Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 19:44:49 (2054)

2000-11-21 19:44:49# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., fjmrh.
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[19:44]

Fjármálaráðherra (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Ég tel að hér hafi í dag alveg eins og í gær farið fram mjög málefnaleg og fróðleg umræða um mikilvæg málefni á sviði skattaréttar. Ég tel t.d. að síðasta ræða sem hér var flutt hafi verið yfirgripsmikil og málefnaleg þar sem komið var að helstu álitaefnum í þessu máli, nákvæmlega eins og gert var þegar þetta frv. var samið að beiðni minni í fjmrn. og það síðan lagt fyrir ríkisstjórn. Niðurstaðan af þeim vangaveltum sem hv. þm. var hér með, af minni hálfu, var sú að ekki væri önnur leið fær en að gera þetta eins og hér er lagt til.

[19:45]

Auðvitað er eðlilegt að menn velti því vel og vandlega fyrir sér hvort til séu einhverjar aðrar leiðir betri. Það hefur Samfylkingin gert og lagt fram frumvarp sem ég tel reyndar, eins og ég sagði í gær, að skili ekki þeim árangri sem að er stefnt.

Hins vegar er margt fleira í skattalögum okkar, eins og við höfum ítrekað rætt, sem þarf að lagfæra. Eitt af því eru eignarskattarnir. Mér finnst sérstaklega ánægjulegt að heyra við þessa umræðu hversu margir úr ólíkustu áttum eru farnir að taka undir það. Einu sinni var það talið eitt helsta bjargráð ríkissjóðs að hækka eignarskattana, tvöfalda þá o.s.frv. Nú er sem betur fer æ fleirum að verða ljóst að hér er um að ræða skattform sem er að mörgu leyti úrelt og þarf að breyta. Það er ekki í samræmi við aðstæður í því alþjóðlega skattaumhverfi sem við búum við. Ég vænti þannig góðs stuðnings við þær tillögur sem ég kann að flytja um það efni í ljósi þessara umræðna hér. Ég tel þá að ég hafi svarað spurningu hv. þm. Péturs Blöndals um eignarskattana í leiðinni. Ég er auðvitað sama sinnis og forveri minn í þeim efnum. Hins vegar þarf að standa þannig að þessum málum, þegar lækkaðir eru skattar eins og hér er um að ræða, að haft sé í huga að málið snýst um tekjustofna sem skila töluverðum tekjum.

Hið sama á við um stimpilgjaldið sem á sér fáa formælendur nú orðið en skilar verulegum skatttekjum. Huga þarf að endurskoðun á því og að því er unnið á mínum vegum. Ég geri ráð fyrir að geta flutt frv. um það efni, vonandi á þessu þingi.

Þá vil ég víkja að þeim spurningum sem beint hefur verið til mín varðandi efni þessa frv. Ég ætla fyrst að koma að spurningum hv. þm. Kristjáns Pálssonar um tvö atriði sem ekki lúta að þeim þáttum sem hér hafa verið mest til umræðu. Hann spurði um bráðabirgðaákvæði sem kveður á um þá aðila sem þegar hafa hagnýtt sér skattfrestunarmöguleikann í gildandi lögum og gerðu það á árunum 1998--1999. Bráðabirgðaákvæðið gengur út á að slíkir aðilar geti nú þegar gert upp sín mál með því að greiða 10% fjármagnstekjuskatt eins og verða mun framvegis ef þetta frv. verður að lögum. Ef þeir kjósa að gera það ekki þá gildir regla gildandi laga. Þetta á við um þá sem hafa nýtt sér skattfrestunina á árunum 1998--1999 en ekki um þá sem hafa verið fyrr á ferðinni, enda eru þeir eðli málsins samkvæmt þegar búnir að gera ráðstafanir vegna þess að tveggja ára fresturinn er runninn út hjá þeim. Það á þannig ekki við aðila sem hefur innleyst söluhagnaðinn á árinu 1997 og er búinn að kaupa ný bréf á árinu 1999.

Síðan spurði hv. þm. um kaupréttarákvæðin og velti fyrir sér hvers vegna breyta ætti núverandi kerfi og miða við tíu daga meðalgengi þegar viðmiðunargengið er fengið á þeim bréfum sem starfsmönnum er gert kleift að kaupa með þessum ákvæðum. Af hverju er horfið frá því að miða við einn dag? Ég útskýrði þetta í umræðunni í gær. Það er vegna þess að það geta verið dagprísar á hlutabréfum eins og ýmsu öðru. Það geta verið sveiflur og óeðlilegt að láta slík atriði hafa áhrif á svona viðmiðun sem er í raun til lengri tíma. Þess vegna er tekið þarna ákveðið lengra tímabil og sagt sem svo: Það fæst raunsannari mynd af markaðsverði bréfanna með því að taka meðalgengi á lengra tímabili en að taka gengið á einum tilteknum degi. Það hefur þegar komið í ljós að ákvæði laganna frá því í vor að því er þetta varðar eru of þröng. Stór fyrirtæki í bænum, ég nefni t.d. Landsbankann, hafa gefið starfsmönnum sínum kost á að nýta sér þessi réttindi en þar kom á daginn að þarna var vandamál vegna þess að miðað var við einn tiltekinn dag en ekki lengra tímabil. Við urðum sem sagt að taka á þessu og leysa þennan vanda.

Fleiri þingmenn en einn spurðu: Hvers vegna er í þessu frv. eingöngu gert ráð fyrir að breyta reglunni að því er varðar einstaklinga en ekki lögaðila? Það er auðvitað eðlilegt að spurt sé um það. Samfylkingin vill í frv. sínu hverfa til baka, bæði að því er varðar einstaklinga og lögaðila. Við gerum ekki slíka tillögu í þessu frv. ríkisstjórnarinnar.

Menn verða að hafa í huga þann eðlismun sem er á einstaklingum og fyrirtækjum. Hugsunin að baki breytingunni sem hér var gerð 1998, þegar lögaðilum var hleypt inn í þetta sama frestunarfyrirkomulag eins og einstaklingum, var sú að gefa umræddum aðilum svigrúm til breytinga á fjárfestingum í öðrum hlutafélögum án þess að til skattlagningar á söluhagnaði kæmi. Slík heimild er forsenda þess að aðilar í rekstri geti breytt fjárfestingum sínum og rekstraráformum frá einum tíma til annars án þess að á tilfærslur fjármunanna verði lagður skattur. Það er lykilatriði í þessu að hér er ekki um að ræða úttekt fjármuna úr rekstri heldur einungis endurnýjun á fjárfestingum í hlutafélögum. Að því leyti eru þessar reglur sambærilegar því sem gildir um söluhagnað fyrnanlegra eigna í atvinnurekstri þar sem heimilt er að fresta söluhagnaðinum um tvenn áramót til að auðvelda endurnýjun eða tilfærslu eigna án þess að til skattlagningar komi. Þetta byggist sem sagt á því að fjárfest sé á nýjan leik í öðrum félögum og söluhagnaður nýttur til að halda áfram atvinnustarfsemi, en ekki að taka peningana út úr rekstrinum til eigin ráðstöfunar, neyslu eða þess háttar.

Einnig hefur verið spurt: En geta menn ekki bara stofnað hlutafélag um sjálfan sig, einkahlutafélag o.s.frv.? Það hefur verið farið með háar tölur um það. Það er auðvitað ekki hægt að gera nema menn séu með rekstur. Auðvitað hafa mörg einkahlutafélög verið stofnuð. Margir aðilar í rekstri sem áður voru með reksturinn í eigin nafni hafa nýtt sér möguleikann á að stofna einkahlutafélög, bæði lítil fyrirtæki og stór en einnig þeir sem hafa verið með þjónustustarfsemi af ýmsu tagi. Lögmenn, hárskerar og alls kyns aðilar sem veita persónulega þjónustu hafa stofnað einkahlutafélag. Við það er bara nákvæmlega ekkert að athuga. Hins vegar er heilmikið við það að athuga ef menn færa einkaneyslu sína á slík fyrirtæki. Það er ekki heimilt og skattyfirvöld eiga að fylgjast með því að menn misnoti ekki skattalögin eða þau fyrirtæki sem þeir ráða yfir með þeim hætti.

Hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir spurði út í 20% söluhagnað af erlendum aðilum. Það er eitt af þeim ákvæðum í skattalögum okkar sem nánast hefur verið ógerningur að framkvæma. Ég hygg að hv. þm. Lúðvík Bergvinsson hafi líka vakið athygli á því. Þetta er ákvæði um að íslensk skattyfirvöld eigi að skattleggja erlenda aðila um 20% af þeim söluhagnaði sem sá aðili fær af viðskiptum með íslensk hlutabréf. Ímyndum okkur nú að tveir þingmenn í þessum sal ættu hlutabréf í bandarísku fyrirtæki og ættu sín í milli viðskipti með hlutabréf í slíku fyrirtæki og þar myndaðist einhver söluhagnaður. Ég gæti ímyndað mér að t.d. hv. þm. Pétur Blöndal ætti erlent hlutabréf og seldi það með hagnaði til hv. þm. Svanfríðar Jónasdóttur. Hvernig eiga þá skattyfirvöld í upprunalandi þessa hlutabréfs að geta haft eftirlit með því eða gætt þess að hann borgaði skatt af þeim söluhagnaði? Ég veit að hann mundi gera allt sem hann gæti til að koma skattinum til skila en þingmaðurinn er ekki framtalsskyldur í því landi. Þetta er óframkvæmanlegt. Við sjáum það af svona dæmum. Ef þetta snýr að íslenskum aðilum sem eiga erlend bréf þá sjáum við hvað þetta er óraunhæft. Ég hygg að það sé rétt, ég get ekki fullyrt um það sem hv. þm. Lúðvík Bergvinsson sagði, að tekjur ríkissjóðs af þessu ákvæði hafa verið litlar sem engar. Þá er spurningin: Til hvers erum við með slík ákvæði? Það er atriði sem mér finnst að nefndin eigi að hugleiða.

Síðan vildi ég í lokin nefna annað atriði sem snýr að grundvallarspurningunni um þetta og hv. þm. Kristinn H. Gunnarsson og fleiri hafa nefnt. Hvaða hagsmunir eru í því að gera þá breytingu sem lögð er til með þessu frv.? Er ekki bara verið að hygla einhverjum fáum? Er ekki betra að ríkissjóður fái 45% skatt af þessum peningum en 10%? Fyrir nokkru var í blaði viðtal við endurskoðanda sem þekkir þessi mál mjög vel og ég vona að hv. þingnefnd leiti til. Eftirfarandi var haft eftir honum, með leyfi forseta:

,,Sú regla skattalaga að söluhagnaður hlutabréfa sé skattlagður öðruvísi en allar aðrar fjármagnstekjur hefur einungis leitt til þess að tekjur ríkissjóðs eru lægri en annars hefði verið.``

Það er Árni Harðarson hdl. og forstöðumaður hjá stóru endurskoðunarfyrirtæki í borginni sem lætur hafa þetta eftir sér. Hvað skyldi nú vera til í þessu? Ég hef í höndunum upplýsingar frá ríkisskattstjóraembættinu sem sýna að söluhagnaður á síðasta ári var tæplega 20 milljarðar af hlutabréfum. Skattlagt sem fjármagnstekjur voru 6,6 milljarðar af þessu. Það er þá væntanlega hjá fólki sem er með undir 3,2 í söluhagnað millj. og borgar 10% skattinn. Skattlagt sem aðrar tekjur, þ.e. tekjur sem eru umfram þessi 3,2 millj. mörk eru 182 millj. Skattlagningu frestað, þar er um að ræða tæplega 13 milljarða af þessum 20. 182 millj. fara í almennu skattprósentuna. Það gefur okkur svona 80 millj. í tekjuskatt samkvæmt núgildandi reglum. En 10% fjármagnstekjuskattur af þessum 13 milljörðum mundi gefa ríkissjóði 1,3 milljarða. Þannig er ekkert vafamál að núgildandi reglur hlunnfara ríkissjóð og með þessari einföldu breytingu væri hægt að afla næstum því 1.300 millj. kr. með lítilli fyrirhöfn af þessum skattstofni og í flestum tilfellum yrði fólk ekki ósátt við að greiða þennan skatt. Ég tel að hér sé um augljóst hagsmunamál fyrir ríkissjóð að ræða og sjálfsagt mál að ráðast í þessa breytingu. Ég vona að hún fái drjúgan stuðning í þinginu.