Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 23:07:42 (2525)

2000-11-30 23:07:42# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÍGP (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[23:07]

Ísólfur Gylfi Pálmason (andsvar):

Herra forseti. Ég skil ekki hv. þm. allskostar þegar hann talar um einnota framkvæmdir. Þetta hljómar í rauninni ágætlega, en þá fer maður að velta fyrir sér framkvæmdum eins og vegaframkvæmdum. Er það ekki einnota framkvæmd? Ef við byggjum hús, er það ekki einnota framkvæmd? (Gripið fram í.) Ég veit að hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir hefur mikinn áhuga á að grípa fram í þegar ég er að reyna að fá svör frá hv. þm. og það er hennar háttur mjög gjarnan, herra forseti, þegar Samfylkingin lendir í vandræðum, þá er hún eins og ágætis ungamamma að passa ungana sína og ég skil það vel, enda er þingmaðurinn vön slíkri pössun. En ég er að spyrja hv. þm. um þessi hugtök sem hann er að nota, einnota framkvæmd o.s.frv. Þetta hljómar ágætlega, en hvað þýðir þetta í raun og veru? Og þegar hann talar líka um að stjórna krónunni. Hvernig eigum við að fara að því? Allt eru þetta orð og mér finnst að hv. þm. þurfi að skýra þetta betur út.