Tekjustofnar sveitarfélaga

Þriðjudaginn 28. nóvember 2000, kl. 23:12:49 (2354)

2000-11-28 23:12:49# 126. lþ. 33.2 fundur 199. mál: #A tekjustofnar sveitarfélaga# (útsvar, fasteignaskattur o.fl.) frv., landbrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 33. fundur, 126. lþ.

[23:12]

Landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég er sannfærður um að þau skref sem hér er verið að stíga eru mikil kjarabót og mikið réttlætismál gagnvart íbúum landsbyggðarinnar, að þeir borgi gjöld af húsum sínum í samræmi við verðmæti þeirra. Við skulum fagna þeim sigri.

Hins vegar er merkilegt hvernig Samfylkingin leyfir sér að tala. Ég er farinn að halda að hún sé ekki stjórnmálaflokkur heldur regnhlífarsamtök sem leitast við að hafa alls konar skoðanir, án samhengis eða samræmis. Einn er skattahækkunarmaður og annar er skattalækkunarmaður. Einn er settur til að rífa þetta niður, annar settur hinum megin. Þannig er byggt upp ósamstætt lið sem er með ónot í svona málum. Mér finnst Samfylkingin ekki líkjast stjórnmálaflokki. Það mega vinstri grænir eiga að þeir eru þó bara á móti. Þeir lifa sælir við það upp á hvern einasta dag og eru lífsglaðir yfir því. Við vitum að þeir eru grænir og neikvæðir.

Við vitum ekkert annað en að Samfylkingin sé bara regnhlífarsamtök. Hún líkist ekkert flokki. Ég veit ekki hvernig hún þróast með því áframhaldi. (Gripið fram í: Hvað með þinn flokk?) Framsfl. stendur auðvitað í þeim stórræðum að efna sín kosningaloforð og halda áfram að byggja upp þetta þjóðfélag. Hann er heill og kraftmikill í því. Hann hefur séð sigra og árangur og við getum verið lífsglaðir yfir okkar starfi. Ég er sannfærður um að þjóðin hefur uppskorið fyrir okkar djörfung. Við eigum eftir að uppskera fyrir okkar verk. Við verðum að viðurkenna það, stjórnmálamenn eins og þjóðin, að lífskjör á Íslandi hafa stórlega batnað á síðustu fimm árum. Staðan er allt önnur en hún var.