Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 18:03:17 (2235)

2000-11-27 18:03:17# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., ÖS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[18:03]

Össur Skarphéðinsson (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir vænt um að hv. þm. Guðjón A. Kristjánsson tekur undir nauðsyn þess að byggja upp einmitt þær greinar sem við köllum stundum sameiginlega nýja hagkerfið. Ég held að það sé nauðsynlegt til að leggja jákvæða byggðastefnu inn í framtíðina.

Mér er umhugað um það, herra forseti, að byggðirnar leggist ekki af og það sem hv. þm. kallar eyðibyggðastefnu verði ekki í reynd að veruleika. Ég óttast að svo verði í sumum tilvikum. Ég segi þess vegna: Það er nauðsynlegt að búa til fjölþætta byggðastefnu, jákvæða byggðastefnu sem vísar inn í framtíðina og ekki er nóg að ýta undir sjávarútveginn. Það er nauðsynlegt og ég hugsa að það sé rétt hjá hv. þm. að það leysti bráðasta vandann í dag. En til framtíðar er ég ekki viss um það dugi til að hafa þær byggðir sem að fornu og nýju hafa verið stólpabyggðir eins og heimabyggð hv. þm. sem hann eins og ég veit þekkir gjörla enda stunduðum við þar sjómennsku á sama tíma um skeið. Það dugir ekki til þess að halda stöðum eins og Ísafirði í sterkri byggð. Það þarf eitthvað annað og meira.

Ég hef komið í 23 eða 24 byggðarlög á síðustu mánuðum og í sérhverju þeirra hef ég fundið fyrirtæki sem má kalla vísi að hinu nýja hagkerfi. Hv. þm. sagði: Það dugir ekki að drita niður 2--3 störfum hér og þar. Það er út af fyrir sig alveg rétt. Ég kom í fyrirtæki á Sauðárkróki sem tengist framleiðslu inn á ljósleiðarann og þar voru 20 ungir menn og konur að störfum. Meðalaldurinn var líklegast í kringum 24--26 ára. Forvígismaður fyrirtækisins tjáði mér að líklegast hefði enginn þeirra komið til baka nema út af þessu. Ég er ekki að segja, herra forseti, að þetta leysi allan vandann en þetta er örugglega einn af grunnþáttunum í byggðastefnu til framtíðar.