Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 20:41:17 (2507)

2000-11-30 20:41:17# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[20:41]

Einar Oddur Kristjánsson (andsvar):

Herra forseti. Ég veitti því athygli í ræðu síðasta ræðumanns að hún fullyrti að ég hefði haldið því fram að hvergi í heiminum væri söluhagnaður skattlagður. Þetta er náttúrlega óskapleg fjarstæða og hv. þm. getur hvergi fundið orðum sínum stað um það, aldrei nokkurn tíma hef ég látið slíkt um munn fara, enda er söluhagnaður skattlagður víðast hvar.

Það sem ég sagði og ég skal árétta það var að í viðleitni allra ríkja heimsins, t.d. síðustu tíu árin, til þess að sporna við fjármagnsflutningi milli landa væri niðurstaðan öll á einn veg. Það eina sem skilaði þjóðfélögunum árangri væri að sjá svo um að umhverfi fyrirtækjanna væri skattalega svo hagstætt sem mest gæti orðið, þannig fengi þjóðfélagið mestu tekjurnar og þannig stæðu þau best að sínum hlutum. Þetta hef ég sagt og þetta ætla ég að halda áfram að fullyrða.

Hins vegar liggur fyrir, herra forseti, að Samfylkingin hefur lagt fram tillögu um að skattleggja söluhagnað yfir 40% sem yrði bara til þess að eyðileggja skattstofninn og sjá til þess að tekjurnar yrðu engar, að eyðileggja sjálfan skattstofninn. Þetta er einhver mesta dellutillaga um skattamál sem sést hefur hér í þó nokkrar vikur a.m.k. Ég vil því árétta að þessi viðleitni Samfylkingarinnar til að þykjast vera með tekjuaukningu fyrir ríkið er hrein fjarstæða frá upphafi til enda og mundi ekkert gera annað en eyðileggja skattstofninn. Því það var enginn skattstofn, það voru engar tekjur ríkisins af söluhagnaði áður en við breyttum þessum reglum 1996. Það var núll.