Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 19:17:41 (2051)

2000-11-21 19:17:41# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., PHB (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[19:17]

Pétur H. Blöndal (andsvar):

Herra forseti. Skattgreiðandinn er skynsamur. Það er rétt. Því hef ég haldið fram. Hann leitar að sjálfsögðu leiða til að lágmarka skattgreiðslur sínar innan siðferðilegra marka að sjálfsögðu. Fjöldi manns sem ég hef talað við nýtir sér t.d. það ekki að taka lán í útlöndum og nota sér vaxtamuninn sem Seðlabankinn er búinn að búa til hér á landi í mörg ár vegna þess að mönnum finnst það ekki vera siðferðilega hægt. En auðvitað er í því fólgin ákveðin áhætta eins og þeir eru að kynnast núna sem hafa tekið lán í útlöndum og horfa upp á dagvaxandi hækkun erlends gjaldeyris og eru núna að tapa kannski öllu sem þeir högnuðust um áður. Auðvitað gera menn siðferðilegar kröfur bæði til sjálfs sín og annarra.

En varðandi gráðuga Glistrup-sinna, þá skyldi nú ekki vera að sá sem er gráðugastur sé ríkissjóður. Það skyldi nú ekki vera að sá sé gráðugastur sem gengur í vasa minn og hirðir 40% af tekjum mínum sem ég á. Það skyldi nú ekki vera að hann sé kannski allt of gráðugur.