er líka annað sem hv. dreifbýlisþingmaður veit ekki um og það er að ef bögglar eru sendir með leigubifreið frá austurborg yfir í vesturborg þá þarf ekki að borga virðisaukaskatt af þeim flutningi. En ef sendiferðabíl er pantaður til sömu starfa þarf að greiða virðisaukaskatt.

Annað sem hefur verið komið inn á og menn hafa velt sér upp úr og vegið að hv. þm. Pétri H. Blöndal fyrir skoðun hans á jöfnunarkostnaði, þá er það svo að við sjáum það t.d. í olíudreifingunni að það er mjög sérkennilegt hvernig þar er haldið á málum. Við vitum t.d. að af smurolíu er ekkert gjald greitt vegna flutningsjöfnunar. Sama verð er á smurolíu um allt land þó njóti ekki þeirrar fyrirgreiðslu sem talað var um áðan. Það er því í mörg horn að líta í þessu máli og við vitum bara hvernig olíudreifingin hefur farið fram með mjög sérstökum hætti vegna þess að þeim er nánast sama hver tilkostnaðurinn hefur verið. Greitt hefur verið til baka úr þessum olíujöfnunarsjóði án tillits til þess hvort einhver hagkvæmni sé í flutningunum eða ekki.