Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 16:53:35 (2491)

2000-11-30 16:53:35# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÁJ
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[16:53]

Árni Johnsen:

Herra forseti. Örugg fjármálastjórn ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hefur leitt til þess að víða um land hefur fólki hlaupið kapp í kinn og metnaður hefur verið við framkvæmd ýmissa verkefna. Meira hefur verið um það undanfarin missiri en löngum áður að fólk hafi uppi djarfar hugmyndir um framgang verkefna sem tengjast menningu, félagsmálum og öðrum þáttum samfélagsins. Fjallað hefur verið um slík mál og þær beiðnir sem hafa aukist verulega frá byggðum landsins við gerð fjárlaga nú og reynt að verða við þeim að verulegu leyti.

Ég ætla að víkja að nær 40 atriðum, 40 verkefnum um allt land, sem sýna hug heimamanna til uppbyggingar á sviði menningar og félagsmála, þar sem metnaður er í fyrirrúmi, þar sem sögulegur grunnur er sem bakhjarl og horft til framtíðar hvað varðar uppbyggingu byggðanna, sérstaklega ferðaþjónustu og aðra þætti.

Aldrei fyrr í fjárlagagerð Íslands hefur verið brugðist við svo mörgum erindum sem þessum í þeim fjárlögum sem nú hafa verið rædd. Skemmtilegt hefur verið að heyra til að mynda hv. þm. Össur Skarphéðinsson, formann Samfylkingarinnar, fjalla um fjárlögin en fara ekki í sín mál eins köttur í kringum heitan graut, í allri sinni umræðu og athugasemdum. Fróðlegt hefði verið að heyra hann fjalla um öll þau verkefni sem væntanlega munu kögra landið þegar kemur til framkvæmda þeirra í kjölfar afgreiðslu þessara fjárlaga. Ég ætla að stikla á stóru og nefna nokkur dæmi.

Það er til að mynda fjárveiting til Vatneyrarbúðarinnar á Patreksfirði. Þar voru byggingar sem voru byggðar af miklum athafnamanni, Ólafi Johanson, og fyrirtæki hans stóð fyrir merkri sögu, langri sögu í útgerðarsögu landsins framan af öldinni. Þar eru hús sem eru full af minjum og möguleikum til að ríma við gamla tíð og opnar dyrnar inn í framtíðina á þeim grunni. Þetta er fyrsta dæmið sem ég nefni í þeim ,,pakka`` sem ég stikla hér á þó mörg fleiri atriði mætti nefna í fjárlögunum. En ég vil sérstaklega nefna nokkur atriði. Vatneyrarhúsið á Patreksfirði er eitt af þeim verkefnum.

Allir þekkja þá hörmulegu atburði sem urðu með snjóflóðum á Vestfjörðum þegar snjóflóð féll á Seljalandsdal í apríl 1994. Þá var hafist handa við endurbyggingu skíðalyftu í Tungudal, önnur skíðalyfta var endurbyggð á Seljalandsdal. Síðan kom snjóflóð fjórum árum seinna, 1998, og þá eyðilagðist aftur skíðalyftan á Seljalandsdal. Þá var tekin endanleg ákvörðun um að byggja allt skíðasvæðið til frambúðar í Tungudal. Eitt af þeim verkefnum sem meiri hluti fjárln. leggur til er að styrkja þetta verkefni verulega með tilliti til aðstæðna og þess sem á undan er gengið, með 10 millj. kr. framlagi til uppbyggingar. Þetta er í rauninni ekki hefðbundið í styrkveitingum eða í meðferð fjárlaga frá ári til árs, en alltaf eru einhverjar undantekningar, vegna þess að rök liggja að baki. Þetta er eitt af þeim málum þar sem menn eru sammála um að leggja fólki lið sem ítrekað þarf að berjast við sama vandann, gefst ekki upp og er nú vonandi komið á rétta leið í staðsetningu þess mannvirkis sem um ræðir. Það er öflugt skíðastarf og félagsstarf á Ísafirði og nágrenni og foreldrafélag skíðabarna er sérstök deild í Skíðafélagi Ísafjarðar og hefur haft forgöngu um þessa uppbyggingu.

Eitt af þeim verkefnum sem meiri hluti fjárln. hefur lagt fram er að styrkja viðgerð á kútter Sigurfara, sem geymdur er í Byggðasafninu á Akranesi. Kútter Sigurfari var smíðaður í Englandi árið 1885, keyptur til Íslands árið 1897, á ári sem nefnt hefur verið tímamótaár í þilskipaútgerð á Íslandi. Sigurfari var aðallega gerður út frá Reykjavík og Hafnarfirði, síðan seldur til Færeyja árið 1919 og keyptur svo aftur til Íslands, til Akraness, árið 1974, með það fyrir augum að gera skipið að sýningargrip. Nú er svo komið fimmtán árum síðar að skipið er farið að láta verulega á sjá, enda má segja að það hafi ekki verið geymt við eðlilegar aðstæður vegna skorts á fjármagni. Engu að síður er hér um að ræða sögulegan grip úr útgerðar- og skipasögu landsins og það er vel að slíkt verkefni sé styrkt.

[17:00]

Hv. formaður fjárln. fjallaði um nýtt verkefni í framsöguræðu sinni, um Sögusafnið sem ætlað er að vera staðsett í Reykjavík og hefur fengið inni í einum af vatnsveitutönkunum á Öskjuhlíð. Það er eins konar vaxmyndasafn eins og hv. þm. Jón Kristjánsson nefndi það, safn sem á að túlka og vekja athygli á sögusviði og persónum Íslendingasagna. Fyrstu líkönin eða líkneskin hafa verið gerð af Ingólfi Arnarsyni og Hallveigu Fróðadóttur. Þau voru sýnd í Ráðhúsi Reykjavíkur í sumar með ákveðinni umgjörð þar. Þetta er ákaflega spennandi og aðstandendur safnsins sem eru einkaaðilar ætla að gera næst leikmyndir um Leif Eiríksson og Tyrki fóstra hans í Vínlandi, ferð Þorfinns karlsefnis vestur til Vínlands og Freydísar Eiríksdóttur, þar sem hún hræðir skrælingja, líkneski af Snorra Sturlusyni í Reykholti 1241, um siðaskiptin og aftöku Jóns Arasonar 1550, fyrstu galdrabrennuna á Íslandi 1625, Kópavogsfundinn 1662, kristnitökuna, Þorgeir Ljósvetningagoða, Guðbrand Þorláksson og Guðbrandsbiblíu, svarta-dauða, Tyrkjaránið og Guðríði Símonardóttur, Hallgrím Pétursson og Passíusálma, Jón Hreggviðsson frá Rein, Brimarhólm, Axlar-Björn, Jörund hundadagakonung, svo nokkuð sé nefnt.

Þetta eru spennandi atriði í vonandi glæsilegu og metnaðarfullu safni sem eiga að geta frætt okkar unga fólk um söguna og fortíðina á nýstárlegan hátt jafnframt því að vera aðlaðandi og eftirsóknarvert fyrir ferðamenn sem til landsins koma. Þetta er mikið verkefni. Það má reikna með að kostnaður við hverja leikmynd sé um 2 millj. En nú er verkefnið farið af stað og er í þessum þáttum sem ég málaði í upphafi.

Í Reykjanesbæ er einhver stærsta eining gamalla húsa á Íslandi í dag, Duushúsin svokölluðu sem reist voru af Hans Peter Duus árið 1871. Duus lét einnig reisa stórt og mikið pakkhús 1877. Húsið var nefnt Bryggjuhúsið. Hafist hefur verið handa við að endurbyggja þessi hús, þessi menningarverðmæti Íslendinga, því að öll slík hús, hvar sem þau eru á landinu, tel ég ástæðu til að flokka fyrst og fremst undir menningarverðmæti þjóðarinnar í heild þó þau setji svip sinn á hvern stað.

Þannig hefur verið undanfarin ár á þessum áratug sem nú er að slíta skónum að í fjárlögum hvers árs hefur verulegt fjármagn verið sett í viðhald og uppbyggingu gamalla húsa, elstu húsa á hverjum stað. Víða hefur verið byrjað á þessum verkefnum í trássi við marga íbúa. En að verkefninu loknu hefur undantekningarlaust verið einróma ánægja og gleði með þá framkvæmd og þetta hefur skapað metnað, velvilja og hlýju í samfélaginu og virðingu fyrir þeim sem gengnir eru og tengdust þessum húsum. Það hefur því þétt byggðina og aukið það sem við getum í einu orði kallað hamingju á hverjum stað. Víða eru því þessi gömlu hús nú stolt bæjanna. Það er alveg sama hvort við tölum um Suðurland, Austurland, Norðurland, Vestfirði eða Vesturland, hvarvetna er um að ræða bæjarprýði sem menn eru stoltir af. Og þegar menn eru stoltir af verkum eru þeir á réttri braut. Það er auðvitað nokkurra ára verk að byggja upp Duushúsin í Keflavík, í Reykjanesbæ, þar sem þeim er ætlað að verða menningarmiðstöð. En verkið er hafið og það er styrkt.

Ég vil vekja athygli á styrk til Skálholts sem tengist rannsóknarstofnun í helgisiðafræðum, stofnun sem hefur starfað í tvö ár, safnað gögnum frá fyrri öldum um ýmsa þætti í kirkjusiðum þjóðarinnar. Til að mynda liggja þar nú fyrir í safni sem kallast Collegium Musicum yfir 1.600 handrit að íslenskum sálmum og kvæðum með nótum. Þessi menningararfur hefur ekki verið tekinn saman á þennan hátt fyrr og allt er þetta liður í að þétta þekkingu okkar á okkar eigin sögu og bakgrunni. Skálholtsstaður er jafnframt að vinna vefsíðu fyrir Skálholt og auðvitað fer vel á því að þessi helgidómur landsins sé aðgengilegastur sem flestum varðandi upplýsingar og hina ýmsu þætti sem tengjast Skálholti, hvort sem það er kirkjan, skólinn, námskeiðahald, rannsóknarstofnunin, ferðaþjónusta eða annað, því mjög margir fara um hlað Skálholts ár hvert, hundruð þúsunda gesta.

Ef við bregðum okkur frá Skálholti og út í Eyjar þá segir í Landnámu að Herjólfur Bárðarson hafi byggt bæ sinn innan við Ægisdyr. Ægisdyr eru bergið í Blátindi, bergið sem tekur á móti suðvestanáttinni sem ber fastast af öllum brimveðrum fyrir suðurströndinni. Þar voru grafnar upp fyrir allmörgum árum rústir Herjólfsbæjar. Þar eru rústir 11 húsa sem sumir fornleifafræðingar telja byggð fyrir upphaf Íslandsbyggðar, þ.e. í upphaf áttundu aldar. Um þetta eru deildar meiningar. En allir fornleifafræðingar eru þó sammála um að þarna séu varðveittar rústir sem séu einhverjar þær heillegustu sem eru til í sögu landsins og vitað er um. Verkefni er styrkt til þess að byggja hluta af þessum húsakosti. Alveg eins og við þjóðveldisbæinn að Stöng voru valin þrjú hús og tengd saman úr hópi margra húsarústa þá mun ætlunin að velja þrjú hús úr Herjólfsbæjarrústunum, íbúðarhús, fjós og verkstæði eða smiðju eða eitthvað slíkt og byggja þau upp á þann einfalda hátt sem byggingar þess tíma voru. Þetta er þáttur í sögunni, þáttur í ferðamannaþjónustunni, þáttur í því að sýna landinu og umhverfinu, byggingunum og fólkinu í fortíð og nútíð og framtíð virðingu. Þetta er spennandi verkefni.

Einnig er styrkt verkefni samsvarandi kútter Sigurfara á Akranesi, Blátindur VE 21 í Vestmannaeyjum. Það er bátur sem byggður var 1947. Hann er ekki svo ýkja gamall en hann er einn af 76 þilfarsvélbátum sem byggðir voru í Vestmannaeyjum á öldinni sem er að líða. Þar voru byggðir 76 þilfarsbátar og 28 opnir bátar. Sumir þessir bátar sem eru byggðir á árunum frá 1907--2000 voru allt upp í 188 lestir, stærstu tréskip sem hafa verið smíðuð á Íslandi. Þeir voru ýmist smíðaðir úr eik eða furu og þannig stendur nú á að eini báturinn sem eftir er af þessum flota og hægt er að vernda og byggja upp á gamlan hátt og sem haldið hefur stíl sínum er einmitt Blátindur VE 21. Það er kynnt í verkefninu að því eigi að ljúka fyrir næsta sjómannadag og þá eigi báturinn að verða hluti af Skansinum og stafkirkjusvæðinu við Vestmannaeyjahöfn sem margir þekkja. Það hefur í rauninni verið reiknað með þeim bát þar frá því það svæði var skipulagt til þess hlutverks sem það hefur nú.

Þess má geta til gamans að Blátindur var notaður sem varðskip á Faxaflóa um 1950 og var þá búinn fallbyssu. En yfirleitt hefur hann verið notaður til þess að draga fisk úr sjó, björg í bú. Gunnar Marel Jónsson smíðaði Blátind, afi Gunnars Marels skipstjóra á Íslendingi og skipasmiðs þannig að sagan er söm við sig og margt af þessu má tengja og er skemmtilegt í okkar litla samfélagi.

Á Hvolsvelli hefur verið byggt upp sögusetur. Grunnurinn í uppbyggingu þess er í raun Njálssaga, umhverfið allt þar sem menn geta lifað söguna í hverju fótmáli, spáð í hana. Að vísu er sá hængur á þegar menn lesa Njálssögu, sem er kannski mest lesna bók Íslands, að til þess að skilja hana vel þurfa menn að átta sig á staðsetningu bæja og reiðleiða á sögutímanum. Engu að síður er Njálssaga ávallt ný fyrir lesandanum og með ólíkindum að þúsundir manna á Íslandi skuli árlega sækja námskeið í Njálssögu. Þetta setur hefur vakið mikla athygli. Það er fjölsótt. Í kringum það hefur skapast safnamenning, verslunarsaga og aðrir þættir sem segja sögu sunnlensks mannlífs og viðskiptalífs.

Þannig er hver að vinna á sínum stað víða um landið að mjög merkilegum þáttum sem nú hefur verið lögð áhersla á að styrkja myndarlega og ég fullyrði enn á ný að aldrei fyrr hefur verið gert slíkt átak varðandi landsbyggðina í þessum efnum. Þetta er verulegt landsbyggðarátak sem hér er um að ræða og mun vonandi nýtast til góðs og auka mönnum gleði.

[17:15]

Á Vopnafirði er stórt og glæsilegt hús, Kaupvangur. Það var smíðað á síðustu öld og var teiknað af sama arkitekt og teiknaði Alþingishúsið. Húsið var orðið niðurnítt og voru uppi vangaveltur og hugmyndir um að rífa það og fjarlægja en sem betur fer þá tóku menn hina stefnuna og hófu viðgerð á því. Það er langt komið og nánast búið að gera við húsið að utan og á nú að hefjast handa við viðgerðir og lagfæringar innan húss. Svo segir mér hugur að þetta hús eigi eftir að verða eitt af þeim sem allir Íslendingar verða stoltir af í framtíðinni að eiga klárt á sínum stað.

Byggðasafnið í Skógum hefur byggst upp á nokkrum áratugum. Þar hefur hinn einstaki safnvörður, Þórður Tómasson, verið frumkvöðull og hefur hann haft bakhjarla góða menn í Rangárvallasýslu og Vestur-Skaftafellssýslu og víðar sem hafa stutt hann í þessari uppbyggingu. Safnið í Skógum tekur ár hvert á móti fleiri gestum en nokkurt annað safn á Íslandi, að Þjóðminjasafni Íslands meðtöldu. Þar fer saman skemmtileg uppbygging og fjölþætt, hún er lifandi og vel upp sett og ekki má gleyma því að sjálfur safnvörðurinn, Þórður Tómasson, hefur einstök áhrif á alla sem hann hitta og er kannski eftirminnilegasti þátturinn í hverri heimsókn að Skógum. Það er líka skemmtilegt að Þórður Tómasson skuli standa í forsvari fyrir því að Samgöngusafn Íslands sé byggt upp í Skógum. Safnið gerði samning við menntmrh. um hlutdeild í hluta slíks húss, það er gert jafnframt í samráði við Þjóðminjasafn Íslands og hafist er handa við að byggja 1.500 fermetra hús, sem verður væntanlega tilbúið á vori komanda, hús sem á að taka á móti nokkur hundruð bílum, tækjum og tæknimönnum úr sögu þjóðarinnar. Reyndar var kominn tími til að einhver geggjaðasta tækjaþjóð í heimi, Íslendingar, byggði hús yfir sýnishorn af samgöngutækjum þjóðarinnar, hvort sem það eru bílar, traktorar, rútur, vegavinnutæki eða annað. Vissulega eru menn að gera ýmsa hluti, til að mynda er búvélasafn á Hvanneyri með afmörkuðu rými og umfangi, en ágætissafn. Unnið er að á vegum einstaklinga í Skagafirði og á Ystafelli í Þingeyjarsýslu og þannig eru menn víða með ýmis hugðarefni. En samgöngusafn Íslands í Skógum er komið í framkvæmd og það er eitt af þeim verkefnum sem meiri hluti fjárln. hefur lagt til að verði styrkt.

Á Húsavík hefur á undanförnum árum stóraukist ferðamannastraumur, sérstaklega vegna hvalaskoðunarferða. Tugþúsundir gesta hafa komið til Húsavíkur árlega sl. ár til þess að fara í hvalaskoðunarferðir. Þetta hefur skapað mikla vinnu og mikill straumur hefur verið í gegnum bæinn og er orðið eitt af aðalsmerkjum Húsavíkur. Forsvarsmenn þessara þátta hafa stofnað til hvalamiðstöðvar, uppbyggingar á Húsavík, þar sem húsnæði úr búi Kaupfélags Þingeyinga, gamla sláturhúsinu, hefur verið breytt undir framtíðarstarfsemi hvalamiðstöðvarinnar sem safns og þjónustustöðvar.

Þannig er þetta kögur blandað að gerð að ætt og uppruna og gefur góða spegilmynd af því hvar möguleikarnir liggja á Íslandi þar sem menn hafa vilja og þor til að spreyta sig á verkefnum inn í framtíðina.

Eitt af þessum verkefnum sem hafa vakið mikla athygli á stuttum tíma er galdrasýning á Ströndum. Þegar það mál kom upp fyrir rúmu ári brostu margir í kampinn og sögðu: ,,Er nú ástæða til að gera mikið úr galdrasýningu á Ströndum, er það einhver vikusýning í einhverju þorpi úti á landi?`` En galdrasýning á Ströndum hefur slegið í gegn með miklum fjölda gesta, með glæsilegri uppsetningu, með metnaðarfullri skipulagningu þar sem ætlað er að byggja á fjórum stöðum eins og kom reyndar fram í máli hv. formanns fjárln., Jóns Kristjánssonar. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem allir hafa fallið fyrir vegna þess að það er vel unnið og gefur miklu meiri möguleika en menn áttuðu sig á í upphafi. Ætlað er að byggja þetta safn áfram upp, ekki bara á Hólmavík, heldur einnig í Hrútafirði, Bjarnarfirði og Árneshreppi. Þetta er metnaðarfullt verkefni, sem annars vegar varðar varanlega sögusýningu sem styrkir ferðaþjónustu, atvinnulíf og byggð í Strandasýslu og hins vegar fræðasetur þar sem rannóknum á sögu sýslunnar, miðlun og útgáfu og öðru, verður sinnt jöfnum höndum. Mikil vinna hefur verið lögð í allan fræðilegan undirbúning og rannsóknum á sögu 17. aldar vegna verkefnisins og fengnir færustu menn til þess, hver á sínu sviði. Þetta er eitt af þeim verkefnum sem er nú sinnt mjög myndarlega og á ugglaust eftir að draga fram sérstöðu í mannlífi á Vestfjörðum, sögu og sögnum.

Sjávarhættir Lúðvíks Kristjánssonar eru einn af kjörgripum íslenskra bókmennta. Þetta er glæsilegt rit sem þessi heiðursmaður náði að ljúka skömmu fyrir andlát sitt en margir góðir menn komu að verki í því verkefni, þeirra á meðal Bjarni Jónsson listmálari sem er einn af reyndustu bókateiknurum og listamönnum landsins. Hann undirbjó í samráði við Lúðvík Kristjánsson gerð málverka af skipasögu Íslands. Þessi málverk eru nú tilbúin og föl og Þjóðminjasafnið vill vista þau. Verkefnið hefur verið styrkt og vonandi nást samningar um kaup á því. En þetta er glæsilegur pakki inn í sögusafn þjóðarinnar, hvort sem það verður vistað í Þjóðminjasafni eða fer í farandsýningar út um landið, þá er um að ræða þátt sem er grundvöllurinn að allri þeirri uppbyggingu sem átt hefur sér stað, grunnuppbyggingu á íslensku samfélagi, síðustu 100 árin og er kannski ástæðan fyrir því að menn geta nú í dag styrkt myndarlega slík verkefni sem hefur verið fjallað um.

Hjá Þjóðminjasafni er til húsasafn Íslands með um hálft hundrað húsa og það er til bátasafn sem er því miður fátæklegt, ekki síst vegna þess að meginhluti þess brann fyrir ekki mörgum árum, glataðist í eldsvoða í Kópavogi. Ekkert er við því að gera úr því sem komið er en sýnir að vanda þarf til alls sem lýtur að verndun gamalla minja, hvort sem það eru bátar eða annað sem er eftirtektarvert úr menningu okkar og sögu.

Eitt af því sem fjallað er um í afgreiðslu fjárlaga og flokkast ugglaust undir smáu málin en það er nú oft sagt að það smæsta sé næst guði, og vonandi hefur það ekki síður gildi en stóru málin, a.m.k. hefur það mikið gildi fyrir fólkið í landinu almennt að sinna þessum þáttum. Það sem styrkt er í þessu tilviki er uppbygging á gömlum bát sem var smíðaður í upphafi 20. aldar og hefur verið á Miðhúsum í Reykhólasveit. Þetta er gamall flutninga- og uppskipunarbátur, sem var upphaflega nefndur Leifur, síðan hét hann Brana og að síðustu Friðþjófur. Hann var síðast í notkun fyrir u.þ.b. 50 árum en um 1940 keypti félag bænda við Kerlingarfjörð bátinn og hann var notaður til flutninga frá Króksfjarðarnesi til bæja á Reykjanesi. Hann var jafnframt notaður til hey- og fjárflutninga. Í 50 ár hefur hann verið á hvolfi í landareign Miðhúsa og um hann hefur verið búið eftir því sem tök voru á. Nú er meiningin að gera bátinn upp. Talið er að það kosti tvær og hálfa milljón og það fé er veitt til verkefnisins. Það er vel.

Mjög lítið er til af þeim gömlu flutningaskipum sem voru samgönguæð landsins á síðustu öldum og þeirri öld sem nú er að renna sitt skeið. Það er einnig metnaðarfullt verkefni styrkt sem er uppbygging Síldarminjasafnsins á Siglufirði. Á gullaldarárum síldarinnar hafði Siglufjörður mjög mikla sérstöðu og hefur enn, bæði fyrir dugnað og skemmtilegan bæjarbrag, og margt hefur verið sagt og skrifað um Siglufjörð sem síldarbæ. Með leyfi forseta, þá rifja ég upp úr ljóðabálki Ása í Bæ, Í verum:

  • En léleg var hýran þótt lengi við biðum
  • lukkunnar stóru norður þar,
  • en svellandi er úti á síldarmiðum
  • er sólin hnígur í mar,
  • drekka þar saman rennandi rauðvín
  • ránardætur og himinský.
  • Í bröggunum stelpurnar buðu upp á kaffi
  • og brjóstin sín ung og hlý.
  • [17:30]

    Kannski er grunnurinn í þessum 40 verkefnum sem ég er hér að rifja upp að í þeim felst hlýja. Í þeim felst persónuleg þátttaka í starfi og leik landsmanna og fólki þykir vænt um þau. Og það er nokkurs virði að sinna slíku og okkur á að vera skylt að taka höndum saman um slíkt. Það sem næst liggur fyrir hjá Síldarminjasafninu á Siglufirði er, svo nefnt sé, hreinsun gamalla tækja í bræðsluminjahúsi og uppsetning gamallar verksmiðju, hönnun bátaskemmu og flutningur gamla síldarskipsins Týs SK 33 frá Sauðárkróki til Siglufjarðar.

    Auðvelt er þegar maður rifjar þetta upp að sjá fyrir sér hvernig menn eru að gera góða hluti um allt land, jákvæða hluti. Þeir kosta peninga. Sveitarfélögin á landsbyggðinni hafa ekki úr of miklu að spila. Þau hafa ekki sömu forréttindi og stóru sveitarfélögin, höfuðborgin og nærliggjandi sveitarfélög við önnur stór sveitarfélög. Því ætti að vera skemmtilegt fyrir alla aðra að taka höndum saman um að hjálpa til og leggja hönd á plóginn.

    Á Kirkjubæjarklaustri hefur starfað í nokkur ár Kirkjubæjarstofa. Hún er stofnun sem á að sinna rannsóknum, ferðamönnum, vísindum og náttúru, þeirri sérstæðu náttúru sem allt umhverfið einkennist af. Þar hefur verið unnið að uppgreftri á rústum nunnuklaustursins í Kirkjubæ. Þetta verkefni er forvitnilegt fyrir margra hluta sakir.

    Elsta hús Selfoss, Tryggvaskáli, er í enduruppbyggingu. Húsið var orðið þreytt og lúið og nánast ónýtt. Það er eitt af þessum litlu menningarhúsum sem eru þó mikil menningarverðmæti á svo mörgum stöðum á landinu og það á ugglaust eftir að setja mark sitt á mannlífið á ný á Selfossi og ekki síst fyrir þann gífurlega fjölda ferðamanna sem þar fer um.

    Á Íslandi eru rekin tvö sædýrasöfn. Náttúrugripasafnið í Vestmannaeyjum hefur starfað síðan 1964 eða 1965 og hefur lengst af verið eina safn landsins með lifandi fiska. En um sjö ára bil hefur verið rekið sædýrasafn í Höfnum á Suðurnesjum. Það hefur verið byggt skemmtilega upp. Það hefur þróast í frekari uppbyggingu og sækja það nú yfir 20.000 gestir árlega. Þetta er verkefni sem er styrkt ásamt þessum fjölda atriða sem ég hef nefnt frá meiri hluta fjárln.

    Safnasafnið á Svalbarðsströnd er í rauninni eina alþýðulistasafn Íslands. Það er rekið af einkaaðilum af miklu frumkvæði og áræði þar sem allt er lagt undir. Safnið hýsir nú á þriðja þúsund muna, handverksmuna og listmuna margs konar og árlega berast því um 200 munir fólks sem á listmuni og handverk sem það vill koma til varðveislu því það er handverk fólksins í landinu og fólkið treystir Safnasafninu fyrir þessum munum. Það má kannski segja að það hefði átt að vera hlutverk hins opinbera að tryggja stöðu slíks safns. En það er gott að einstaklingar hafa riðið á vaðið. Þeir gera það mjög glæsilega, en með litlum tilkostnaði, þó að ástæða sé til að styrkja einstaklingsframtakið í þessu merkilega verkefni. Segja má að Safnasafið sé í rauninni eina listasafnið utan Reykjavíkur sem sýnir árlega úrval eigin verka. Það er skemmtilegt að slíkt skuli staðsett í sveit.

    Á Akranesi hefur verið komið upp safni, Steinaríki Íslands, sem er spegill af bergtegundum landsins, því fjölþætta steinaríki og fallega sem landið er byggt úr. Þetta er að hluta einkasafn sem mun renna þó inn í söfn Akranessbæjar á næstu sjö árum. En m.a. fyrir styrk frá Alþingi með tillögu fjárln. hefur þetta safn byggst upp og er nú til staðar. Alþingi kemur því víða við á þennan hátt til þess að standa við bakið á þeim sem eru að gera spennandi hluti, en þeir eru ótrúlega fjölþættir. Það er ótrúlega margslungið sem menn eru að gera hver á sínum stað.

    Í Stykkishólmi er til að mynda reiknað með að taka á móti þremur bátum sem voru smíðaðir seint á 19. öld, í aldarbyrjun 20. aldar og undir miðja öldina, Björg, Agli og Súlu, bátum úr Breiðafjarðareyjum sem gerðir eru upp af Aðalsteini Aðalsteinssyni og eru framlag hans til bátasafns við Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla. Þarna leggur einn maður á sig ómælda margra ára vinnu við að gera upp gamla báta. Hugsjón hans er að koma þeim í hús þannig að þeir varðveitist og verði til sýnis gestum og gangandi í því mikla ferðamannaríki sem Vesturland er að verða í æ ríkari mæli. Þessi ágæti maður vinnur einnig að viðgerð á gömlum, litlum seglbát sem heitir Svanur. Þetta er ein hlið af þessum þáttum sem um er rætt.

    Á Hornafirði er hafinn undirbúningur að byggingu jöklasafns sem á að spanna mynd jöklanna og möguleikana í kringum þá, baráttuna, ferðamannaþáttinn, vatnaríkið og aðra þætti sem hafa opnað dyrnar að okkar eigin náttúru í ríkari mæli með upplýsingum og uppsetningu í sérstöku safnhúsi.

    Á Reyðarfirði, í Fjarðabyggð, er Íslenska stríðsárasafnið byggt upp í húsum frá stríðsárunum. Þar hefur verið safnað saman forvitnilegum og spennandi munum frá þessu tímabili þjóðarinnar allt frá því Ísland var hernumið árið 1940 af Bretum. Þarna hefur verið sett upp skemmtilegt safn og forvitnilegt sem nýtur nú styrks við frekari uppbyggingu í tillögum meiri hluta fjárln.

    Jósafat Hinriksson, athafnamaður sem lengi rak fyrirtæki í Reykjavík, látinn fyrir ekki löngu, hafði það áhugamál að safna margs konar sjóminjum og smiðjumunum í verkstæðishúsi sínu í Súðarvogi. Jósafat stýrði og stóru fyrirtæki sem framleiðir toghlera sem eru seldir víða um heim og annan búnað til skipa vegna fiskveiða. Nú stendur til að koma þessu safni upp í Neskaupstað og þetta er eitt af þessum spennandi verkefnum sem styrkt eru í þeim fjárlagatillögum sem liggja fyrir hv. þingi.

    Ég nefndi jöklasafnið á Hornafirði. Eitt verkefnið er til rannsókna á landslagi undir suðaustanverðum Vatnajökli. Með tilliti til jarðhræringa, eldsumbrota í Vatnajökli, vatnamyndunar í Grímsvötnum o.fl., er þetta mjög æskilegt verkefni til þess að fá betri þekkingu á landslaginu undir jöklinum þannig að menn geti til að mynda verið á verði ef upp koma aðstæður sem raska landslaginu vegna eldsumbrota.

    Eitt svona verkefni sem einmitt fjallar um náttúru landsins er Geysisstofa í Haukadal sem hefur verið byggð upp feiknaglæsilega af þeim hjónum sem reka þjónustumiðstöðina við Geysi. Það er líklega verkefni upp á nærri 100 milljónir sem er styrkt lítillega af Alþingi miðað við þær tillögur sem hér liggja fyrir. Þarna er um að ræða uppsetningu safns sem sýnir hverasvæðið og hveramöguleikana, jöklasýn og vatnsföll eins nútímalega og unnt er við uppsetningu safna í heiminum. Það hefur vakið verðskuldaða athygli og á eftir að gera garðinn frægan og frægari.

    Á fjárlögunum eru 20 millj. til þess að ljúka uppbyggingu Eiríksstaða í Haukadal í Dalasýslu. Það verður nú að segjast eins og er að það er eitt af því fáa sem sýnilegt er eftir hina miklu landafunda- og kristnitökuhátíð ársins 2000. Það eru ekki mörg verkefni sem standa eftir sýnileg úr þeim búskap.

    Í Hafnarfirði hefur framtakssamur athafnamaður byggt upp vestnorrænt menningarhús við hliðina á Fjörukránni sem er orðin landsfræg. Þar hefur hann ræktað garðinn gagnvart Færeyingum og Grænlendingum, með aðstöðu fyrir sýningar, menningarstarfsemi og annað. Það er skemmtilegt að slík aðstaða skuli vera til á Íslandi gagnvart okkar næstu grönnum sem við eigum auðvitað að sýna meiri tillitssemi en flestum öðrum.

    Í Vík í Mýrdal hefur verið byggð upp á undanförnum árum, endurbyggð, Brydebúð. Hún var upphaflega byggð í Vestmannaeyjum árið 1831, en kaupmaðurinn sem átti hana um aldamótin 1900 flutti hana til Víkur í Mýrdal 1895. Brydebúð er því 169 ára gömul og hefur verið gerð upp með miklum glæsibrag í Vík í Mýrdal. En úrslitum hefur ráðið við þá enduruppbyggingu að Alþingi hefur styrkt verkefnið í nokkur ár.

    Þetta eru þættir sem skipta kannski ekki sköpum á landsbyggðinni að mörgu leyti. En þetta eru þættir sem skipta miklu máli í menningu og félagsstarfi staðanna og veitir fólki bjartsýni og áræði. Það fer ekkert á milli mála.

    [17:45]

    Það sama er hægt að segja um Skaftfell, menningarmiðstöðina á Seyðisfirði. Ótrúlega fjölþætt menningarstarfsemi á sér stað í Skaftfelli og Skaftfell hefur gerbreytt bæjarbrag á Seyðisfirði með fjölþættri starfsemi, vakið hugmyndir, vakið vilja til að takast á við uppbyggingu annarra húsa, nýta þau til ferðaþjónustu og margra þátta sem eru mjög jákvæðir. Það sem margir sögðu áður að væri drasl vilja menn lagfæra og koma í stand og njóta hinnar gömlu menningar og hins gamla stíls.

    Sænautasel er sögusvið Sjálfstæðs fólks Halldórs Laxness. Samkvæmt dagbókum hefur Sænautasel tvímælalaust verið hluti af því söguumhverfi sem Halldór Laxness byggði á austur á Jökuldalsheiði. Það er skemmtilegt að búið er að lagfæra þetta sérstæða hús, þetta einfalda og gamla hús, lagfæra það að utan og til stendur að ljúka því innan dyra og ugglaust á eftir að markaðssetja það sem eins konar leikmynd úr Sjálfstæðu fólki. Þar liggja a.m.k. miklir möguleikar í því.

    Einnig má nefna stuttlega Syðstabæjarhúsið í Hrísey sem Hákarla-Jörundur lét reisa á sínum tíma, hús sem hefur mikið sögulegt gildi og er eitt af þessu húsasafni sem hefur verið ansi verðmætt víða um land.

    Herra forseti. Ég vil að síðustu minnast á eitt verkefni sem er mjög sérstakt. Það er bátafloti Gríms Karlssonar. Grímur Karlsson skipstjóri hefur smíðað á annað hundrað skipslíkön af þeim flota sem á síðustu 100 árum er gott sýnishorn af skipunum sem færðu aflann á land, ekki varninginn heim heldur aflann á land. Áhugafélag um safn Gríms sem telur yfir 60 báta hefur skipulagt uppbyggingu á safni með þessum bátum í Reykjanesbæ væntanlega. Þarna er gott dæmi um þjóðarverðmæti. Skipslíkönin eru öll fremur stór, 70--100 sm á lengd, spanna allar gerðir báta, síldarbáta, opinna þilfarsbáta, skútur, selveiðara, hvalfangara o.s.frv. Það er með ólíkindum hvað Grímur hefur afkastað í þessum efnum því að vitað er að feikileg vinna liggur í gerð smíði slíkra módela. Þetta er eitt af verkefnunum sem munu komast í höfn og verða sameign landsmanna í nýtingu á tímanum til að njóta góðra hluta.