Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 21. nóvember 2000, kl. 20:06:56 (2059)

2000-11-21 20:06:56# 126. lþ. 28.3 fundur 264. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (söluhagnaður hlutabréfa o.fl.) frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 28. fundur, 126. lþ.

[20:06]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Ég læt ekki sannfærast af skýringum hæstv. fjmrh. á því að rétt sé að gera greinarmun á einstaklingum og lögaðilum varðandi frestun á skattlagningu söluhagnaðar. Þessu hefur verið svarað þótt ófullnægjandi sé að mínum dómi.

Hinu vil ég mótmæla að það sé forgangsverkefni á Íslandi að lækka enn skatta á fyrirtækjum. Skattar hafa verið lækkaðir stórlega á fyrirtækjum á undanförnum árum og hæstv. ráðherra sagðist fagna því að úr öllum hornum heyrðust þær raddir að lengra bæri að ganga í þessa átt, eignarskattar, stimpilgjöld og þar fram eftir götunum. Ég tel þetta ekki vera forgangsverkefni á sama tíma og verið er að hækka skatta og álögur á almennt launafólk, útsvar, notendagjöld hvort sem eru í skólakerfinu eða í heilbrigðiskerfinu, dregið er úr stuðningi við öryrkja og aldraða og þá eru menn að tala um það sem forgangsverkefni að lækka enn skatta á fyrirtæki.

Hæstv. ráðherra er tíðrætt um alþjóðlegt skattaumhverfi og að við verðum að laga okkur að því. Það er alveg rétt. Í heiminum núna og ekki síst í Evrópu hafa menn áhyggjur af því að menn séu að undirbjóða hver annan skattalega, lækka skatta til að kalla til sín fyrirtæki og fjármagn. Því miður hafa Íslendingar gengið fram fyrir skjöldu í þessu efni með alþjóðlegum viðskiptafélögum og öðrum tilraunum til að grafa undan hinu alþjóðlega viðskiptakerfi. Hefur hæstv. fjmrh. ekki áhyggjur af þessu? Hvað finnst honum um viðleitni ríkisbankanna sem starfa á ábyrgð ríkisstjórnarinnar sem eru að grafa undan þessu fjölþjóðlega skattakerfi eins og Landsbankinn hefur t.d. gert með því að vísa viðskiptamönnum sínum til Guernsey á Ermarsundi, eyju sem hefur verið gagnrýnd af OECD fyrir að reyna að fella þessa lágmarkssiðferðisþröskulda í skattamálum?