Skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 14:04:03 (2270)

2000-11-28 14:04:03# 126. lþ. 33.91 fundur 143#B skattafrumvörp ríkisstjórnarinnar# (aths. um störf þingsins), ÖJ
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[14:04]

Ögmundur Jónasson:

Herra forseti. Ljóst er að ríkisstjórnin er að setja allt í uppnám á vinnumarkaði. Ekki er nóg með að kennurum sé settur stóllinn fyrir dyrnar með þeim afleiðingum að nærri tuttugu þúsund nemendum hefur verið vísað út á götu. Nú er að koma í ljós að ríkisstjórnin er að knýja fram skattbreytingar sem ganga þvert á gefin loforð og fyrirheit gagnvart samtökum launafólks. Breytingar sem munu ekki einvörðungu hafa í för með sér meiri skattbyrðar, það sem verra er, þær munu hafa í för með sér lækkun skattleysismarka og þar með fjölgar láglaunafólki sem verður skattlagt.

Í gærkvöldi reif meiri hluti efh.- og viðskn. frv. út úr nefndinni þvert á óskir minni hlutans sem vildi freista þess að smíðuð yrði heildarlausn sem tryggði hag launafólks. Nauðsynlegt er að þingið geri sér grein fyrir að ríkisstjórnin er með þessu framferði að stefna þinghaldinu í mikið uppnám. Við teljum það skyldu okkar að þinginu sé gerð grein fyrir þessu nú á þessu stigi málsins. Að öðru leyti mun ég gera grein fyrir sjónarmiðum við umræðu um skattamál sem fer fram í þinginu síðar í dag.