Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 20:58:56 (2512)

2000-11-30 20:58:56# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., EMS
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[20:58]

Einar Már Sigurðarson:

Herra forseti. Við 2. umr. um fjárlagafrv. fyrir árið 2001 mun ég í ræðu minni aðallega mæla fyrir tillögu okkar í 1. minni hluta fjárln. en hann mynda auk þess sem hér stendur, Gísli S. Einarsson og Össur Skarphéðinsson.

Við leggjum fram á þskj. 397 tillögur við bæði tekjuhlið og gjaldahlið frv. Ég mun hins vegar ekki í þessari umferð fara sérstaklega yfir tekjutillögur okkar þar sem þær eru fyrst og fremst til umræðu við 3. umr. fjárlagafrv. Ég mun hins vegar rekja hinar tillögurnar og byrja á lið 02-269 Háskólar og vísindastofnanir, viðhald og stofnkostnaður. Þar gerir tillaga okkar ráð fyrir 200 millj. kr. viðbót við það sem fyrir kemur í frv. og sú upphæð á að skiptast miðað við okkar tillögu á milli tveggja bygginga, þ.e. annars vegar 100 millj. til rannsóknarhúss Háskólans á Akureyri og hins vegar 100 millj. til Náttúrufræðihúss Háskóla Íslands.

[21:00]

Það er ástæða til þess að fara örlítið yfir þessar framkvæmdir, annars vegar mikilvægi rannsóknarhúss Háskólans á Akureyri, en Háskólinn á Akureyri er ein af hinum mikilvægu menntastofnunum á landsbyggðinni og hefur breytt mjög miklu um menntunarmöguleika og ekki síður því að skila þeim sem ljúka námi til starfa á landsbyggðinni.

Húsnæðismál Háskóla Íslands hafa hins vegar fyrst og fremst verið fjármögnuð af happdrættisfé Happdrættis Háskóla Íslands sem í raun hefur ekki eingöngu verið notað til þess að byggja ný hús heldur einnig til þess að halda þeim við. Það er ljóst og svo hefur verið um nokkurt skeið að þetta fjármagn dugar engan veginn til þess að skólinn geti í raun staðið við skuldbindingar sínar gagnvart þjóðinni þannig að hér er af okkar hálfu gerð tilraun til þess að fara út af þeim þrönga vegi sem snýst um að nota eingöngu happdrættisfé til þess að fjármagna byggingar Háskóla Íslands. Því leggjum við til 100 millj. kr. framlag til þessarar byggingar þannig að hún geti komist í gagnið miðað við tveggja til þriggja ára áætlanir sem fyrir liggja.

Við gerum síðan tillögu um breytingu á liðnum 02-299 Háskóla- og rannsóknastarfsemi, 1.21 Fjarkennsla á háskólastigi. Þar er gert ráð fyrir 100 millj. kr. aukningu. Hér er um lið að ræða sem fallið hefur brott af fjárlögum af nær óskiljanlegum ástæðum vegna þess að fjarkennsla á háskólastigi er auðvitað mjög mikilvæg, sérstaklega nú á tímum þegar það þarf að nýta tækni til þess að skapa fleirum möguleika á að stunda háskólanám. Háskólarnir flestir og nær allir hafa farið inn á þessa braut í vaxandi mæli og þess vegna er auðvitað mjög brýnt að þingið sendi þau skilaboð frá sér að æskilegt sé að auka þetta enn frekar og það er auðvitað megintilgangur tillögu okkar að þau skilaboð fari til háskólanna að þeir eigi að auka þessa starfsemi og bæta og þróa áfram.

Ljóst er að þessi tækni skapar mun fleirum tækifæri til þess að stunda háskólanám í sinni heimabyggð og það skiptir að sjálfsögðu miklu máli fyrir landsbyggðina að það fólk sem hefur hug á að stunda háskólanám geti dvalist sem lengst í sínu byggðarlagi og nýtist því byggðarlagi síðan í framtíðinni. Eitt af því sem hefur komið í ljós þegar fólk hefur stundað fjarnám á þennan hátt er að það hefur yfirleitt skilað sér miklum mun betur til starfa að námi loknu á landsbyggðinni eins og með nemendur sem hafa stundað nám við Háskólann á Akureyri.

Síðan gerum við tillögu við liðinn 02-319. Þrjár tillögur eru við þann lið sem heitir Framhaldsskólar, almennt. Í fyrsta lagi er við lið 1.24 tillaga um lagfæringu á reiknilíkani framhaldsskóla og aukna fjarkennslu. Þessi tillaga okkar hljóðar upp á 200 millj. og eins og segir í textanum eru þetta annars vegar vegna lagfæringar á reiknilíkani framhaldsskóla og hins vegar vegna aukinnar fjarkennslu. Segja má að sömu rök og ég hafði um mikilvægi fjarkennslu á háskólastigi eigi einnig við á framhaldsskólastigi vegna þess að ...

(Forseti (ÁSJ): Forseti vill biðja hv. þingmenn og hæstv. ráðherra að sýna hv. ræðumanni þá sjálfsögðu virðingu að hafa hljóð í salnum.)

Þakka þér fyrir, herra forseti. (Landbrh.: Hvar er hann staddur í ræðunni?) Ég er rétt að hefja ræðu mína, hæstv. ráðherra, en mun að sjálfsögðu reyna að hraða mér eftir kostum þannig að ráðherrann geti sem fyrst farið að sinna sínum mikilvægu verkum. Ég treysti því að sjálfsögðu að hæstv. ráðherra hlusti til enda þessarar ræðu þó ég geri nú ekki kröfu til þess að hann muni síðan hlýða á fleiri ræður hér í kvöld.

Ég var staddur þar í ræðu minni að ég var að fjalla um mikilvægi fjarkennslu á framhaldsskólastigi og hversu mikilvægt væri því að auka fjármagn til þess liðar. Það er hins vegar ekki síður mikilvægt að það reiknilíkan sem notað hefur verið nú til nokkurra ára í framhaldsskólum landsins verði endurskoðað og ítrekað hefur verið minnst á það í heimsóknum til fjárln. að mikilvægt væri að endurskoða þetta líkan sem hefur verið nær óbreytt frá árinu 1993, með þó einni mjög veigamikilli breytingu sem var niðurskurður sem framkvæmdur var árið 1996.

Hins vegar er ljóst að verkefni framhaldsskóla hafa breyst gífurlega á þessum tíma, ekki síst á sviði t.d. stjórnunar, skrifstofuhalds, upplýsingatækni og stoðþjónustu margs konar. En til einskis af þessu tekur reiknilíkanið tillit þegar fjármunum er deilt út til framhaldsskólanna. Það er ekki síður mikilvægt að endurskoða þetta reiknilíkan vegna þess að við í fjárln. höfum á margan hátt nýtt okkur það, til þess að ýta við á öðrum sviðum, að fjárveitingar til stofnana væru gegnsæjar. Þarna er því um mjög merkt starf að ræða, þ.e. að reyna að deila fjármunum til stofnana með þessari aðferð.

Hins vegar er óþolandi að jafngóð aðferð og þessi sé á margan hátt eyðilögð með því að sinna ekki eðlilegum breytingum á líkaninu. Þess má geta í þessu samhengi að þegar við vorum að vinna að fjárlögum fyrir árið 2000 þá komu þær upplýsingar til fjárln. að verið væri að vinna að endurskoðun reiknilíkansins og þá fyrst og fremst á þeim tíma með hagsmuni minni framhaldsskóla í huga. Nú fáum við aftur, herra forseti, þær upplýsingar frá menntmrn. að enn sé unnið að endurskoðun líkansins og nú sé kominn af stað annar starfshópur og það er svo sérkennilegt með ferli þessa máls að hinn fyrri starfshópur hefur ekki enn lokið störfum. Þó hefur nýr starfshópur hafið störf og enn á ný virðist margt benda til þess að hann verði ekki búinn að skila áliti áður en fjárlög verða samþykkt. Því eru of miklar líkur á því að ekki náist að gera nauðsynlegustu breytingar á reiknilíkaninu nema brtt. 1. minni hluta fjárln. fái brautargengi hér á þinginu.

Við gerum sem sagt tillögu um að 200 millj. skiptist eftir því í raun og veru hvað komi út úr þessari endurskoðun á reiknilíkaninu, á milli þessara liða, þ.e. reiknilíkansins og fjarkennslunnar.

Herra forseti. Ég vildi nefna örfá atriði til viðbótar sem hafa valdið skekkju í reiknilíkaninu. Í fyrsta lagi er ekki er tekið tillit til aldurssamsetningar kennara við skólana og þar af leiðandi ekki tekið tillit til aldursafsláttar þeirra kennara sem orðnir eru sextugir og eldri. Þetta skiptir verulegu máli og gróft áætlað hafa fulltrúar skólameistara í þessum starfshópi sem ég nefndi áðan gert ráð fyrir að þarna væri um 100 millj. að ræða.

Í öðru lagi er ekki tekið tillit til aukins kostnaðarhlutfalls kennslutengdra starfa sem eru margs konar. Það hefur aukist a.m.k. um 5--6% á þessu árabili frá því að forsendur reiknilíkansins voru samþykktar 1993 og áætlað er að þarna geti einnig verið um u.þ.b. 100 millj. að ræða.

Þá er talin mikil þörf á því að auka fjármagn til eignakaupa af þeirri einföldu ástæðu að víða hefur verið sparað helst á þeim lið þessi ár til þess að skólarnir gætu náð endum saman. Þarna ræða menn um að a.m.k. tæplega 50 millj. vanti.

Þá er það liður sem gengur undir nafninu Launakostnaður annarra starfsmanna. Hann er líka algjörlega úr lagi genginn miðað við forsendurnar og þarna er einnig rætt um að u.þ.b. 100 millj. kr. vanti.

Til er hópur nemenda sem ekki var tekið tillit til í forsendum reiknilíkansins, þ.e. nemendur sem eiga við leshömlun að stríða, og þarna er talið að jafnvel sé um tæplega 30 millj. að ræða.

Eingöngu í þessum fimm liðum sem ég hef nefnt er því hægt að færa rök fyrir því að tæplega 400 millj. kr. vanti. Þetta verður auðvitað endanlega að bíða niðurstöðu þeirrar endurskoðunar sem hér á sér stað. En við gerum sem sagt tillögu um að þarna verði stigið mikilvægt skref til þess að bæta það sem helst stendur út af í reiknilíkaninu.

Varðandi liðinn 02-319 Framhaldsskólar, almennt þá er önnur tillagan við lið 1.29 Nýbúafræðsla. Þar gerum við tillögu um 100 millj. til viðbótar við það sem ekkert er fyrir. Hér er um mjög mikilvægan þátt að ræða vegna þess að margoft hefur verið sýnt fram á að meðal nýbúa er því miður mjög hátt hlutfall brottfalls í framhaldsskólum. Það er að hluta til a.m.k. vegna þess að þjónusta við þá er ekki nægjanleg í skólunum. Auðvitað má að hluta til rekja það aftar í skólakerfið. Hins vegar er þarna um mjög brýnt mál að ræða sem er hluti af því að við viljum sem best gera að sjálfsögðu við þá nýbúa sem hingað eru komnir. Og hér liggur fyrir sú einfalda staðreynd, eins og ég sagði áðan, að brottfall þessara nemenda er gífurlegt í framhaldsskólum.

Við þriðja liðinn sem er við tölulið 1.31 Upplýsingatækni við framhaldsskólana, gerum við tillögu um 200 millj. Þessi liður er nýr og er ekki til staðar í frv. Út af fyrir sig ætti ekki að þurfa að hafa mörg orð um nauðsyn þess að þarna sé vel að verki staðið. Upplýsingatæknin ryður sér stöðugt meira til rúms víðast hvar og í framhaldsskólum landsins eru þeir sem eiga eftir að starfa hvað mest á þessu sviði. Þess vegna er mjög nauðsynlegt að framhaldsskólarnir séu vel í stakk búnir til þess að sinna þessu og undirbúa þannig bæði kennara og nemendur undir framtíðina.

Síðan er komið að lið 02-451 Símenntun og fjarvinnsluverkefni, liður 1.11 Símenntun og fjarvinnsluverkefni sem í fjárlagafrv. er upp á 63,3 millj. kr. Við gerum ráð fyrir að tvöfalda þá upphæð þannig að í þennan lið fari samtals 126,6 millj. Það er athyglisvert þegar horft er til nafnsins, Símenntun og fjarvinnsluverkefni, að gerð er tillaga um það í fjárlagafrv. að lækka þennan lið frá yfirstandandi ári. Það er algjörlega þvert á það sem æskilegt verður að teljast vegna þess að hér er verið að byggja upp símenntunarmiðstöðvar mjög víða um land sem gegna mjög fjölbreyttu hlutverki og frá þeim hafa talsmenn komið á fund fjárln. og einmitt bent á að skortur er á fjármagni til þess í raun að geta sinnt þeirri starfsemi sem nú þegar er til staðar, hvað þá heldur að þróa hana áfram eins og mikilvægt er.

Þá er komið að liðnum 02-982 Listir, framlög. Þar gerir 1. minni hluti fjárln. tillögu um þrjár breytingar. Það er í fyrsta lagi við liðinn 1.22 Starfsemi áhugaleikfélaga. Þar gerum við ráð fyrir að auka fjármagnið um 20 millj. kr. Hér er um mjög mikilvæga menningarstarfsemi að ræða að stórum hluta til á landsbyggðinni og það er ábyggilegt að það er mjög mikilvægt gagnvart allri byggðaþróun að hlúð sé eins og kostur er að allri menningarstarfsemi sem þar fer fram og þessi tillaga okkar er að sjálfsögðu viðleitni í þá átt.

Annar liðurinn undir liðnum Listir og framlög er síðan 1.24 Starfsemi atvinnuleikhópa. Þar gerum við einnig tillögu um að fjármagn verði aukið um 20 millj. kr. Það hefur orðið gífurleg aukning í starfsemi atvinnuleikhópa, fyrst og fremst að vísu á höfuðborgarsvæðinu. Það má ljóst vera að þeir eru auðvitað í samkeppni við ríkisstyrkta starfsemi sem við að sjálfsögðu stöndum heils hugar á bak við. En við teljum að hér sé um slíka grósku að ræða að mikilvægt sé að reyna að bæta þar um og teljum því nauðsynlegt að þarna komi 20 millj. til viðbótar.

Þriðji liðurinn undir þessum lið er síðan á liðnum 1.83 Menningarhátíð landsbyggðarinnar. Hér er um nýjan lið að ræða sem er í fjárlagafrv. upp á 5 millj. Við gerum tillögu um það að við hann sé bætt 10 millj. kr. og það er að sjálfsögðu til þess að vekja enn frekar athygli á því hversu góð hugmynd hér er á ferðinni. Við viljum þess vegna reyna að efla þetta eins og kostur er. En þar sem þetta er náttúrlega fyrsta árið þarf að gera ýmsar tilraunir og það er eðlilegt að veita hið minnsta 15 millj. kr. til þess arna eins og við gerum tillögu um.

Töluliðir 7--9 eru í raun allir af sama meiði, þ.e. tillögur um auknar sértekjur þriggja stofnana, þ.e. Hafrannsóknastofnunar, Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins og Fiskistofu og vísast til skýringa við 22. lið þar sem gerð er tillaga um að innheimta ákveðið gjald. En ég mun skýra nánar þegar ég kem að þeim lið.

Í 10. lið okkar er komið að 07-700 Málefni fatlaðra og það er töluliðurinn 1.82 Fjarkennsla fatlaðra, tækjabúnaður og þróunarstarf. Hér gerum við tillögu um 50 millj. kr. Það þarf út af fyrir sig ekki að bæta miklu við þar sem ég hef áður fjallað um fjarkennslu en það er ljóst að fatlaðir þurfa mjög á því að halda að geta einmitt stundað nám sem næst heimili sínu. Þess vegna er mjög brýnt að unnið sé sérstaklega að eflingu fjarkennslu fyrir fatlaða. Þarna þarf að að sjálfsögðu að vinna margvíslegt þróunarstarf og bæta tækjakost jafnt hjá þeim sem koma til með að kenna og þarf nauðsynlega að fara yfir það líka hvort ekki sé eðlilegt að fatlaðir fái einnig aðgang að tækjum. Þetta er sem sagt hlutur sem mikilvægt er að fara í og reyna að finna hið rétta form á.

[21:15]

Í 11. tölulið er fjallað um 07-795 Framkvæmdasjóður fatlaðra, 6.01 Framkvæmdasjóður fatlaðra. Þar er í raun og veru um tvær tillögur að ræða, annars vegar upp á 372 millj. og hins vegar um 25 millj. eða samtals 397 millj. kr. Tillagan um 372 millj. er um að ekki verði um að ræða skerðingu á mörkuðum tekjustofni, þ.e. erfðafjárskattinum, heldur fái Framkvæmdasjóður fatlaðra alla þá upphæð sem innheimtist í skattinum.

Hins vegar eru 25 millj. kr. hugsaðar sem stofnkostnaður vegna hvíldarheimilis fyrir geðveik börn en það er talið af fagfólki afar brýnt að slíku heimili verði komið á legg en því miður er ekkert slíkt heimili í landinu nú og því er gerð tillaga um 25 millj. kr. vegna stofnkostnaðar á slíku heimili.

Næsti liður sem tillaga okkar er um er 07-984 Atvinnuleysistryggingasjóður, 1.45 Starfsmenntasjóður. Þar gerum við tillögu um að framlag verði aukið um 40 millj. kr. og verði samtals 100 millj. kr. Því miður hefur dregið mjög af þróun mála í gegnum Starfsmenntasjóð og þess vegna lítum við svo á að hér sé mikilvægt skref vegna þess að starfsmenntun, símenntun, endurmenntun, sama hvað við nefnum það, er eitt af hinum brýnu málum nútímasamfélags vegna þess að stöðugt þarf fólk að bæði halda sér við í þekkingu og ekki síður að bæta við þekkingu til að geta skipt jafnvel um starfsvettvang.

Þá er komið að tillögu við liðinn 07-999 Félagsmál, ýmis starfsemi, og töluliðinn 1.32 Hvíldarheimili fyrir geðveik börn. Ég minntist áðan á tillögu okkar um stofnkostnað og hér er gerð tillaga um 25 millj. kr. til rekstrar heimilisins. Við gerum sem sagt ráð fyrir því að það taki til starfa á næsta ári og ég þarf ekki að endurtaka það sem ég sagði áðan um mikilvægi þess að slíkt verði gert.

Þá er komið að liðnum 08-204 Lífeyristryggingar, en þar eru tvær tillögur. Það er annars vegar við tölulið 1.26 Afkomutrygging lífeyrisþega, 1. áfangi, 2 milljarðar kr. Þessi tillaga er í anda þeirrar þál. sem liggur fyrir þinginu og flutt er af þingmönnum Samfylkingarinnar með hv. þm. Jóhönnu Sigurðardóttur í fararbroddi. Það er hins vegar ekki ætlunin að þetta nægi til þess að tryggja þá afkomu fyllilega heldur er þetta, eins og segir í textanum, aðeins 1. áfangi.

Síðan er seinni tillagan við þennan lið, 1.27 Afnám tekjutengingar tekjutryggingar elli- og örorkulífeyrisþega við tekjur maka. Það er tillaga um 300 millj. og gert ráð fyrir að sú upphæð dugi til að afnema tekjutengingu tekjutryggingar elli- og örorkulífeyrisþega.

Frumvarp liggur fyrir þinginu sem hefur margoft verið flutt af þingmönnum Samfylkingarinnar með hv. þm. Ástu Ragnheiði Jóhannesdóttur í broddi fylkingar og vísast til þess frv. um nánari skýringar.

Síðan er komið að liðnum 08-373 Landspítali -- háskólasjúkrahús. Þar er gerð tillaga um 50 millj. kr. og ætlunin er að setja á geðsvið Landspítala -- háskólasjúkrahúss vegna framhaldsmeðferðar ungs fólks með geðsjúkdóma. En því miður er algjör skortur á slíkri þjónustu í okkar kerfi núna og hefur m.a. þau áhrif að á barna- og unglingageðdeild er fólk lengur en fagmenn telja kannski nauðsynlegt og telja að ættu frekar að fara í framhaldsmeðferð en það þýddi að hægt væri að taka færri inn á barna- og unglingageðdeildina. Má því segja að skorturinn á slíkri þjónustu skapi ákveðinn tappa í kerfinu sem afar brýnt er að reyna að losa þannig að þessi þjónusta megi eflast eins og þörf er á.

Þá er komið að liðnum 08-399 Heilbrigðismál, ýmis starfsemi og þar er töluliðurinn 1.52 Fíkniefnavarnir og þar er tillaga um 100 millj. kr. Vissulega væri hægt að fjalla verulega mikið um fíkniefnavarnir en það eru auðvitað ýmsar hliðar á því máli og hér gerum við tillögu um að settar verði 100 millj. undir þennan lið vegna þess að flestum er ljóst að hér er ekki síst um að ræða heilbrigðisvandamál.

Ég vil aðeins, herra forseti, fá að vitna stuttlega í ágæta grein sem rituð var í blaðið (Gripið fram í: Hvar er ráðherrann?) Dag fyrir nokkru síðan. Vegna frammíkalls hv. þm. er rétt að geta þess að fyrir stuttu síðan var hér a.m.k. einn hæstv. ráðherra og ekki var annað að sjá á þeim hæstv. ráðherra en hann mundi a.m.k. hlýða á þessa ræðu og ég trúi því að hæstv. ráðherra sé í hliðarsal og hlusti með athygli. (Gripið fram í: Og veitir nú ekki af lexíu.) Hárrétt er það hjá hv. þm. að mörgum ráðherrum veitti ekki af alls konar lexíum á ýmsum sviðum.

En ég var að ræða um fíkniefnavarnir ...

(Forseti (ÍGP): Ég get fullvissað hv. ræðumann um að hæstv. sitjandi félmrh. er í húsinu og ég veit til þess að hann hlýðir á ræðu þingmannsins í hliðarsal.)

Þakka þér fyrir, herra forseti, ég taldi þetta fullvíst. En þar sem hv. þm. sem spurði er nýkominn í salinn þá þekkti hann ekki forsögu málsins en við sem vorum hér þegar hæstv. ráðherra gekk hér um sal sáum og vissum að hann mundi að sjálfsögðu hlýða á ræðu þessa a.m.k. til enda. (Landbrh.: Ég er hérna með heyrnartæki.) Þótti mér líklegt mjög. Hér gengur hæstv. ráðherra í salinn og fær sér væntanlega sæti í sínum virðulega stól og hlýðir áfram.

Þessi litla tilvitnun sem ég ætlaði að taka úr grein sem rituð var fyrir nokkrum dögum í dagblaðið Dag segir í raun og veru afar mikið um þennan erfiða málaflokk, en þar segir greinarhöfundur að meginvandinn í fíkniefnamálunum sé sá að fólki líði illa. Ég vil taka undir með greinarhöfundi, ég held að það sé meginvandamálið. Þess vegna höfum við ákveðið að setja þessa tillögu undir heilbrrn. vegna þess að þetta er að stórum hluta til heilbrigðismál og við viljum að þessir fjármunir verði nýttir m.a. til þess að sem fæstum líði illa í samfélaginu.

Þá er ég kominn að töluliðnum 09-250 Innheimtukostnaður, 1.21 Hert skatteftirlit. Þessi tillaga tengist að sjálfsögðu þeim lið sem er á undan um auknar tekjur í ríkissjóð vegna þess að samkvæmt upplýsingum sem við höfum aflað okkur er talið líklegt að þær 50 millj. sem hér er gerð tillaga um að fari í hert skatteftirlit eigi að geta skilað nettó í ríkissjóð um 800 millj. kr. og þess vegna er ekki erfitt að færa rök fyrir þessum útgjöldum.

Þá er komið að liðnum 09-811 Barnabætur. Þar gerum við tillögu um að 1.285 millj. viðbót verði við þær tillögur sem eru í frv. og hér erum við fyrst og fremst að gera tillögu um það að tekjutengingin í barnabótunum verði ekki aðeins til sjö ára aldurs heldur til 16 ára aldurs og þetta er sú tala sem reiknað hefur verið út að eigi að duga til þess miðað við þær aðstæður sem við þekkjum í dag.

Þá er komið að liðnum 09-981 Ýmsar fasteignir ríkissjóðs, 6.05 Stjórnarráðsbyggingar. Við gerum ráð fyrir að þessi liður verði lækkaður um 190 millj. Hér er verið að ræða um miðað við skýringar í fjárlagafrv. viðhald o.fl. í stjórnarráðsbyggingum. Við teljum hins vegar að nýjustu afrek sem unnin hafa verið af ráðuneytunum --- og ætla ég þá ekki að nefna margar byggingar en vegna þess að nýlega höfum við fengið í hendur býsna miklu skýrslu frá því í ágúst á þessu ári frá Ríkisendurskoðun um framkvæmd við Þjóðmenningarhús, þá teljum við nauðsynlegt að gert verði hlé á slíkum framkvæmdum meðan Stjórnarráðið og þeir sem þar ráða læra af reynslunni.

Herra forseti. Mig langar af þessu tilefni að vitna örlítið til þeirrar skýrslu sem ég nefndi áðan. Hér segir, með leyfi forseta, m.a.:

,,Hér á eftir er fjallað um þau atriði sem betur hefðu mátt fara við framkvæmd endurbóta Þjóðmenningarhúss við Hverfisgötu í Reykjavík ...`` Takið eftir að fjalla á um þau atriði sem betur hefðu mátt fara. Síðan kemur kafli undir fyrirsögninni Lög og önnur fyrirmæli.

,,Í lögum nr. 63/1970 um skipan opinberra framkvæmda með síðari breytingum kemur fram hvernig staðið skuli að opinberum framkvæmdum. Í handbók um opinberar framkvæmdir sem fjármálaráðuneytið gaf út árið 1991 eru lög þessi skýrð nánar. Þannig eru til mjög ítarleg fyrirmæli og leiðbeiningar um hvernig staðið skuli að opinberum framkvæmdum hér á landi.``

Herra forseti. Ríkisendurskoðun telur þörf að láta þetta koma fram í skýrslunni um framkvæmdirnar í Safnahúsinu við Hverfisgötu, að til séu mjög nákvæm fyrirmæli og leiðbeiningar um hvernig eigi að standa að opinberum framkvæmdum í landinu.

Herra forseti, áfram er haldið í skýrslunni:

,,Verkkaupi er sá aðili sem tekur ákvarðanir og ber ábyrgð á framkvæmd. Það er hlutverk verkkaupa, þ.e. viðkomandi ráðuneytis og þeirra aðila sem ráðuneytið felur framkvæmd verksins, að sjá til þess að lögum þessum sé framfylgt. ``

Herra forseti. Það er kannski nauðsynlegt að vekja athygli þeirra sem ekki vita en viðkomandi ráðuneyti í þessu tilfelli er forsrn., það er forsrn. sem hér er verið að fjalla um. Og með leyfi forseta vil ég vitna áfram til skýrslu Ríkisendurskoðunar:

,,Lögin kveða skýrt á um að ekki skuli hefja verklega framkvæmd fyrr en veitt hefur verið til þess heimild á fjárlögum.``

Það er rétt, herra forseti, að vekja athygli á því sem ég las í upphafi að hér er eingöngu verið að tilgreina það sem Ríkisendurskoðun telur ástæðu til að vekja athygli á að hefði mátt betur fara við þær framkvæmdir sem hér um ræðir.

Áfram segir í skýrslunni, með leyfi forseta:

,,Vegna verkefnisáætlunar skal lýsa verkaskiptingu vegna stjórnunar, ákvarðanatöku og boðleiðum í verkinu.

Tryggja ber að áætlanagerð byggi á traustum forsendum þannig að ekki þurfi að koma til breytinga á síðari stigum verkefnisins.``

Herra forseti. Ég held að nóg sé lesið í bili varðandi það hvað betur hefði mátt fara við framkvæmd endurbóta Þjóðmenningarhúss við Hverfisgötu. Ég held að ljóst sé og eðlilegt að þeir aðilar sem bera ábyrgð á slíkum framkvæmdum þurfi nú einhvern tíma til þess að meta hvernig betur megi standa að næstu framkvæmdum.

Herra forseti. Það er fleira í skýrslunni sem ég vil fara með. Í kafla sem heitir Ábending og tilmæli segir m.a., með leyfi forseta:

,,Ábyrgð og hlutverkaskipting þarf að vera skýr og hún lögð fram með skriflegum hætti. Þannig þarf að vera ljóst hvert sé valdsvið hvers og eins sem verkinu tengist og hver sé vettvangur ákvarðanatöku.``

Þetta segir m.a. í þeim texta þar sem verið er að fjalla um þætti sem Ríkisendurskoðun telur að einkum þurfi að hafa í huga þegar verið er að horfa yfir þær framkvæmdir sem unnar voru við Þjóðmenningarhúsið.

Áfram segir, með leyfi forseta:

,,Ákveða þarf með skriflegum hætti í byrjun verks tíðni, form og dreifingu upplýsinga um verkstöðu og fjárhagsstöðu. Þannig sé tryggt að þeir sem ábyrgð bera á verkinu séu ávallt vel upplýstir um stöðu þess.

Ríkið sem verkkaupi þarf að setja sér ítarlegar verklagsreglur og fylgja þeim eftir gagnvart verksala bæði á hönnunar- og framkvæmdastigi ...``

[21:30]

Og áfram, með leyfi forseta:

,,Sá aðili innan ríkiskerfisins sem er verkkaupi þarf að tryggja fyrir fram fjárheimildir á hverju fjárhagsári í samræmi við þær fjárhagsskuldbindingar sem hann áformar að gangast undir á hverjum tíma.``

Herra forseti. Hér er vissulega ýmislegt gefið í skyn og ekki hægt að draga aðra ályktun en þá að ekki hafi verið staðið að verki á þann hátt sem hér segir að lög kveði á um.

Síðasta tilvitnun mín í þessa skýrslu Ríkisendurskoðunar, með leyfi forseta:

,,Tryggja þarf að á framkvæmdatíma sé fyrir hendi skilvirkt samtíma kostnaðar- og verkeftirlit.``

Hér er augljóslega gefið í skyn að slíkt hafi ekki verið til staðar. Herra forseti. Ég endurtek tillöguna um að þær 150 millj. sem áætlað er að Stjórnarráðið fari með í viðhald og aðrar framkvæmdir á næsta ári verði geymdar. Það sem ég hef lesið upp um framkvæmdina við Hverfisgötu ætti að duga sem rökstuðningur fyrir því að taka eitt ár til að fara yfir það hvernig til hefur tekist í þessum efnum.

Herra forseti. Þá er ég kominn að liðnum 11-299 Iðja og iðnaður, framlög. Þar gerum við tillögu um að komi nýr liður, 1.49 Frumkvöðlar á landsbyggðinni. Við gerum tillögu um að til þessa verði settar 25 millj. kr. Hér er um afar mikilvægt mál að ræða vegna þess að eitt af því sem hefur valdið vanda á landsbyggðinni er skortur á frumkvöðlum. Þess vegna er mjög mikilvægt að reyna að hlúa að frumkvöðlasetrum þar sem menn hafa ýmsar góðar hugmyndir. Þetta hluti af því sem við teljum að haft geti jákvæð áhrif á þróun byggðar í landinu.

Þá gerum við, herra forseti, einnig tillögu um breytingar á sundurliðun 4. Í fyrsta lagi á lið 47-205 Íbúðalánasjóður, leiguíbúðir. Þar gerum við tillögu um 200 millj. þannig að fjármagnsgjöldin verði 630 millj. Hér er eingöngu um það að ræða að við gerum tillögu um að niðurgreiðslur vaxta leiguíbúða í félagsíbúðakerfinu verði áfram haldið eins og verið hefur en ekki hætt.

Herra forseti. Síðasta tillaga okkar um breytingu er við 7. gr. Það eru nýir liðir. Það er í fyrsta lagi liður 8.16 Að lækka önnur gjöld ráðuneyta um 860 millj. kr. Tillagan er um að ráðuneyti leiti leiða til þess að fara sem best með fjármuni þjóðarinnar. Við teljum vænlegast að gera það þannig að ráðuneytin fái til þess frítt spil og leiti þeirra leiða sem þau telja vænlegastar til að ná þeim árangri.

Í öðru lagi er töluliður 8.17 Að fela ráðuneytum að skera niður ferða- og risnukostnað um 450 millj. kr. Það hefur áður verið farið í slík átaksverkefni, að reyna að ná niður þessum kostnaði. Það er auðvitað brýnt að svo sé gert reglulega. Þetta er liður sem oft á tíðum vill vaxa nær stjórnlaust. Þess vegna gerum við tillögu um að reynt verði að ná svona um 20--25% niður af þessum lið. Það hefur áður verið bent á að hægt sé að ná býsna góðum árangri á þessu sviði.

Þá gerum við tillögu um það í lið 8.18 að innheimt verði 2.700 kr. gjald á hverja þorskígildislest af úthlutuðu aflamarki, sbr. 6. gr. laga um Þróunarsjóð sjávarútvegsins. Gert er ráð fyrir að þannig innheimtist um 750 millj. kr. sem verði síðan ráðstafað til Hafrannsóknastofnunar 600 millj. kr., til Rannsóknastofnunar fiskiðnaðarins 20 millj. og til Fiskistofu 130 millj. kr.

Ég gerði áðan grein fyrir því að sértekjur þessara stofnana mundu hækka og hér er skýringin á því. Tillagan er þannig um að hækka örlítið greiðslur til þróunarsjóðsins og ráðstafa á þennan hátt, þ.e. að þær stofnanir sem sinna sjávarútvegi fái þær og með því sé greiddur hluti af kostnaðinum við rekstur þeirra.

Herra forseti. Hér hef ég gert grein fyrir þeim brtt. sem 1. minni hluti gerir við fjárlagafrv. við 2. umr. Það er ljóst að hér er um töluverðar útgaldaaukningartillögur að ræða en eins og ég sagði þá höfum við einnig með tillögur um auknar tekjur, auknar sértekjur og sparnað, með lækkun ýmissa gjalda. Þegar þetta dæmi er gert upp eru tillögur okkar í raun um að aukinn afgangur verði á ríkissjóði um einn milljarð kr. Með því teljum við okkur sýna þá ábyrgð sem nauðsynleg er í því efnahagsástandi sem nú ríkir í landi okkar. Við teljum mikilvægt að menn taki saman höndum um að tryggja hina margumræddu mjúku lendingu.

Herra forseti. Ég vil að lokum fjalla örlítið um nýjung sem nefnd er í fjárlagafrv. og fjallar um að fjölga einkaskólum á landinu. Tillagan er um að sérstakur skóli verði settur á laggirnar með styrk frá ríkinu, þar sem ungmenni eigi að geta lokið námi til stúdentsprófs á tveimur árum en hið almenna eins og flestum er kunnugt eru fjögur ár. Hins vegar er ljóst að mjög margir áfangaskólar í landinu hafa boðið nemendum upp á að ljúka námi á þremur árum. Það hefur verið áhugi á því til fjölda ára innan áfangakerfis skólanna að gera tilraunir með áfangakerfið og þróa áfram þannig að nemendur geti í raun ákveðið námshraða sinn sjálfir svo á því þurfi ekki að hafa miklar hömlur. Áfangakerfið gæti m.a. að sjálfsögðu boðið upp á tveggja ára nám til stúdentsprófs.

Hér er hins vegar augljóslega um sérstakt áhugamál að ræða af hálfu menntmrh. eða ríkisstjórnarinnar. Það er alla vega ljóst að menntmrh. virðist hafa sérstakan áhuga á þessu. Mér er ekki kunnugt um að áfangakerfi skóla hafi fengið tilstyrk ríkissjóðs til að gera þá tilraun sem ég nefndi. Í frv. er hins vegar gert ráð fyrir því að þegar skólinn er tekinn til starfa fari um 100 millj. kr. á ári í það verkefni.

Ég vil ítreka það sem fram kom fyrr í dag hjá framsögumanni okkar, hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni, að hugmynd um einkaskóla af þessari gerð er algjörlega á skjön við stefnumið Samfylkingarinnar. Við munum berjast gegn því með oddi og egg að þessi hugmynd nái fram að ganga. Herra forseti. Ég hef lokið við að gera grein fyrir brtt. 1. minni hluta við fjárlagafrv.