Jöfnun flutningskostnaðar á sementi

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 14:08:20 (2007)

2000-11-21 14:08:20# 126. lþ. 28.4 fundur 214. mál: #A jöfnun flutningskostnaðar á sementi# (stjórnarmenn o.fl.) frv., GuðjG
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[14:08]

Guðjón Guðmundsson:

Hæstv. forseti. Ég hafði ekki hugsað mér að blanda mér í þessa umræðu sem er reyndar öll á misskilningi byggð en aðeins vegna hugleiðinga hæstv. iðnrh. um afstöðu þingflokks Sjálfstfl. vil ég að það komi skýrt fram að þingflokkurinn stóð og stendur einhuga að þessu máli nema hv. þm. Pétur H. Blöndal sem hefur örlítið aðra skoðun en félagar hans. Það er þannig í okkar góða flokki að mönnum er heimilt að hafa skoðanir. Þær eru ekki endilega staðlaðar og hv. þm. hefur komið skoðunum sínum á framfæri.

Hins vegar finnst mér þetta dálítið merkileg umræða og á miklum misskilningi byggð vegna þess að hér er ekkert verið að breyta flutningsjöfnunargjaldinu sem hefur gilt í 27 ár. Þetta litla frv. snýr eingöngu að því að breyta skipan flutningsjöfnunarsjóðsins vegna þess að nú er komin samkeppni í sementssölu og því ekki eðlilegt að Sementsverksmiðjan eigi fulltrúa í sjóðstjórninni. Þetta kemur skýrt fram í athugasemdum með frv. sem menn hefðu kannski átt að lesa áður en þeir fóru að halda hér hástemmdar ræður en þar segir, með leyfi forseta:

,,Þegar lög nr. 62 frá 30. apríl 1973, um jöfnun flutningskostnaðar á sementi, voru sett var einungis einn starfandi seljandi á sementi á markaðinum, þ.e. Sementsverksmiðja ríkisins. Þótti því eðlilegt að mæla svo fyrir í 5. gr. laganna að Sementsverksmiðja ríkisins tilnefndi einn mann í flutningsjöfnunarsjóð sements. Eftir að Sementsverksmiðja ríkisins var gerð að hlutafélagi 1. jan. 1994 og fleiri en einn aðili starfar nú á sementsmarkaðnum er ekki eðlilegt að Sementsverksmiðjan hf. tilnefni mann í stjórn flutningsjöfnunarsjóðs sements.

Í ljósi þess sem að framan er rakið samþykkti stjórn flutningsjöfnunarsjóðs sements á fundi sínum 30. maí 2000 að koma með eftirfarandi ábendingu um stjórnarsetu í sjóðnum til viðskiptaráðherra og var hún samþykkt samhljóða: ,,Stjórn Flutningsjöfnunarsjóðs sements beinir því til viðskiptaráðherra að kannað verði hvort nauðsynlegt sé að endurskoða lög um jöfnun flutningskostnaðar á sementi þar með talið skipun stjórnar sjóðsins í ljósi þess að fleiri en einn söluaðili er nú starfandi á sementsmarkaðnum.````

Þetta litla frv. snýst eingöngu um hver sest í stjórnina í stað Gylfa Þórðarsonar, framkvæmdastjóra Sementsverksmiðjunnar. Menn geta svo við önnur tækifæri haldið langar ræður um flutningsjöfnun á sementi eða öðrum vörum. Ég ætla ekki að leggja mörg orð í þann belg en segja aðeins út af ræðu míns ágæta félaga, hv. þm. Péturs H. Blöndals, að ég held að það væri ekki gott innlegg í umræðuna um byggðaröskunina og byggðamálin almennt að leggja af flutningsjöfnun þannig að sement yrði miklu dýrara á Raufarhöfn en í Reykjavík.