Skipun í nefndir og ráð á vegum ríkisins

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:05:47 (2184)

2000-11-27 15:05:47# 126. lþ. 32.1 fundur 137#B skipun í nefndir og ráð á vegum ríkisins# (óundirbúin fsp.), forsrh.
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:05]

Forsætisráðherra (Davíð Oddsson):

Herra forseti. Eins og kemur fram í þessu svari sem ég hef reyndar ekki við höndina, hefur það hlutfall sem hv. 6. þm. Norðurl. e. nefndi ekki versnað. Allmargar fastanefndir sem tengjast tilteknum stofnunum sem hafa aðsetur á höfuðborgarsvæðinu í eðli sínu skekkja þetta hlutfall nokkuð. Á hinn bóginn leitast ráðherrar við eins og fært er að í nefndunum séu fulltrúar sem geti fylgt úr hlaði sjónarmiðum sem tengjast landinu öllu. Þetta tekst ekki alltaf en menn reyna að hafa þetta í huga. Jafnframt vona ég að í þessum svörum komi líka fram að menn verða að gæta sín á því að horfa meira en áður til beggja kynja hvað nefndarskipanir varðar.

Ég tek undir það sem lýsir sér í máli málshefjanda að mikilvægt er að reyna að tryggja eins og fært er að jafnræði sé sem mest í þessum nefndum og sem flest sjónarmið komist þar til skila. En í sumum tilvikum er það dálítið erfitt eins og ég segi vegna þess að sumar nefndir eru bundnar tilteknum þáttum sem fram fara í Reykjavík.