Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 13:05:37 (2449)

2000-11-30 13:05:37# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. 1. minni hluta ÖS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[13:05]

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Össur Skarphéðinsson):

Herra forseti. Hér fóru fram að mínu viti ákaflega merkilegar umræður í morgun. Hv. þm. Jón Kristjánsson setti hér fram viðhorf sem mér fannst ákaflega merkileg. Í ræðu hv. þm. var í reynd í fyrsta skipti viðurkennt af fullri alvöru að blikur væru á lofti í efnahagsmálum. Það hefur ekki gerst áður, herra forseti, að talsmenn stjórnarliðsins hafi með þeim hætti sagt það hreint út að Samfylkingin hafi haft rétt fyrir sér í þeim efnum, en um þetta höfum við nú rætt hátt á annað ár.

Það vakti sér í lagi athygli mína, herra forseti, að hv. þm. taldi að núverandi viðskiptahalli væri óviðunandi og hann sagði hreint út að hann væri beinlínis hættulegur. Þetta er í hreinni andstöðu við það sem talsmenn Sjálfstfl. hafa yfirleitt sagt í þessum efnum. Ég hef aldrei heyrt það fyrr, herra forseti, af hálfu hv. talsmanna stjórnarliðsins að hætta væri á ferðum í þessum efnum. Það var jafnframt merkilegt, herra forseti, að hv. þm. Jón Kristjánsson taldi að það sem nauðsynlegt væri að gera til þess að sporna við viðskiptahallanum væri fyrst og fremst að efla þjóðhagslegan sparnað. Um það getum við verið sammála. Hver voru svo ráð hv. þm. til þess að efla þjóðhagslegan sparnað? Það var að beita ríkisfjármálunum og ná sem mestum afgangi á ríkissjóði. Ég spurði í morgun hv. þm. Jón Kristjánsson hvort þetta væri nægilegt að hans mati til þess að sporna við viðskiptahallanum og ég fékk ekki betur séð en hann væri þeirrar skoðunar að þetta væri nóg. Það er hins vegar svo, herra forseti, að það er ekki bara nóg að ná góðum afgangi á ríkissjóði, það er líka spurning um það hvernig þeim peningum er varið sem menn veita á fjárlögum.

Herra forseti. Opinberar framkvæmdir á þessum þenslutímum hafa aldrei verið meiri. Það er athyglisvert að sjá að á þessu ári hafa opinberar framkvæmdir sveitarfélaga og ríkisins aldrei verið meiri. Og til að mynda í niðursveiflunni og samdráttarárinu 1995 voru þær snöggtum minni. Samt blasir enn þá við að opinberar framkvæmdir munu aukast á næsta ári.

Ég vildi spyrja hv. þm. Jón Kristjánsson hvort hann sé þeirrar skoðunar að það þurfi ekki að draga saman opinberar framkvæmdir til þess að vinna bug á þessum mikla viðskiptahalla?

Við erum stödd á dálítið merkilegum tímum við þessa umræðu, herra forseti. Það ríkir góðæri í landinu og sannarlega hefur kaupmáttur verið á uppleið. Stjórnarliðar hafa yfirleitt keppst við að slá sér á lær í þessu mikla góðæri og hrósa sjálfum sér hvað þeir séu miklir snillingar í að búa til gott efnahagsumhverfi og að skila miklum og góðum afgangi af ríkissjóði. Á hinn bóginn hefur það verið þannig að allir sérfræðingar, innlendir og erlendir, hafa verið heldur ókátir með þá þróun sem við höfum séð á Íslandi í efnahagsmálunum. Sérfræðingar, það er eiginlega sama hvaða nafni þeir nefnast, hafa séð blikur hrannast upp og þeir hafa í vaxandi mæli spáð því að lendingin eftir þessa kröftugu uppsveiflu sem við höfum nú séð á síðustu árum, verði harkaleg. Þessu hafa stjórnarliðar jafnan tekið fálega. Sérstaklega má segja að forustumenn Sjálfstfl. hafi skellt eyrum skolla við þessu. Þeir hafa tekið þessu ákaflega karlmannlega og af mikilli hreysti, látið sér fátt um finnast, nánast glott við tönn eins og Skarphéðinn í brennunni. En við vitum öll hver afdrif hans urðu án þess ég ætli að fara að rifja það upp neitt sérstaklega hérna, herra forseti.

Ég ætla í þessari ræðu minni að fara yfir nákvæmlega þau atriði sem hv. þm. Jón Kristjánsson nefndi varðandi hinar almennu útlínur efnahagsmála. Ég ætla sérstaklega að ræða viðskiptahallann, vextina og verðbólguna. En áður en að því kemur, herra forseti, vildi ég líka í stuttu máli greina frá því að Samfylkingin leggur hér fram ákaflega merkilegar brtt. við fjárlagafrv. Þar leggjum við, eins og er í samræmi við okkar stefnu, helstu áherslu á mennta- og menningarmál, á aldraða og öryrkja, á barnafólk og byggðamál. Ég vil að það komi fram strax í upphafi þessarar umræðu, herra forseti, að Samfylkingin leggur til að einum milljarði verði varið til viðbótar til mennta- og menningarmála.

Sömuleiðis leggur Samfylkingin til að 2 milljörðum verði varið til þess að koma á fyrsta áfanga sérstakrar afkomutryggingar fyrir aldraða og öryrkja, en við höfum þegar kynnt þá afkomutryggingu ítarlega með tillögu sem liggur fyrir í þinginu.

Í þriðja lagi viljum við auka greiðslur til barnabóta um 1.250 millj. umfram tillögur ríkisstjórnarinnar þannig að hægt sé að greiða ótekjutengdar barnabætur til 16 ára aldurs en ekki bara til sjö ára aldurs, eins og tillögur þeirra kveða á um.

Í byggðamálum leggjum við síðan til fjölmargar breytingar á fjárlagafrv. sem við teljum farsælar í því skyni að efla framsækna byggðastefnu. Þrátt fyrir þetta, herra forseti, og trúir þeirri stefnu að það eigi að sýna ábyrga fjármálastjórn, leggja þingmenn Samfylkingarinnar fram tillögur á sérstöku þingskjali um niðurskurð og auknar tekjur í þeim mæli að þrátt fyrir þessar tillögur sem ég hef talið upp hér, muni tekjuafgangur ríkisins samkvæmt tillögum Samfylkingarinnar aukast um einn milljarð kr.

Herra forseti. Eins og hv. þm. Jón Kristjánsson fór yfir í sinni yfirgripsmiklu ræðu má segja að staða efnahagsmála einkennist núna af afleiðingum langvarandi þenslu og við sjáum ekki enn þá fyrir endann á henni. Það var ljóst strax árið 1998 að það þurfti að taka miklu betur á í fjármálum ríkisins. Eins og þingheimur man vakti Samfylkingin máls á þessu í aðdraganda síðustu kosninga og ekki bara við þingmenn Samfylkingarinnar, heldur nánast allar þær sérfræðistofnanir innlendar og erlendar sem tóku til máls um stöðuna. Ég vek sérstaka eftirtekt á því að í ritum Seðlabankans mátti finna aðvörunarorð allt frá árinu 1998 þó þau væru að sönnu miklu kurteislegar orðuð fyrir kosningarnar en eftir þær.

Af þessu er alveg ljóst, herra forseti, að aðvörunarbjöllur voru byrjaðar að klingja þegar fyrir síðustu kosningar þó lágt væri í fyrstu. En þær hafa orðið háværari síðar.

Ríkisstjórnin hunsaði að sjálfsögðu öll aðvörunarorðin, ekki bara það sem við í Samfylkingunni höfðum fram að færa heldur líka það sem þeirra eigin efnahagsstofnanir sögðu. Lausatök hennar á stjórn efnahagsmála hafa leitt til þess að viðskiptahalli er nú með allra hæsta móti, eða 8% á landsframleiðslu, samkvæmt því sem Þjóðhagsstofnun spáir og ég á eftir að fara frekar yfir það því erlendar stofnanir hafa ýmislegt við það að athuga. Gengið hefur fallið um 10% frá því í maí og Seðlabankinn hefur margsinnis þurft að grípa til aðgerða til þess að sporna gegn frekara falli. Þvert ofan í spár ríkisstjórnarinnar stefnir verðbólgan nú hraðbyri yfir 5% á næstu mánuðum og sumir ganga svo langt að spá henni yfir 6%. Vextir eru orðnir það háir hérna að hægt er að tala núorðið um vaxtapíningu. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar lét þess getið í útvarpsviðtali 2. nóvember að þeir væru hærri hér en í flestum þeim löndum sem við Íslendingar berum okkur saman við.

Þessi þróun er þegar tekin að birtast í atvinnulífinu, í milliuppgjörum fyrirtækja sem eru miklu lélegri en greiningardeildir fjármálastofnana spáðu og fjárfestar hafa þegar fellt sinn dóm yfir efnahagsstefnunni með stórfellum flutningi á fjármagni erlendis. Það hefur líka endurspeglast í miklu falli á hlutabréfamarkaði innan lands. Þar með má segja, herra forseti, að markaðurinn sem hæstv. ríkisstjórn segir að sé alvaldur þegar kemur að mati á svona málum, hefur fellt sinn dóm og sú einkunn sem markaðurinn hefur fellt yfir efnahagsstefnu hæstv. ríkisstjórnar er falleinkun. Fjárlagafrv. og ýmsar aðgerðir ríkisstjórnarinnar benda því miður ekki til þess að stjórnvöld séu búin að átta sig á því hve alvarlegur hinn undirliggjandi vandi er.

Í þessu ljósi, herra forseti, og í ljósi þess hvernig ríkisstjórnin hefur haldið á málum finnst mér áður en við höldum þessari umræðu lengra að óhjákvæmilegt sé að rifja upp nokkur af þeim aðvörunarorðum sem innlendir og erlendir sérfræðingar höfðu uppi til þess að vara ríkisstjórnina við. Jafnframt er óhjákvæmilegt að rekja þau mistök sem Samfylkingin hefur aftur og aftur bent á að gerð voru við stjórn efnahagsmála.

[13:15]

Ég rifja það upp að Þjóðhagsstofnun taldi í riti sínu um horfur í þjóðarbúskapnum sem kom út fyrr á þessu ári að það væru vaxandi líkur á harkalegri lendingu ef misvægið í þjóðarbúskapnum héldi áfram að aukast og í umsögn stofnunarinnar klykkti hún út með eftirfarandi, með leyfi forseta:

,,Það er alveg ljóst að það fær ekki staðist til lengdar að verðbólga sé meiri en í helstu viðskiptalöndum og viðskiptahalli sé á bilinu 6--8% af landsframleiðslu.``

Í skýrslu OECD frá því í desember 1999 var líka dregin upp dökk mynd af ástandinu. Þar sagði, með leyfi forseta:

,,Hætta hefur aukist á að skyndilega muni þurfa að draga saman í efnahagslífinu til að minnka verðbólgu og ná henni niður á sama stig og er erlendis. Auk þess er mikil aukning í útlánum banka og þar með aukast líkur á harkalegri lendingu ef vextir eru hækkaðir.``

Þjóðhagsstofnun spáði jafnframt að hreinar erlendar skuldir mundu að óbreyttu hækka úr 64% af landsframleiðslu í lok síðasta árs í 84% árið 2004. Um leið versnar hrein erlend staða þjóðarbúsins frá því að vera neikvæð um 49% af landsframleiðslu í 61%. Herra forseti. Hvað þýðir slík breyting fyrir stöðugleika efnahagslífsins?

Seðlabankinn svaraði því í einu af ritum sínum um peningamál með eftirfarandi hætti, með leyfi forseta:

,,Ólíklegt er að svo mikið ójafnvægi í utanríkisviðskiptum verði til lengdar án snöggra umskipta. Það ójafnvægi í þjóðarbúskapnum sem þessir framreikningar vitna um fela því í sér alvarlega ógnun við stöðugleika til frambúðar. Af þeim sökum er nauðsynlegt að grípa til frekari aðgerða til að tryggja hann.``

Það vantaði sem sagt ekki, herra forseti, að innlendir jafnt sem erlendir sérfræðingar sáu blikur á lofti áður en það syrti fyrir alvöru í álinn og þeir spöruðu hvergi sínar aðvarðanir. Þessum aðvörunum var hvergi sinnt.

Afleiðingunum af þessum mistökum ríkisstjórnarinnar var svo lýst með giska kjarnyrtum hætti af virtum efnahagssérfræðingi sem til skamms tíma var yfirmaður peningamálasviðs Seðlabankans, Yngva Erni Kristinssyni, sem nú er orðinn bankastjóri í Lúxemborg. Hann lýsti þeim svo á opnum fundi um efnahagsmál 10. nóvember, með leyfi forseta:

,,Við höfum verið með of harða peningastefnu en of slaka stefnu í ríkisfjármálum. Afleiðingin er sú að við höfum verið með mjög háa vexti og hátt gengi. Það hefur leitt til þess að viðskiptahalli hefur magnast. Við höfum skapað erfiða stöðu fyrir útflutnings- og samkeppnisgreinar og vaxtarsprotana sem þurfa að byggja sig upp á innlendum markaði áður en þeir geta sótt út á erlenda markaði eftir fjármögnun.``

Í frásögn Morgunblaðsins 11. nóvember er líka haft eftir Yngva Erni að sennilega hafi efnahagsstefnan sem hér hefur verið fylgt undanfarin ár, og ég vitna, með leyfi forseta, ,,að nokkru leyti magnað þennan vanda sem þjóðarbúið er að glíma við í dag``.

Hérna er einn af virtustu efnahagssérfræðingum þjóðarinnar, einn af þeim sem hæstv. ríkisstjórn hefur leitað til um ráð, að lýsa því hvernig stefna ríkisstjórnarinnar í ríkisfjármálum hefur beinlínis magnað viðskiptahallann. Ég dreg þetta sérstaklega fram hér, herra forseti, vegna þess að Jón Kristjánsson, hv. formaður fjárln., lýsti því í andsvari við mig fyrr í dag að að hans mati væri stefna ríkisins í ríkisfjármálum nægileg til þess að sporna við viðskiptahallanum. En það kemur hins vegar fram hjá sérfræðingum sem hafa unnið að mótun þessarar stefnu undir valdsviði ríkisstjórnarinnar að þeir eru ekki bara ósammála stefnunni heldur telja þeir að hún muni ekki sporna gegn viðskiptahallanum eins og hv. þm. Jón Kristjánsson hefur haldið fram á þessum degi heldur beinlínis magna hann upp. Það hlýtur að vera harður áfellisdómur, herra forseti, þegar sérfræðingar á borð við þennan núverandi bankastjóra í Lúxemborg segja að stefna ríkisins í ríkisfjármálum, of mikill slaki í ríkisfjármálum, sé beinlínis valdur að því að skaða atvinnulífið um þessar mundir og magna upp vandann sem blasir við.

Það er ekki hægt að skilja þetta öðruvísi, herra forseti, en svo að þeir menn sem mest vit og mesta þekkingu hafa á peningamálum og ríkisfjármálum séu að segja að ríkisstjórnin sé að fylgja stefnu sem sé svo röng að hún sé að magna viðskiptahallann sem hv. þm. Jón Kristjánsson taldi óviðunandi, sem hæstv. utanrrh. Halldór Ásgrímsson hefur reyndar líka varað við og þessir sérfræðingar eru að halda því fram að stefnan grafi undan atvinnulífinu. Þessu vísa ég til hv. þm. Jóns Kristjánssonar og spyr hann þar sem hann er í forsvari fyrir stjórnarliðið: Hvað segir hann um þessi orð Yngva Arnar Kristinssonar? Er hann þeirrar skoðunar að sú stefna sem fylgt er í ríkisfjármálum magni viðskiptahallann? Ef hann er annarrar skoðunar, hvaða rök hefur hann til þess að tefla gegn þessum merka sérfræðingi sem ég hef vitnað í nokkrum sinnum?

Herra forseti. Í tilefni af þessum orðum Yngva Arnar og í tilefni af því sem okkur hefur farið á milli um ríkisfjármálin þá er líka rétt að rifja upp og lesa upp úr minnihlutaáliti stjórnarandstöðunnar um fjárlagafrv. á síðasta ári. Þar sögðum við m.a., með leyfi forseta:

,,Minni hluti fjárlaganefndar telur að við núverandi aðstæður sé höfuðnauðsyn að grípa til aðgerða sem miða að því að draga úr þenslu ...

Í núverandi stöðu dylst fæstum að fjárlagafrumvarpið gæti leikið lykilhlutverk í því að koma í veg fyrir skjótar lyktir góðærisins með því að hafa hemil á ríkisútgjöldum og skila miklum tekjuafgangi. Ábyrgð ríkisstjórnarinnar er því mikil. Stefnumörkun hennar í fjárlagafrumvarpinu sker í reynd úr um hvort hægt verður að treina góðærið. Í orði hefur ríkisstjórnin tekið undir þessar aðvaranir. Í reynd er niðurstaðan hins vegar sú að frumvörp hennar til fjárlaga og fjáraukalaga sem nú liggja fyrir þinginu stórauka útgjöld og eru beinlínis þensluhvetjandi.``

Herra forseti. Ég rifja þetta upp vegna þess að þetta var það sem stjórnarandstaðan sagði í fyrra. Hún benti á að nauðsynlegt væri að taka harðar á í ríkisfjármálunum og í þessari yfirlýsingu stjórnarandstöðunnar fólst í reynd tilboð af hennar hálfu um samvinnu við ríkisstjórnina í því efni. Við höfum margsinnis bent á að besta leiðin til þess að taka á í svona málum sé í upphafi kjörtímabilsins. Þess vegna ræddum við þetta með þessum hætti í fyrra og ég minnist þess að hv. þm. stjórnarliðsins höfðu okkur að háði og spotti fyrir.

Ég rifja það líka upp, herra forseti, að á þessum tíma þegar við vorum að ræða fjárlagafrv. í fyrra þá voru erlendar sérfræðistofnanir farnir að senda okkur aðvaranir í stríðum straumum. Þær höfðu reyndar byrjað fyrr á því. Ég vil í því sambandi rifja upp álit Alþjóðagjaldeyrissjóðsins frá því árinu fyrr þar sem þetta var séð fyrir og þar var eftirfarandi dómur felldur:

,,Nýsamþykkt fjárlög fyrir 1999 fela ekki í sér nægilegt aðhald í ríkisfjármálum að okkar dómi.``

Herra forseti. Það hefur þannig legið fyrir ákaflega lengi að erlendir sérfræðingar og innlendir hafa verið ósammála þeirri stefnu sem ríkisstjórnin hefur fylgt varðandi ríkisfjármálin.

Hv. þm. Jón Kristjánsson ræddi talsvert um viðskiptahallann, gerði líka skuldasöfnun að umræðuefni auk þess sem hann fjallaði um gengismál. Ég rifja það af þessu tilefni upp að í stefnuræðu sinni árið 1996 lýsti forsætiráðherra mikilvægi þess að ná tökum á viðskiptajöfnuði til þess, eins og hann sagði, með leyfi forseta, ,,að erlendar skuldir okkar geti haldið áfram að lækka og að vaxtagreiðslur til erlendra aðila minnki ár frá ári``. Hvernig var staðan, herra forseti, þegar þessum áhyggjum forsrh. var lýst? Þá var viðskiptahallinn 8 milljarðar kr. og mörgum þótti hann ærinn. Síðan forsætisráðherra lýsti þessari stefnu hefur þróunin orðið þveröfug. Viðskiptahallinn hefur haldið áfram að vaxa alveg eins og Samfylkingin hefur spáð missirum saman og menn vita hverjar undirtektir stjórnarliðsins voru við því.

Ég rifja það upp, herra forseti, að hæstv. fjmrh. sem hér er nú staddur með okkur í dag endurtók það langt fram eftir síðasta ári að við hefðum rangt fyrir okkur og viðskiptahallinn mundi ekki aukast heldur mundi hann minnka. Ég man t.d. eftir hástemmdum yfirlýsingum hans um það við umræður um fjárlagafrv. í fyrra þegar við bentum með gildum rökum á að þróunin væri á aðra leið. Viðskiptahallinn hefur vaxið geigvænlega. Á síðasta ári nam hann 40,4 milljörðum kr. eða 6,5% af landsframleiðslu. Á þessu ári spáir Þjóðhagsstofnun að viðskiptahallinn aukist enn og nemi 54 milljörðum kr., eða 8% af landsframleiðslunni. Þjóðhagsstofnun segir að hann muni halda áfram að hækka á næsta ári og verða 56,9 milljarðar. Hverjum hefði dottið þetta í hug, herra forseti, þegar bæði hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. stóðu í þessum stóli og beinlínis híuðu á stjórnarandstöðuna fyrir að halda því fram að þróun væri með þeim hætti sem reynslan hefur sýnt að hún varð. Gangi spá Þjóðhagsstofnunar eftir verður halli á viðskiptajöfnuði sem svarar til 6,5--8% af landsframleiðslu fjögur ár í röð. Ekki eru dæmi um annan eins viðskiptahalla svo langan tíma í einu. Þessi staða speglast best í þeirri nöturlegu staðreynd að þrátt fyrir mikinn rekstrarafgang getur ríkisstjórnin ekki gert upp erlend lán, og þarf jafnvel að taka aukin erlend lán til að bæta gjaldeyrisstöðuna. Er myndin svona svört, herra forseti? Það gæti verið að hún væri enn svartari.

OECD, sem gerþekkir íslenskt efnahagslíf, er nefnilega miklu svartsýnni fyrir hönd íslensks efnahagslífs. Stofnunin spáir því að viðskiptahallinn í ár verði miklu meiri en Þjóðhagsstofnun telur eða 70 milljarðar kr. sem jafngildir 9,1% af landsframleiðslunni. Á næsta ári spáir svo OECD að viðskiptahallinn aukist enn eða í 10% af landsframleiðslu. Þetta eru náttúrlega alveg ótrúlegar tölur.

Það má hins vegar segja að ríkisstjórnin virðist ekki hafa miklar áhyggjur af þessari þróun, og af orðum forustumanna hennar má ráða að viðskiptahallinn sé í reynd góðkynja og maður hefur heyrt það aftur og aftur frá hæstv. forsrh., m.a. í þeim sjónvarpsþætti sem ég gat um hér áðan, að núverandi viðskiptahalli væri í reynd ekki líklegur til þess að leiða til neikvæðra afleiðinga. Sú stofnun sem hefur að meginhlutverki að veita ríkisstjórninni ráð og upplýsingar um þróun efnahagsmála er á allt annarri skoðun og tekur í reynd undir með rökstuddri gagnrýni Samfylkingarinnar síðustu missiri. Þetta kemur fram í Þjóðhagsáætlun þar sem segir orðrétt, með leyfi forseta:

,,Áframhaldandi hár viðskiptahalli mun því leiða til tiltölulega hratt versnandi erlendrar stöðu.``

Síðan bætir stofnunin við og segir:

,,Sífelld aukning skulda fær ekki staðist. Mikill og langvarandi viðskiptahalli þjóða hefur því stundum verið undanfari skarprar gengislækkunar.``

Herra forseti. Í þessum orðum er Þjóðhagsstofnun að segja nákvæmlega það sama og Samfylkingin hefur bent á missirum saman, að mikill og vaxandi viðskiptahalli sé ákaflega hættulegur fyrir þróun íslensku krónunnar. Hver hefur haft rétt fyrir sér í þessum efnum, ríkisstjórnin eða Samfylkingin? Reynsla síðustu ára hefur sýnt afdráttarlaust að ríkisstjórnin hefði betur hlustað á varúðarorð okkar. Veruleikinn hefur sýnt það að viðskiptahallinn gróf undan genginu í þeim mæli að þróun þess felur í reynd í sér það sem kalla má skarpa gengislækkun.

Viðskiptahallanum fylgir mikil skuldasöfnun erlendis eins og hv. þm. Jón Kristjánsson benti rækilega á í sinni ræðu. Þegar ríkisstjórnin tók við árið 1995 voru hreinar erlendar skuldir þjóðarbúsins rúm 50% af landsframleiðslu. Forsætisráðherrann lýsti þá yfir á Alþingi að ríkisstjórnin stefndi að því að þær lækkuðu niður í 34% af landsframleiðslu í lok ársins 2000. Hvernig hefur það ræst? Á þessu ári segir Þjóðhagsstofnun að hrein erlend staða þjóðarbúsins verði neikvæð um 55% af landsframleiðslu en neikvæð um nærri 60% af landsframleiðslu í lok næsta árs. Með öðrum orðum, það stappar nærri að munurinn á því sem hæstv. forsrh. sagði að væri stefna ríkisstjórnarinnar og raunveruleikanum eins og hann blasir við í dag, sé nánast tvöfaldur.

Ég spyr því hæstv. fjmrh. fyrst hann er staddur hérna: Er það skoðun hans í dag að varnaðarorð Samfylkingarinnar varðandi viðskiptahallann og áhrif hans á gengið hafi verið út í loftið? Þetta er spurning sem við höfum ítrekað spurt og höfum aldrei fengið svar við. Hæstv. ráðherrar hafa ávallt skotið sér undan umræðu um þessi efni en nú finnst mér að hæstv. fjmrh. skuldi Samfylkingunni svör við þessum spurningum.

Hvað hefur gerst á síðustu mánuðum? Viðskiptahallinn veikti krónuna nægilega til að spákaupmenn hafa tvívegis gert að henni harkalegar atlögur á síðasta sumri. Þessum atlögum hefur verið haldið áfram og þess á milli hefur krónan sigið tiltölulega rólega. Seðlabankinn hefur ítrekað þurft að grípa til aðgerða til að bjarga krónunni. Hann hefur neyðst til að verja nánast 15 milljörðum kr. í þessum tilgangi. Honum tókst ekki að kaupa til baka nema sem svaraði 1,5 milljörðum kr. fyrr í haust. Þrátt fyrir þetta, eins og ég hef sagt, er krónan um þessar mundir um 10% lægri en í byrjun maí. Þess má líka geta að gagnvart Bandaríkjadal hefur krónan fallið um nærfellt fjórðung frá áramótum. Ég vil einnig nefna, til að halda öllu til haga, að þar er þó um að kenna aðstæðum sem eru ekki nema að litlu leyti á valdi ríkisstjórnarinnar.

[13:30]

Hversu lengi munu inngrip Seðlabankans síðan halda? Ef ég horfi til reynslu af slíkum inngripum Seðlabanka í nálægum löndum kemur í ljós að þær geta skipt sköpum um nokkurn tíma en til langs tíma megna þær ekki að halda uppi gjaldmiðli sem er veikur fyrir og er undir álagi.

Mér finnst líka athyglisvert, herra forseti, að rifja upp að þegar þessar umræður fara fyrir alvöru af stað á síðustu vikum, um að blikur séu á lofti í efnahagslífinu, þá er eins og ríkisstjórnin hafi fundið sér blóraböggul. Það er jafnan háttur hennar að finna sér einhver sektarlömb. Þessir blórabögglar eru lífeyrissjóðirnir, ríkisstjórnin kennir fjárfestingum þeirra um þensluna og þessa þróun.

Um það er engum blöðum að fletta að fjárfestingar lífeyrissjóðanna erlendis veikja krónuna um þessar mundir þó að þær séu jákvæðar þegar menn horfa til lengri tíma. En þessar fjárfestingar eru alls ekki nýjar. Þær hafa viðgengist á undanförnum árum með vaxandi þunga í samræmi við langtímaáætlanir sem lengi hafa legið fyrir hjá þessum sjóðum. Það sem skiptir hins vegar mestu máli varðandi þessa þróun er ákvörðun ríkisstjórnarinnar frá því í vor þegar hún beitti sér fyrir því að heimildir lífeyrissjóðanna til að fjárfesta erlendis yrðu auknar úr 40% af hreinni eign sjóðanna í 50%. Þetta skref var ákaflega sérkennilegt í ljósi þess að þá voru langflestir sjóðirnir undir 40% þakinu. Með þessari ákvörðun sinni, þessu frumkvæði sínu var ríkisstjórnin í reynd að gefa sjóðunum til kynna að æskilegt væri að þeir flyttu hluta af sínu fjármagni til útlanda. Þeir brugðust líka nákvæmlega þannig við. Í þeirri ákvörðun ríkisstjórnarinnar fólust alvarleg mistök, enda var við þeim varað bæði af Fjármálaeftirlitinu og Seðlabankanum. Það nöturlega við þetta er að eftir að hafa í reynd hvatt lífeyrissjóðina til að flytja meira af sínum fjármunum erlendis þá kemur ríkisstjórnin núna og gerir þá að blórabögglum fyrir mistök sem hægt er að skrifa á reikning hennar sjálfrar.

Hvernig er þá staða þenslunnar í dag? Er hún í rénun eins og hæstv. ríkisstjórn heldur fram? Í nýjasta riti Seðlabankans er bent á að það séu að koma fram vísbendingar um að það dragi úr veltuaukningu og umsvifum á húsnæðismarkaði. Samt er það svo, herra forseti, að þenslueinkenni eru enn þá sterk og samkvæmt sumum mælikvörðum sterkari en nokkru sinni fyrr. Vinnumarkaðurinn er t.d. spenntari en hann hefur verið, sem eykur auðvitað hættuna á launaskriði og samkvæmt riti Seðlabankans hefur ákaflega lítið dregið úr aukningu útlána. Ríkisstjórnin heldur því eigi að síður fram að þenslan sé að minnka. Ég tek undir það sem sagt er í riti Seðlabankans, að það eru vísbendingar um það. Einn af helstu efnahagsráðgjöfum ríkisstjórnarinnar, Þórður Friðjónsson, virðist þó á annarri skoðun. Í viðtali við ríkissjónvarpið 2. nóv. sagði þjóðhagsstofustjóri að þenslan væri áhygguefni, og það var haft eftir honum, með leyfi forseta, að ,,á miðju sumri hafi verið talið að þenslan væri í rénun en að undanförnu hafi komið fram nokkuð skýr merki um að hlé væri á þeirri þróun og að þenslan væri jafnvel að færast aftur í aukana``. Það er sem sagt þjóðhagsstofustjóri sem kemur fram á sviðið fyrir nokkrum vikum og segir beinlínis að ríkisstjórnin hafi rangt fyrir sér þegar hún segir að þenslan sé í rénun. Þjóðhagsstofustjóri kemur fram og segir að nokkuð skýr merki séu um að þenslan sé jafnvel að færast aftur í aukana.

Herra forseti. Þegar maður skoðar þær tölulegu staðreyndir sem við höfum á borðum okkar í fjárln. þá blasir við að því miður hefur þjóðhagsstofustjóri nokkuð til síns máls. Það er að sönnu rétt að aukningin í veltu og umsvifum er ekki eins mikil og í fyrra. Eigi að síður er aukningin enn fyrir hendi. Ef við skoðum innheimtu virðisaukaskatts fyrstu tíu mánuði þessa árs þá jókst hann um 9,6% miðað við sama tíma í fyrra. Tekjuskattur einstaklinga á þessu ári jókst um 16,6% fyrstu tíu mánuðina sem er meira en fyrstu sex mánuðina, þá jókst hann um 14,6%. Það er ekki hægt að draga aðra ályktun af því, herra forseti, en að spennan á vinnumarkaði hafi aukist verulega allra síðustu mánuði. Eins og við vitum þá sæjum við, ef ekki væri fyrir fjölda erlendra handa, vegna um 7.000 útlendinga sem hér eru á vinnumarkaði, líkast til fram á miklu meiri spennu á vinnumarkaði og líkast til óðaverðbólgu. Þetta skulum við hafa í huga, herra forseti, ekki síst þegar við ræðum réttindi og skyldur okkar gagnvart nýbúum.

Herra forseti. Hverjar eru horfurnar varðandi verðbólguna? Þær hafa vissulega versnað við að gengið hefur lækkað. Nú spáir Seðlabankinn því að verðbólga verði 4,6% yfir næsta ár en hann spáði í ágúst að verðbólgan yrði undir 4% yfir árið 2001. Þá verður líka að hafa það í huga þegar ég nefni þessar tölur og spár að gengi krónunnar er núna um 1,5% lægra en miðað var við í þeirri verðbólguspá bankans sem ég nefndi. Þróunin sem við horfum upp á speglast líka í þeirri staðreynd að verðbólgan er miðað við síðustu þrjá mánuði samkvæmt mati Hagstofunnar 6,2%. Þá vil ég líka rifja það upp að það hefur komið fram opinberlega að sérfræðingar Íslandsbanka-FBA spá því að verðbólgan verði a.m.k. 6% þegar kemur fram á næsta ár og reyndar hafa þeir spáð því að í lok fyrsta ársþriðjungs 2001 verði hún komin í 6,3%. Við þetta verður líka að bæta að verðbólga erlendis eykst sömuleiðis. Það ásamt veikara gengi gæti ýtt frekar undir innlenda verðbólgu. Það er því niðurstaða mín, herra forseti, að því miður séu blikur á lofti um frekari verðbólgu.

Ég rifja það upp að þegar samningar voru gerðir á almennum vinnumarkaði þá var verðbólga 5,6% en meginforsendur samninganna voru að verðbólgan færi lækkandi. Þessi þróun gæti því haft afdrifarík áhrif á kjarasamninga á almennum vinnumarkaði. Ef verðlagsforsendur samninga ASÍ og samtaka atvinnulífsins bresta er ákaflega líklegt að launalið samninganna verði sagt upp. Þannig er, herra forseti, viðskiptahallinn á heldur vondu róli, hið sama gildir um gengið og þar af leiðandi verðbólguna. Ég get þannig ekki tekið alveg undir með hv. þm. Jóni Kristjánssyni með að nóg sé að gert í ríkisfjármálunum. Ég er þeirrar skoðunar að enn sé hægt að ná því sem sérfræðingar kalla mjúka lendingu en úrræði til þess eru ákaflega erfið og langsótt. Í einu orði mætti kalla þau óyndisúrræði.

Afleiðingarnar af þeirri þróun sem ég hef rakið hér eru auðvitað þegar komnar fram að ýmsu leyti. Þær hafa bitnað harkalega á almenningi og fyrirtækjum. Vextirnir hafa stórhækkað og verðbólgan ásamt vöxtunum er aftur farin að þyngja greiðslubyrði landsmanna. Þetta hefur ákaflega mikil áhrif á skuldir heimilanna og greiðslustöðu þeirra. Í lok síðasta árs voru skuldir heimilanna 510 milljarðar kr. Um mitt þetta ár voru þær samkvæmt uppgjöri Seðlabankans orðnar 560 milljarðar kr., höfðu aukist um 10%. Hækki þær í sama takti það sem eftir lifir þessa árs munu skuldir heimilanna verða yfir 600 milljarðar í lok ársins 2000. Skuldir heimilanna mun því aukast miðað við þetta um 15--20%. Ef það gengur eftir er auðvitað ljóst að bilið milli skulda og ráðstöfunartekna heimilanna hefur aukist verulega. Það er því ekki að undra, herra forseti, að okkur berast fregnir af því þessa dagana að vanskilin fari vaxandi í bankakerfinu. Það er mikil hætta á því að þau aukist verulega á næstu missirum ef ekki tekst að snúa ofan af þessari válegu þróun.

Ég rifja það líka upp, herra forseti, að fjölmargar ungar fjölskyldur, sem berjast nú við að koma sér upp þaki yfir höfuðið, lentu í alvarlegum skakkaföllum fyrr í vor þegar húsbréfakreppan gekk yfir og segja má að afföll húsbréfa séu enn þá allt of há. Ég rifja aftur upp það sem Yngvi Örn Kristinsson, fyrrv. yfirmaður peningamálasviðs Seðlabankans, benti á, að röng stefna ríkisstjórnarinnar hefur neytt Seðlabankann til þess að beita of harðri peningastefnu sem birtist í háum vöxtum og háu gengi. Það er eina leiðin til þess að hamla gegn verðbólgunni.

Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson lét þess getið í umræðum hér fyrir skömmu um fjáraukalögin --- það var ekki hægt að skilja orð hans með öðrum hætti --- að það væri stefna Seðlabankans í vaxtamálum sem væri undirrót þeirra erfiðleika sem nú blasa við. Af því að hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er varaformaður fjárln. og er staddur í salnum, vil ég spyrja hv. þm.: Er hann þeirrar skoðunar að það sé ekki röng stefna hæstv. ríkisstjórnar í ríkisfjármálunum sem leitt hafi til þess vanda sem nú steðjar að okkur heldur stefna Seðlabankans? Það er ákaflega mikilvægt til að gera umræðuna skýrari, til þess að við getum í umræðunni reynt að grafast fyrir um orsakir þess vanda sem nú blasir við og jafnframt reynt að leita leiða til lausnar á honum, að afstaða hv. þm. í þessum efnum komi fram. Hvers vegna? Vegna þess að hann er talsmaður annars af stjórnarflokkunum í þessari umræðu. Hann er varaformaður nefndarinnar sem leggur fram brtt. við þetta frv. og talsmaður Sjálfstfl. í efnahagsmálum þegar hæstv. fjmrh. og forsrh. sleppir.

Herra forseti. Hver er staðan nákvæmlega um þessar mundir? Það blasir við þegar maður horfir yfir sviðið að ójafnvægið hefur lítið minnkað. Vinnumarkaðurinn er spenntari en hann hefur hefur áður verið og viðskiptahallinn er í hámarki. Það blasir líka við, samkvæmt þeim spám sem helstu sérfræðistofnanir innan lands og utan hafa sett fram, að viðskiptahallinn mun halda áfram að aukast. Það blasir meira að segja við að árið 2003 mun hann samkvæmt mati OECD verða 9,2% af landsframleiðslu. Það er hugsanlegt, herra forseti, að verstu bylturnar séu búnar og við skulum vona það. Við skulum vona að smám saman muni vindast ofan af þessu ástandi. En svo lengi sem ójafnvægið er þetta mikið og svo lengi sem viðskiptahallinn er svo mikill þá er sú hætta stöðugt fyrir hendi að þrýstingurinn á gengið aukist aftur. Hvað er þá til varnar vorum sóma, herra forseti? Það þarf ákaflega lítið til. Það þarf í reynd ekki meira en að þeir fjárfestar sem hafa tekið sér stöðu, sem svarar 60 milljörðum kr., með íslensku krónunni í framvirkum samningum, skipti um skoðun og taki sér stöðu hinum megin. Hvað gerist þá? Hvað telur hv. þm. Jón Kristjánsson að yrði þá um þróun gengis íslensku krónunnar?

Herra forseti. Til að hægt sé að bregðast við þessum vanda verður ríkisstjórnin fyrst að viðurkenna að við eigum við sameiginlegan vanda að glíma. Þá fyrst er hægt að ráðast að honum. Það hefur hins vegar aldrei gerst að ríkisstjórnin hafi viðurkennt að það væri við vandamál að glíma í efnahagskerfinu. Það er ekki fyrr en í dag að hv. þm. og formaður fjárln., Jón Kristjánsson, kemur og segir að viðskiptahallinn sé óviðunandi og beinlínis hættulegur. Þá er það okkar vandamál að reyna að glíma við viðskiptahallann. Hvernig ætlum við að fara að því?

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. hlýddi að vísu ekki á orð hv. þm. Jóns Kristjánssonar en hann hefur heyrt í endursögn minni afstöðu hv. þm. gagnvart þessu meini íslenska efnahagslífsins. Ég spyr þess vegna hæstv. fjmrh.: Er hann sammála hv. þm. Jóni Kristjánssyni um að viðskiptahallinn sé óviðunandi? Er hann sammála hv. þm. Jóni Kristjánssyni um að hann sé beinlínis hættulegur? Ef svo er, til hvaða ráða telur hann nauðsynlegt að grípa til að komast hjá frekari erfiðleikum í efnahagslífinu?

Ég tel, herra forseti, nauðsynlegt að gera allt sem við getum til að draga úr útlánaþenslunni eins og hv. þm. Jón Kristjánsson nefndi. Það er líka spurning hvort ekki þurfi með einhverjum hætti að gera meira en það. Er t.d. ekki nauðsynlegt, til að reyna að draga úr þenslunni, að velta fyrir sér hvort ekki ætti að draga úr opinberum framkvæmdum?

Ég rifja það upp, herra forseti, sem ég sagði áðan að opinberar framkvæmdir voru minnstar samdráttarárið 1995 og á fyrsta ári uppsveiflunnar 1996. Þær hafa hins vegar aldrei verið meiri en í undangenginni þenslu.

Ég rifja það líka upp, herra forseti, að á sl. sumri varpaði Samfylkingin fram þeirri hugmynd að stjórnmálaflokkar og aðilar vinnumarkaðarins tækju höndum saman um að mynda nýja þjóðarsátt gegn verðbólgunni, m.a. til þess að koma í veg fyrir að kjarasamningar á almennum markaði losnuðu. Þó margir tækju undir hugmynd Samfylkingarinnar þá hafnaði ríkisstjórnin henni og ég segi það, herra forseti, að fátt hefur undirstrikað ábyrgðarleysi hennar betur gagnvart þróun efnahagsmála en einmitt sú afstaða.

Herra forseti. Ég hef í stuttu máli farið yfir það sem mér virðist langmikilvægast varðandi þróun efnahagsmála. Það sem skiptir mestu máli núna í þessari umræðu er að það komi fram hvernig hæstv. ríkisstjórn ætlar að taka á þeim vanda sem hv. þm. Jón Kristjánsson, formaður fjárln., hefur sagt að felist í viðskiptahallanum. Hv. þm. Jón Kristjánsson hefur í reynd komið hingað og tekið undir með þeim varnaðarorðum sem Samfylkingin hefur sett fram á undangengnum missirum. Samfylkingin benti frá því fyrir síðustu kosningar á þá hættu sem fælist í vaxandi viðskiptahalla. Gegn þessu skelltu stjórnvöld skollaeyrum en nú hefur hv. formaður fjárln. tekið undir með okkur og sagt að þetta sé óviðunandi staða. Hann hefur sagt að í þessu sé fólgin hætta fyrir þróun efnahagsmála. Þess vegna verða stjórnarliðar að koma hingað og segja okkur hvernig þeir ætli að vinda ofan af viðskiptahallanum.