Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 23:05:36 (2524)

2000-11-30 23:05:36# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., JÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[23:05]

Jóhann Ársælsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það sem ég á við með einnota framkvæmdum er að uppbygging ýmissa fyrirtækja, verslanamiðstöðva og stórfyrirtækja kallar á mikið vinnuafl um skamman tíma, en byggir ekki upp atvinnu fyrir fólk til lengri tíma. Við þurfum stöðuga uppbyggingu í atvinnulífinu og óheppilegt er að það gerist með þeim hætti. Og þegar sér fyrir endann á slíkum framkvæmdum, þá koma erfiðir tímar. Við höfum séð það áður.

Hv. þm. skildi mig kannski ekki nægilega vel þegar ég var að tala um íslensku krónuna og efnahagslífið eins og það er núna. Ég hef áhyggjur af því. Ég tel að það pókerspil sem fer fram um íslensku krónuna núna og virðist vera einhvers konar trúarbrögð hjá vissum hópi manna í landinu sé stórhættulegt. Og í rauninni sé nánast ekki hægt að sjá fyrir sér að hægt sé að stjórna á vitrænan hátt stöðu íslensku krónunnar með þeim aðferðum sem eru notaðar. Það er það sem ég á við þegar ég tala um pókerspil, vegna þess að hér eru menn í þjóðfélaginu, í fjármálageiranum öllum stundum að leggja á þetta spil og þannig eigi að stjórna styrkleika íslensku krónunnar. Eftir sitjum við með það að atvinnulífið og fólkið í landinu þarf að borga miklu hærri vexti, miklu meiri óvissa er hér í efnahagslífinu en í löndunum í kringum okkur og ef við getum ekki gert betur með íslensku krónuna, þá er hún ónýt. Menn verða að horfast í augu við það. Það verður að finnast leið til að stjórna efnahagslífinu án þess að óvissumerkin séu sífellt yfir því.