Ábyrgðarmenn

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 17:48:57 (2038)

2000-11-21 17:48:57# 126. lþ. 28.7 fundur 160. mál: #A ábyrgðarmenn# frv., RG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[17:48]

Rannveig Guðmundsdóttir (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nota tækifærið í andsvari við ræðumann til að vekja athygli á því sem hann sagði um heimilisundanþáguna sem þykir sjálfsögð í Bandaríkjunum en eins og fram hefur komið er reglan frekar hér að þeir sem eiga hús eða íbúð, sem sagt heimili, eru viðurkenndir ábyrgðarmenn af því að sá sem lánar ætlar að ganga að þessu húsi, þessu heimili, ef lánið verður ekki greitt. Það er reglan, það er það sem lánið hvílir á.

Við skulum ekki gleyma því í þessari umræðu og við lok hennar að sá sem er verstur í því að krefjast ábyrgðarmanna er ríkið sjálft með Lánasjóð ísl. námsmanna. Við þingmenn fengum bréf síðsumars þar sem var sagt frá ungum námsmanni sem var afburðanámsmaður, hafði fengið verðlaun og getið sér góðan orðstír en gat ekki útvegað ábyrgðarmann á námslánið sitt og það lá fyrir að hann þyrfti hugsanlega að hrökklast úr námi af því að lánasjóðurinn krefst ábyrgðarmanna. Slíkt dæmi þekki ég úr eigin fjölskyldu þar sem hlutaðeigandi er Norðurlandabúi, hafði verið giftur hér, átti íslensk börn og ætlaði að dveljast hér en gat ekki útvegað ábyrgðarmenn, foreldrarnir úti í löndum. Nei, hann átti ekki að fá námslán og fjölskylda fyrrum eiginmanns varð að hlaupa undir bagga.

Við skulum gera okkur grein fyrir því að þegar ungmenni fer í nám sem áætlað er að standi í nokkur ár þá fær væntanlegur ábyrgðaraðili, sem oftast er foreldri, sendingu heim að skrifa upp á um 6 millj. kr. ábyrgðarbréf. Ríkið sjálft, Lánasjóður ísl. námsmanna, er verstur í þessu þannig að það er jafngott fyrir þann sem vill að börnin geti menntað sig að eiga eitt stykki hús til þess að standa undir kröfunum.