Flutningur eldfimra efna

Miðvikudaginn 29. nóvember 2000, kl. 13:58:33 (2382)

2000-11-29 13:58:33# 126. lþ. 34.3 fundur 212. mál: #A flutningur eldfimra efna# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 34. fundur, 126. lþ.

[13:58]

Dómsmálaráðherra (Sólveig Pétursdóttir):

Herra forseti. Ég vil fyrst þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa lagt þessa fyrirspurn fram. Hún hreyfir þörfu máli. Því er þar fyrst til að svara að á grundvelli umferðarlaganna hefur dómsmrh. sett tvær reglugerðir sem varða flutning á hættulegum farmi á vegum. Er þar annars vegar um að ræða reglugerð um flutning á hættulegum farmi sem er frá árinu 1998 og hins vegar reglugerð um starfsþjálfun stjórnenda ökutækja sem flytja tiltekinn hættulegan farm frá árinu 1995. Báðar þessar reglugerðir voru settar með hliðsjón af reglum sem teknar höfðu verið upp í samninginn um Evrópska efnahagssvæðið. Reglurnar eru því í samræmi við það sem gildir í nágrannalöndum okkar.

Reglurnar sem gilda þannig skilgreina m.a. ítarlega hvað er hættulegur farmur en þar er m.a. um að ræða sprengifim efni, lofttegundir, eldfim efni, eiturefni, smitefni, geislavirk efni og ætandi. Þau eldfimu efni sem fyrirspurnin tilgreinir falla þannig undir reglugerðirnar. Þar einnig kveðið á um umbúðir og merkingar á þeim, flutningsskjöl, merkingu ökutækja, ýmsan fylgibúnað með farmi, réttindi ökumanna o.fl., svo og um eftirlit prófanir og viðurkenningar. Að þessu koma Vinnueftirlit ríkisins, lögreglan, Geislavarnir og heilbrigðisyfirvöld hvert á sínu sviði. Segja má að þarna séu ítarlegar almennar reglur um það sem spurt er um.

Í reglunum er einnig kveðið á um að leyfi lögreglu þurfi til vissra flutninga og til að ferma eða afferma hættulegan farm á almennu svæði í þéttbýli, að vakta skuli farm og að ökutækum sé ekki lagt við íbúðarhúsnæði. Þá eru þar takmarkanir á flutningi farþega. Loks eru ákvæði um að lögbær yfirvöld geti sett sérstakar reglur um flutning á hættulegum farmi um jarðgöng eða yfir brýr ef nauðsyn krefur og að lögreglan geti sett sérreglur um flutningsleiðir og fylgd ökutækja.

Hér hefur verið gerð grein fyrir hinum almennu reglum en unnið er að endurskoðun reglnanna og er þar fyrst og fremst um að ræða aðlögun að nýjum tilskipunum sem settar hafa verið á Evrópska efnahagssvæðinu.

Að því er varðar sérreglur um flutning á hættulegum farmi er þess að geta að sérstakar reglur gilda fyrir umferð um Hvalfjarðargöngin og þær reglur setti lögreglustjórinn í Reykjavík í júní 1998 að fenginni tillögu vegamálastjóra. Gilda reglurnar um flutning á hættulegum farmi eins og hann er skilgreindur í reglugerðinni frá 1998 á álagstíma venjulegrar umferðar, þ.e. frá föstudagsmorgni til miðnættis á sunnudagskvöldum allt árið. Um stórhelgar hefst bannið yfirleitt fyrr og því lýkur síðar. Um páska gildir bannið þannig frá laugardagsmorgni fyrir páska og um verslunarmannahelgi frá fimmtudagsmorgni. Bannið varir fram á þriðjudagskvöld eftir páska, hvítasunnu og verslunarmannahelgi.

Þá skal þess getið að við flutning á vissum hættulegum farmi, t.d. sprengiefni, er tíðkað að áskilja lögreglufylgd. Við flutning sprengiefnis vegna virkjunarframkvæmda á hálendinu og flutning PCB-efna frá virkjunum er leitast við að fara sem skemmsta leið eftir þjóðvegi 1 og þá valin fáfarnari leið um skeið. Tekið skal fram að samkvæmt upplýsingum frá lögreglustjóranum í Reykjavík og Vegagerðinni stendur nú yfir athugun á því hvort þörf sé endurskoðunar á reglunum um flutning um Hvalfjarðargöng, m.a. í ljósi ábendinga frá Vinnueftirliti ríkisins. Í því sambandi skal tekið fram að Vegagerðin kveður ekki þekkt dæmi um það erlendis að flutningur eldfimra efna um jarðgöng sé alfarið bannaður þar sem umferð er svipuð og í Hvalfjarðargöngum eða innan við 3.000 bílar á dag að meðaltali. Víða séu engar takmarkanir á slíkum flutningum þar sem umferð er 5--10 sinnum meiri, en þeir þá heimilaðir á tilteknum tímum og undir sérstöku eftirliti. Þá séu dæmi um göng þar sem umferð er meiri en 50 þúsund bílar á dag þar sem umferð er alfarið bönnuð. Einnig er bent á að margs konar efni önnur en bensín, olíur og gas geta verið eldfim og að bann við flutningi eldfimra efna einna kallar á eftirlit með öllum flutningabílum. Loks skal tekið fram að á vegum OECD hefur verið unnið að viðamiklu verkefni um flutning hættulegra efna um jarðgöng. Hafa íslensk stjórnvöld fylgst með því verkefni og er gert ráð fyrir að athugun á því hvort gerðar skuli breytingar á reglum um umferð um Hvalfjarðargöng taki mið af tillögum sem þar koma fram. Er gert ráð fyrir að niðurstaða af athugunum lögreglustjóra muni liggja fyrir innan tveggja mánaða.

Ég vænti þess að fyrirspyrjandi hafi fengið fullnægjandi svar við fyrirspurn sinni.