Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 21:11:04 (2325)

2000-11-28 21:11:04# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[21:11]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Í ágætri ræðu kom hv. þm. Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir inn á mikilvægt atriði sem er loksins að nást í gegn, jafnrétti á milli fólksins í sveitum landsins. Því hefur verið þannig háttað að dreifbýlið og sveitirnar hafa ekki hlotið styrki út á vatnsveitur sínar eins og fólkið í þéttbýlinu. Nú sýnist mér, ef þetta verður að lögum, að það mál sé í höfn. Að vísu er ekki um mikinn pening að ræða, kannski um 25 milljónir á ári en nefndin gerir tillögur um það að Bændasamtök Íslands veiti þessa styrki og fari í rauninni með þetta vald.

Þar sem ég er einnig landbrh. er ég mjög sáttur við það. Bændasamtökin hafa reynslu af stjórnsýslustörfum og hafa gert það vel. Ég treysti þeim fullkomlega til þessa verkefnis. En ég vil sérstaklega þakka nefndinni fyrir að hafa loksins komið þessu mikilvæga jafnréttismáli sveitafólksins í höfn. Þetta eru ekki alltaf einstaklingsveitur, stundum eru þetta félög sem fólkið hefur stofnað með sér eða félag um samveitu. Hér eru því mörkuð tímamót sem breytir lífi þeirra sem í sveitunum búa og skapar þeim jafna stöðu á við þá sem í eru þéttbýli.