Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 27. nóvember 2000, kl. 18:24:08 (2240)

2000-11-27 18:24:08# 126. lþ. 32.2 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv., ÖS
[prenta uppsett í dálka] 32. fundur, 126. lþ.

[18:24]

Össur Skarphéðinsson:

Herra forseti. Þessi umræða um fjáraukalög hefur staðið lengi dags. Hún hefur að mörgu leyti verið ákaflega fróðleg. Umræða af þessu tagi ætti að minni hyggju að snúast um tvær grundvallarspurningar:

1. Standast fjáraukalögin og þær breytingar sem við þau á að gera lögin sem við höfum sett okkur um hvernig á að veita fé til stofnana ríkisins?

2. Hvaða áhrif hafa fjáraukalögin og breytingar á þeim á stjórn efnahagsmála í samfélaginu?

Það má segja að umræðan í dag hafi að næstum öllu leyti snúist um fyrra atriðið sem ég nefndi. Enginn þeirra ágætu manna sem hér hafa talað fyrir hönd stjórnarliðanna, sem bera ábyrgð á efnahagsstefnunni, hafa í reynd velt því fyrir sér hvaða stefna og þróun speglast í þessum fjáraukalögum. Ég segi þetta, herra forseti, vegna þess að í fyrra að ræddum við um fjáraukalög sem fólu í sér, ef ég man rétt, aukningu á útgjöldum ríkisins upp á 7,8 milljarða. Við vorum öll í þessum sal með andköfum yfir því hvað þetta voru háar upphæðir. Í fyrra komu bæði hv. formaður fjárln. og varaformaður upp með mikla svardaga og lýstu því yfir að svo skyldi aldrei verða aftur.

Hvað blasir svo við þegar við lesum tillögurnar og frv. sem hér liggur fyrir, herra forseti? Þá kemur í ljós að lagt er til að veita um það bil 10% hærri upphæð til stofnana en í fyrra. Ef við bætum við þeim rúmlega 600 millj. sem búist er við að ríkisútgjöld aukist um vegna heilbrigðisstofnana, sem eiga eftir að koma inn í þessa umræðu, þá sýnist mér að þetta gæti farið upp í um 8,6--8,7 milljarða. Með öðrum orðum blasir við að það sem þótti vont í fyrra hefur versnað í ár. Það blasir við að það sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og hv. þm. Jón Kristjánsson sögðu hér ásamt ýmsum góðum félögum þeirra úr fjárln. hefur ekki staðist.

Herra forseti. Þetta var tilbrigði við stef sem ég ætla að reyna að kyrja í ræðu minni. Þó lofa ég þeim ágæta hluta þingheims sem hér situr og hlýðir enn á umræðurnar síðla dags að vera ekki of langorður.

En rétt skal vera rétt. Hv. þm. Jón Kristjánsson á hrós skilið fyrir að hafa að ýmsu leyti bætt vinnubrögð fjárln. með tilliti til starfshátta Alþingis. Hv. þm., áreiðanlega ásamt fleirum í nefndinni og í góðu samkomulagi við stjórnarandstöðuna, hefur beitt sér fyrir því að 2. umr. fjárlaga hefur færst töluvert fram. Það bætir starfshætti þingsins vegna þess að væntanlega leiðir það til þess að við þurfum ekki að sitja hér slímusetur andvökunætur, meðvitundarlítil við að samþykkja fjárlög rétt undir jól eins og við höfum oft gert. Þetta er til mikillar fyrirmyndar.

Hv. þm. gat þess þegar hann fór yfir málið í ræðu sinni að hér væri allt undir nema heilbrigðismálin vegna þess að fjárln. hefði ekki unnist tími til að fara í þann kafla. Herra forseti. Ég held að hérna sé einhver misskilningur uppi. Þótt það skipti ekki meginmáli þá held ég að svo standi á að heilbrrn. hafi ekki verið reiðubúið með tölur sínar og gögn. Mín reynsla af hinni atorkusömu og vinnusömu fjárln., m.a. af hinni ágætu fundarstjórn hv. þm. Jóns Kristjánssonar, hefur verið þannig að menn hafa lagt nótt við dag ef þurft hefur til að fara fyrir þessi mál. Það er auðvitað nauðsynlegt að á sama tíma og hið háa Alþingi bætir starfshætti sína og reynir að taka upp fjölskylduvænni vinnubrögð en áður þá leiki ráðuneytin með í þessu liði og sjái sóma sinn í því að gögn og annað sem til þarf af þeirra hálfu sé til reiðu. Það hefur ekki gerst að þessu leyti að því er varðar heilbrrn. samkvæmt þeim upplýsingum sem ég hef.

Herra forseti. Ég sagði áðan að hv. þm. Pétur Blöndal hefði lög að mæla. Hann talaði um að hér væri á ferðinni agaleysi. Mér finnst vaxandi agaleysi og lausatök í fjárreiðum ríkisins. Mér finnst að fjárln. sé allt of eftirlát við framkvæmdarvaldið. Þetta er spurning um aga. Þetta er spurning um aga Alþingis gagnvart framkvæmdarvaldinu, aga ráðherranna gagnvart yfirmönnum stofnana og aga Alþingis á sjálfum sér. Ég verð að segja að mig rak í rogastans þegar ég heyrði einn hinn vaskasta af vestfirskum þingmönnum, þ.e. hv. varaformann fjárln., Einar Odd Kristjánsson, segja, ekki einu sinni heldur tvisvar sinnum í ræðum sínum í dag, að við gætum bara ekki gripið í taumana. Hv. þm. sagði: Hvað getur ein þingnefnd gert þegar stofnanir keyra fram úr fjárlögum aftur og aftur?

Herra forseti. Er það virkilega þannig að Alþingi hafi afsalað sér valdi sínu til embættismannaaðalsins sem leikur sér að því að vinda Alþingi eins og tusku með því að keyra fram úr ár eftir ár? Ég vil ekki trúa þessu. Það var ekki reynsla mín þegar ég fór með lítinn part af framkvæmdarvaldinu. En ef viðhorf hv. þm. spegla viðhorf stjórnarliðsins þá skilur maður af hverju fjármunir skattborgaranna gusast út um allar gáttir.

Það vantar aðhald í ríkisfjármálin. Við í stjórnarandstöðunni sögðum, og það var ekki auðvelt fyrir okkur að segja það við upphaf fyrstu fjárlagaumræðu á þessu kjörtímabili sem hv. formaður Jón Kristjánsson getur lesið í nefndaráliti minni hlutans frá því á síðasta ári, að fram undan væri þensluástand og í aðdraganda þess ættu menn að grípa til þeirra ráða að draga saman útgjöld ríkisins, ríkið yrði að draga saman seglin. Við sögðum þetta í ræðustól en uppskárum aðeins hálfgildings húrrahróp hv. þm. Einars Odds Kristjánssonar, sem með vissum hætti má segja að hafi verið lærimeistari okkar í þessari hagfræðilegu hugsun. En það gerðist ekki neitt.

[18:30]

Með öðrum orðum, herra forseti, við vorum að tala um það þekkta lögmál úr veröld stjórnmálanna að ef menn ætla sér að skrúfa saman ríkisútgjöldin eiga þeir að byrja á því í upphafi kjörtímabils. Það var lag þegar þetta kjörtímabil hófst áður en þenslan skaust í þær hæðir sem hún er í nú. Það var lag og stjórnarandstaðan fyrir sitt leyti bauð í reynd upp á samstarf. Yfirlýsingar af því tagi sem ég og hv. þm. Samfylkingarinnar, og jafnvel ef ég man rétt hv. þm. Jón Bjarnason að sínu leyti líka, gáfu veittu auðvitað stjórnarliðinu tækifæri til þess og fullt tilefni að taka okkur á orðinu, láta á það reyna hvort hægt væri að ná samstillingu um það að draga úr ríkisútgjöldum. Þetta er auðvitað miklu verra þegar tekið er að síga á seinni hluta kjörtímabilsins eins og núna, herra forseti, þegar hillir undir það að hv. þm. í stjórnarliðinu eru að sjálfsögðu farnir að sáldra mylsnunni út um landið til þess að efna til betri gæfta á atkvæðamiðunum.

Herra forseti. Ég verð þess vegna að segja að ég varð ákaflega undrandi að heyra hv. þm. Einar Odd Kristjánsson í raun lýsa sig sigraðan gagnvart aðli embættismannaveldisins. Það var ekkert annað sem í orðum hans fólst og ég vil spyrja hv. þm. Einar Odd Kristjánsson: Er það virkilega svo að hann telji að hann sé valdalaus sendisveinn embættismanna á Alþingi Íslendinga? Var hann ekki kjörinn af frjálsbornum Vestfirðingum til þess að vinna að hag þeirra og eftir sinni eigin sannfæringu? Var hann kjörinn á Alþingi Íslendinga til þess að gefast upp fyrir einhverjum gráum massa embættismanna sem aldrei voru kjörnir til þess að fara með umboð þjóðarinnar? Að sjálfsögðu ekki. Þessu verður hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson að svara vegna þess að hann talar ekki bara fyrir hönd meiri hluta fjárln., hann er oddviti heils stjórnmálaflokks í þessari umræðu. Er hann að lýsa því yfir að þetta sé stefna Sjálfstfl.? Herra forseti. Ég hélt fyrst að mér hefði misheyrst í hið fyrra sinni þegar haninn gól. Þegar hann kom og gól aftur hið síðara þá sannfærðist ég um að hér hafa einhver stórtíðindi gerst. Ég vissi satt að segja til skamms tíma ekki skæðari ógnvald innan ráðuneytanna en einmitt téðan hv. þm., þannig að ég spyr: Hvað veldur þessum umskiptum, herra forseti? Það er ekki nema von að það sé skortur á aðhaldi þegar þeir sem glímnastir þykja í þessum slag, þegar þeir sem sveifla bröndum sínum af hvað mestri vígfimi gefast upp.

Herra forseti. Aðeins til varnar gömlum barnakennara sem hér tók til máls fyrr í dag og var sakaður um það að kunna ekki prósentureikning, þá er það einfaldlega þannig, eins og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson veit, að þegar einkaneysla er ekki 3% heldur 4%, þá hefur hún aukist um þriðjung. Hvað er þriðjungur þegar búið er að færa það yfir í hundraðshluta? Það eru 33,3% eins og hv. þm. Einar Oddur hafnaði hérna áðan, en það er allt í lagi. Ég ætla ekki að deila við hann um prósentureikning eða hversu vel hv. félaga mínum og þingmanni, Einari Má Sigurðarsyni, tókst upp þegar hann kenndi ungum börnum á Súðavík og víðar til prósentureiknings og annarra hlutfallafræða. Hitt er auðvitað miklu alvarlegra að forsendurnar undir þessum lagagerningum okkar, sem við erum að burðast við af veikum mætti en ákaflega góðum vilja og einbeittum ásetningi ár eftir ár að samþykkja, fjárlög, eru ár eftir ár úr lagi færðar. Ég get ekki annað en fallist á þær röksemdir sem hv. þm. Einar Már Sigurðarson var með hér í dag að það sætir auðvitað undrun ef ekki ósköpum þegar hver einasta þjóðhagsstærð sem við þurfum að taka tillit til er grimmilega úr lagi færð þegar veruleikinn er mældur og borinn saman við spárnar. Það sem næst kemst veruleikanum er kaupmáttur ráðstöfunartekna þar sem skeikar ekki nema 12,5% en fer upp í 290% munurinn, samkvæmt útreikningi gamals barnakennara, og það þykir mér auðvitað erfitt. Enn erfiðara er þegar maður horfir til baka vegna þess að við vorum að leika okkur að því fyrra, nokkrir þingmenn í fjárln., að kanna með hvaða hætti þessar þjóðhagsprósentur hefðu staðist nokkur ár aftur í tímann. Það kom auðvitað í ljós að þær standast nánast aldrei, hvergi nærri.

Það má svo í framhjáhlaupi geta þess að þeir hinir sömu vísu menn og hafa þarna spáð, ekki samkvæmt hinu rétta sakramenti heldur einhverju allt öðru, það eru náttúrlega mennirnir sem hafa keppst við að hvísla því í eyru stjórnarherranna að það sé allt í lagi með fjármál þjóðarinnar og efnahagsmálin séu í góðu stuði.

Herra forseti. Það hefur verið mikið rætt um það hversu vel þetta frv. sem við erum að ræða standist lögin sem við kölluðum á sínum tíma eins konar hreingerningarlög og varða fjárreiðurnar og við samþykktum 1996. Það er einfaldlega rétt hjá hv. þm. sem hér hafa talað í dag, öllum þeim sem hafa tekið til máls fyrir utan hv. þm. Jón Kristjánsson og Einar Odd Kristjánsson, að fjáraukalögin og brtt. við fjáraukalögin úa og grúa af hlutum sem eiga ekki að vera þar. Við reyndum að gera fjárlög og fjárreiður ríkisins miklu gagnsærri og auðskildari þegar við settum fjárreiðulögin. Í þeim felst ákveðin vinnuregla sem menn eiga að fara eftir og átti að draga úr hvers konar subbuskap í meðferð fjármuna. Maður verður einfaldlega að horfast í augu við það að okkur hefur ekki tekist það.

Hv. þm. hafa vísað til V. kafla fjárreiðulaganna þar sem segir í 44. gr.: ,,Valdi ófyrirséð atvik, kjarasamningar eða ný löggjöf því að grípa þarf til sérstakra fjárráðstafana sem ekki var gert ráð fyrir í fjárlögum ársins skal leitað heimilda fyrir þeim í frumvarpi til fjáraukalaga.``

Það er alveg ljóst, herra forseti, að þetta verða að vera ófyrirséð atvik eða ný löggjöf eða kjarasamningar til þess að hægt sé að réttlæta að það sé inni í fjáraukalögum.

Herra forseti. Hv. þm. Pétur H. Blöndal tíndi hér upp fjölmörg dæmi sem öll voru að minni hyggju rétt. Allt sem hann sagði hér í dæmum í dag voru útgjöld sem höfðu að tilefnum orsakir sem bentu til þess að samkvæmt fjárreiðulögunum ættu þau ekki að vera í fjáraukalögum. Hvers vegna er þá verið að setja þau inn í fjáraukalög? Ráðherrarnir eru að gera það í krafti afls og áræðis og þeirra tengsla sem þeir hafa auðvitað út í þingið. Þeir eru að koma þar fyrir útgjöldum sem ella sæjust í fjárlögum og um leið mundi skerðast svigrúmið sem þeir hafa til annarra hluta samkvæmt þeirri reglu sem við höfum búið til og felst í rammafjárlögunum, með öðrum orðum þeir eru að skara eld að köku síns málaflokks og út af fyrir sig er ekkert athugavert við að gera slíkt svo fremi það standist lögin. En það stenst ekki lögin, og hv. þm. Jón Kristjánsson tók undir að vísu ekki með stjórnarandstæðingunum í dag en en með hv. þm. Pétri H. Blöndal þegar hann sagði nákvæmlega hið sama. Þá tók hann undir að menn þyrftu að vanda sig.

Hæstv. fjmrh. hefur einnig tekið undir og miklu skeleggar þó og meira að segja í rituðu máli vegna þess að í greinargerð með fjárlagafrv. fyrir yfirstandandi ár, þ.e. árið 2000, taldi hæstv. fjmrh. ástæðu til að fara nokkrum orðum um bætta framkvæmd fjárlaga og sagði þar orðrétt á bls. 241:

,,Áhersla verður lögð á að bæta framkvæmd fjárlaga svo rekstur stofnana verði innan fjárheimilda og þörf fyrir viðbótarfjárheimildir í fjáraukalögum fari minnkandi.``

Þó að þessi orð taki kannski ekki beinlínis á þessum vanda þá fellur andi þeirra og efni í reynd saman við það sem við höfum verið að segja, þingmenn stjórnarandstöðunnar ásamt hv. þm. Pétri H. Blöndal. En hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson sagði: Hvaða vald hefur ein þingnefnd til þess að ráðast gegn stofnunum sem fara aftur og aftur fram úr fjárlögum?

Herra forseti. Það segir að ef greiða þurfi úr ríkissjóði án heimildar í fjárlögum, þá verði fjmrh. að gera fjárln. Alþingis grein fyrir slíkum greiðslum strax og ákvörðun hefur verið tekin um þær og síðan að leita heimilda til þeirra með frv. til fjáraukalaga. Herra forseti. Við höfum sem sagt vald. Vald okkar er í rauninni þrenns konar: Í fyrsta lagi höfum við vald til þess að segja nei þegar fjmrh. óskar eftir greiðslum vegna ófyrirséðs tilefnis. Í öðru lagi höfum við vald sem fjárln. til þess að hafna því að taka jákvætt á beiðnum um slíkar greiðslur ef okkur þykir sem þær eigi ekki heima í fjáraukalögum. Og í þriðja lagi, herra forseti, ef okkur þykir sem viðkomandi stofnun, viðkomandi stjórn eða viðkomandi yfirmaður stofnunar hafi leikið lögin grátt, þá höfum við einfaldlega þann möguleika að refsa honum með því að hafna algerlega slíkum beiðnum á fjárlögunum sjálfum, þannig að vissulega höfum við möguleika á því, herra forseti, að taka í lurginn á embættismönnum sem með þessum hætti eru að notfæra sér eitthvert ímyndað skjól. Ég vísa því sem sagt á bug, herra forseti, sem hv. þm. Einar Oddur hélt hér fram að þingnefnd eins og fjárln. hefði ekki burði til þess að taka á svona vandamálum. Hún hefur þann möguleika sem felst í því að hafna einfaldlega umræddri beiðni.

Herra forseti. Tökum Safnahúsið sem dæmi, þetta er gæluverkefni ríkisstjórnarinnar og það vita það allir. Þetta er orðið að hinum nýju veislusölum þar sem erlendum fyrirmönnum eru haldin dásamleg boð. Almúginn kemst auðvitað aldrei inn. Að vísu hefur þar verið ágæt sýning sem við höfum fengið að sjá en, herra forseti, 95 millj. kr. eru settar í það verkefni á fjárlögum. Kemur mönnum til hugar að ekki hafi verið hægt að sjá fyrir umfang þessa verkefnis? Þegar upp er staðið þá er beðið um á fjárlögum ekki 10 millj., ekki 30, ekki 60, heldur 100 millj. kr. aukalega til þessa verkefnis. Þetta er auðvitað dæmi um verkefni sem verið er að reyna að fela með þessum hætti til þess að það komi ekki fram og veki enn meiri athygli á fjárlögum. Það tel ég a.m.k. og menn geta út af fyrir sig verið mér algerlega ósammála um það.

Herra forseti. Aðeins áður en ég lýk þessum hluta minnar stuttu tölu. Það er rétt sem hér hefur komið fram að það er of mikið agaleysi varðandi fjárveitingar af hálfu ríkisins eins og þær birtast í fjárlagafrv. og sér í lagi fjáraukalagafrv. Við alþingismenn, við sem setjum lög, við sem leggjum fram og samþykkjum fjárlög, okkur ber auðvitað skylda til þess að fara á undan öðrum með góðu fordæmi. Eftir höfðinu dansa limirnir. Þess vegna verð ég að segja að það er auðvitað ótrúlega sárt að sjá að Alþingi fer með þessum hætti 83 millj. fram úr þeim fjárlögum sem því voru sett og við sem alþingismenn hljótum auðvitað að skoða það mál út í hörgul til þess að koma í veg fyrir að svona gerist aftur. Við eigum að vera öðrum fyrirmynd. Það er ákaflega erfitt fyrir Alþingi að hafa uppi stór orð um það að stofnanir og embættismenn brjóti í bága við samþykkt fjárlög þegar Alþingi gerir það sjálft. Getur það verið, herra forseti, að ábyrgðin hér innan dyra sé of dreifð varðandi framkvæmdir, milli forseta þingsins, æðstu embættismanna eða jafnvel stofnana eins og Framkvæmdasýslu ríkisins sem koma líka að málum? Þetta er eitthvað sem ið hljótum að þurfa að skoða.

[18:45]

Herra forseti. Ég hef í lengra máli en ég ætlaði farið yfir það hvernig mér sýnist þessi fjáraukalög standast önnur lög um fjárreiður ríkisins. Ég held að enn einu sinni séum við að falla á prófinu þó að ég virði að þeir þingmenn stjórnarliðsins sem hér hafa talað virðast hafa uppi góðan vilja.

Herra forseti. Sökum þess hversu langt er liðið á kvöld ætla ég ekki að hafa langar tölur um hvernig fjáraukalög tengjast efnahag ríkisins og stjórn þess. Það er auðvitað sárgrætilegt að horfa upp á að á sama tíma og talað er um, ekki síst af hálfu ýmissa forustumanna úr stjórnarliðinu, að nauðsynlegt sé að draga saman ríkisútgjöldin þá sjáum við þau aukast ár eftir ár og aukast umfram verðbreytingar. Hv. þm. Einar Már Sigurðarson lagði fram ákaflega skýrar tölur um hvernig útgjöld ríkisins hafa aukist á síðustu árum. Ég rifjaði upp, herra forseti, að á síðasta ári fólu fjáraukalög í sér aukin útlán upp á 7,5 milljarða. Mönnum þótti það óskaplega mikið og höfðu uppi svardaga um að svo yrði ekki aftur. Nú blasir við að fjáraukalögin hafa í för með sér enn frekari útgjöld.

Ég rifja það upp að vaxandi blikur eru á himni efnahagsmála og engir vita það betur en hv. þm. stjórnarliðsins sem sitja í fjárln. og fylgjast með því hvernig efnahagsmálum er stjórnað. Við sjáum að viðskiptahallinn sem menn töldu í upphafi þessa kjörtímabils að mundi minnka er aftur á móti vaxandi og allt það sem Samfylkingin sagði um að hann mundi hafa neikvæð áhrif á gengið hefur gengið eftir. Gengið hefur frá áramótum fallið um 10%, um 25% gagnvart dollar og enginn veit enn þá hvernig sú saga endar. Skuldir ríkisins erlendis hafa aukist um 10 milljarða vegna þessara gengisbreytinga og þær breytingar sem við höfum séð eru auðvitað ekkert annað en gengisfelling. Það er ekki hægt að kalla þetta annað. Síðasta gengisfellingin sem gerð var með handafli eftir hinni gömlu aðferð, sem ég tók þátt í að samþykkja árið 1993, var upp á 7,5% og þótti mikil á þeim tíma.

Við sjáum líka, herra forseti, að vextir fara vaxandi og verðbólgan er að aukast. Þetta samspil vaxta og verðbólgu er farið að hafa ákaflega neikvæð áhrif á efnahag almennrar alþýðu í landinu, herra forseti. Ég spyr þess vegna: Hvað segja hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson og Jón Kristjánsson við þessu? Hvaða áhrif halda þeir að þessi þróun sem birtist í útgjöldum ríkisins hafi á stjórn efnahagsmála?

Má ég, herra forseti, ljúka máli mínu með því að hjálpa þeim örlítið áleiðis? Má ég vísa til þeirra orða sem einn af virtustu sérfræðingum í efnahagsmálum Íslendinga, Yngvi Örn Kristinsson, viðhafði en hann var til skamms tíma yfirmaður peningamálasviðs Seðlabankans. Sá ágæti maður sem nú hefur hafist til þeirrar upphefðar að stýra banka í útlöndum, laus við múl hins opinbera og farinn að tala frjálst, hefur beinlínis sagt að röng stefna í ríkisfjármálum, þ.e. of mikill slaki í ríkisfjármálum hafi neytt Seðlabankann til þess að fylgja allt of harðri peningamálastefnu sem hafi aftur leitt til hás gengis og hárra vaxta. Hann hefur jafnframt sagt opinberlega að stefna ríkisins varðandi sín eigin fjármál sé skaðleg vegna þess að hún auki á þann vanda sem atvinnulífið stendur núna frammi fyrir.

Herra forseti. Það er ekki stjórnarandstæðingur sem segir þetta, heldur einn af virtustu sérfræðingum íslensku þjóðarinnar varðandi efnahagsmál og til skamms tíma í innsta kjarna ráðunauta hennar.