Flóttamenn

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 15:19:01 (2193)

2000-11-27 15:19:01# 126. lþ. 32.1 fundur 139#B flóttamenn# (óundirbúin fsp.), RG
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[15:19]

Rannveig Guðmundsdóttir:

Herra forseti. Það er stutt síðan við ræddum skýrslu utanrrh. um utanríkismál og þar voru góð orð höfð uppi um stöðu flóttamanna og í umræðum á liðnum missirum hef ég minnt á ný lög um flóttamenn sem sjá ekki dagsins ljós. Með því frv. sem hér liggur fyrir og verður rætt einhvern tíma á næstunni í þinginu er ljóst að Ísland getur alltaf firrt sig ábyrgð ef fyrirfinnst land þar sem viðkomandi flóttamaður hefur komið áður.

Ég vil líka nefna að ákvæði um fyrsta griðland eru reglur sem falla að alþjóðasamningum, en þetta er ekki samkvæmt flóttamannasamningnum og það er flóttamannasamningurinn sem við erum alltaf að tala um að fullgilda.

Við tölum stöðugt um mannréttindi og lýðræði, enda lýsir það mikilvægustu þáttum mannlegs samfélags, og það er til skammar fyrir okkur að taka ekki betur á þessum málum en verið hefur.