Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 23:19:50 (2531)

2000-11-30 23:19:50# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., PHB
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[23:19]

Pétur H. Blöndal:

Herra forseti. Formaður hv. fjárln., hv. þm. Jón Kristjánsson, hefur flutt árlega ræðu sína um tillögu hv. meiri hluta. Og eins og áður og endrarnær þá minnir þetta mig alltaf á hluthafafund í meðalstóru bandarísku hlutafélagi.

Nú ætlar hv. fjárln. að semja bækur (Gripið fram í: Ha!), varðveita gömul skip sem haldið er áfram í útgerð, nú á ríkissjóð, stunda rannsóknir í plöntulíffræði og helgisiðafræðum, rækta tré, halda ráðstefnur, rannsaka fyrir erlend fyrirtæki, reka afeitrunardeild o.s.frv. Finnst mér illa farið með tíma löggjafarsamkundu þjóðarinnar að rekast í slíku smotteríi. Þó vil ég geta þess að það á að fara út í ritsmíð, það á skrifa sögu Stjórnarráðsins sem spannar sennilega 96 ár og það mun kosta 40 millj. kr. Þykir mér það mikið miðað við að það kostaði 60 millj. að skrifa sögu kristninnar sem spannaði 1000 ár. Svo eru þarna stórir liðir vegna lagasetningar, eðlilegir, sveitarfélagapakkinn sem við vorum að samþykkja nýverið, fæðingarorlofið sem er jafnréttismál o.s.frv.

Herra forseti. Í þessu vinnulagi er fólgið ákveðið stílbrot. Alþingi hefur löggjafar-, fjárveitinga- og eftirlitshlutverk. Segjum að hv. fjárln. leggi til 10 millj. kr. fjárveitingu og fái hana samþykkta á Alþingi. Þessi framkvæmd gufar upp af einhverjum ástæðum, er della. Hver ber ábyrgð? Varla er það ráðherrann. Hann kom ekki nálægt þessu. Það er Alþingi sem ber ábyrgð. En hver hefur eftirlitshlutverkið, herra forseti? Það er Alþingi líka. Og hvernig skyldi eftirliti Alþingis vera háttað með framkvæmdum sem það hefur ákveðið sjálft þegar allt fer í vaskinn? Ég er hræddur um að málið verði þaggað niður ef svo skyldi fara.

Nei, þetta er röng stefna sem við fylgjum í fjárlagagerðinni. Við eigum að setja ráðuneytunum ramma, fjárlagaramma. Við eigum að segja t.d.: Við viljum hafa svo og svo margar milljónir til safna og það á að leggja áherslu á þetta, t.d. gömul skip og svo á ráðherrann að framkvæma og ef hann ekki framkvæmir skynsamlega, þá bara rekum við hann. Því það vald höfum við líka.

Svo legg ég til, ef menn hætta að skipta sér af framkvæmdarvaldinu með því að setja bara ramma fyrir ráðuneytin, að Alþingi færi nú að taka að sér að semja lög og hafa frumkvæði að lagasetningu og taki það ómak af ráðuneytunum. Öll frv. sem við samþykkjum koma þaðan. Það er nánast ekkert frv. samþykkt sem Alþingi hefur haft frumkvæði að að semja. Þetta hef ég bent á mörgum sinnum og ég hef líka bent á að þetta er mjög hættulegt vegna þess að við erum kosin af þjóðinni til þess að gæta hagsmuna hennar og það er ekki endilega víst að þeir hagsmunaaðilar sem fjalla um málið í ráðuneytunum séu sömu skoðunar eða hafi sömu hagsmuni og þjóðin í heild.

Svo legg ég til að Alþingi setji sér eigin fjárlög þannig að það ekki sé á valdi framkvæmdarvaldsins að leggja fram tillögur um fjárveitingar til Alþingis. Ég vil endilega að þingmenn verði á launaskrá Alþingis þannig að við séum ekki opinberir starfsmenn. Við erum ekki opinberir starfsmenn, hv. þingmenn.

Herra forseti. Mönnum hefur orðið tíðrætt um viðskiptahallann. Hann er geigvænlegur. Hann er 200 þús. kr. á hvert mannsbarn á þessu ári. Og þó við tökum inn í dæmið fjárfestingar erlendra aðila og góðar fjárfestingar innlendra aðila líka þá er þetta eflaust um hálf milljón á hverja fjögurra manna fjölskyldu á þessu ári. Auðvitað mynda menn einhverjar eignir á móti en ég hygg að það sé töluvert mikið í bílakaupum, sem ekki skapar góða eign. Það er mjög slæm eign. Ég mundi ekki ráðleggja nokkrum manni það. (Gripið fram í: Fótanuddtæki.)

Orsök þessa er hávaxtastefna Seðlabankans. Ég hef ásamt hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni sem einmitt tók þetta sem dæmi, gagnrýnt þetta vegna þess að Seðlabankinn er að búa til peningamaskínu. Þeir sem hafa burði til þess taka lán erlendis og kaupa skuldbréf innan lands og hafa haft tryggan 3--4% vaxtamun. Og það er ekki amalegt að hafa slíkar tekjur bara út úr einhverri maskínu. Þannig hafa þeir dælt inn peningum. Þetta er eins konar peningadæla. Það aftur á móti heldur uppi genginu. Allt veður í peningum sem veldur þenslu og bætir kaupmáttinn þegar gengið hækkar. Erlendar vörur lækka í verði. Svona hefur þetta verið og almenningur gleðst og kaupir, sem veldur aftur vöruskiptahalla og viðskiptahalla.

Nú hefur verið bent á að hæstv. forsrh. beri ábyrgð á Seðlabankanum. Svo hefur reyndar ekki verið fyrr en nýverið. Ég spyr: Hvað getur hæstv. forsrh. annað en treyst á sína ráðgjafa? Hann getur í rauninni ekki annað. Hann getur ekki farið í berhögg við ráðgjafana sem eru í Seðlabankanum.

En ég hygg að þetta sé ekki rétt stefna sem menn hafa fylgt og tek undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni um það, þó við séum nú ekki sérfræðingar á þessu sviði.

Í sumar urðu læti á gengismarkaði. Menn töluðu um aðför að genginu. Ég held að það hafi verið hræddir menn að bjarga eigin skinni, (Gripið fram í.) þ.e. þeir sem höfðu tekið lán erlendis og keypt fyrir þau innlend skuldabréf og urðu óttaslegnir þegar gengið fór að falla. Þeir hafa náttúrlega tapað sínu og sennilega tapað tveggja, þriggja ára vaxtamun sem þeir hafa grætt áður.

En það er einn mikill munur á þessum viðskiptahalla núna og því sem var áður fyrr. Hann er ekki lengur með ríkisábyrgð og það er verulegur munur því núna er þetta með ábyrgð einstaklinga og fyrirtækja þeirra. Og það er spurning hve mikið hægt er að veðsetja ábyrgðir og veð manna. Ég hugsa að við séum komin í ákveðið hámark í því. Sú fjölskylda sem hefur keypt sér jeppa og er orðin áskrifandi að 70 þús. kr. greiðslum af láni þess vegna, gerir ekkert voðalega mikið meira næstu fimm, sex, sjö árin ef hún ekki springur á limminu og þarf að selja jeppann og borga með honum þannig að ég hugsa að lánveitingarnar muni hægja á sér af sjálfu sér.

Það er ótrúleg veislugræðgi hér á landi og ég mundi ráðleggja öllum núna í stöðunni að borga upp skuldir því þjóðin er á einhvern hátt fíkin í blankheit. Menn eru fíknir í að taka lán og valda blankheitum hjá sjálfum sér.

Herra forseti. Ég tek undir með hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni um greiningu hans á vinnumarkaðnum. Laun ríkisstarfsmanna hafa hækkað umtalsvert með aðlögunarsamningunum. Og þegar ríkisstarfsmenn bera sig saman við almennan markað vantar yfirleitt ýmsa þætti eins og lífeyrisréttindin. Og nú ætla ég rétt aðeins að koma inn á það, herra forseti.

Árið 1997 jukust skuldbindingar ríkissjóðs um 6 milljarða. Það eru 6.000 milljónir. Ég hugsa að fæstir geti gert sér grein fyrir hvað það er mikið. Árið 1998 um 41,4 milljarða. Það er óskapleg tala. Árið 1999 um 23,3 milljarða og í ár er búist við að þetta aukist um 25 milljarða aftur. Það eru 90 milljarðar á þremur árum. Hvað þýðir það? Hvaða tala er þetta? Í því sambandi vil ég benda á að lífeyrisgreiðslur almannatrygginga, allar lífeyrisgreiðslur almannatrygginga, eru 15 milljarðar. Allar lífeyrisgreiðslur lífeyrissjóðanna eru líka 15 milljarðar. Þannig að allar lífeyrisgreiðslur í landinu eru einmitt það sem skuldbinding ríkissjóðs hefur vaxið vegna opinberra starfsmanna þessi þrjú ár. Og þetta eru ekki einu sinni allir opinberir starfsmenn. Þetta eru einungis þeir sem eru í B-deild, þeir sem eru í hjúkrunarfræðingadeildinni, þingmenn og ráðherrar og þeir sem fluttu réttindi yfir í A-deild og eiga enn þá gömul réttindi í B-deildinni. Þetta eru um 17.300 manns. Þessi skuldbinding er 5 millj. á hvern einasta ríkisstarfsmann sem er starfandi. Þeir eru búnir að eignast 5 millj. á síðustu þremur árum til viðbótar við þau réttindi sem þeir áttu áður. Þeir eru búnir að eignast hálfa íbúð og það talar enginn um það; ekki kennarar, ekki lögregluþjónar, enginn. Enda vita þeir yfirleitt ekki af þessu. En um þetta hefur skuldbindingin vaxið og nú ætla ég að útskýra hvernig þetta gerist.

Rikki ríkisstarfsmaður var með bílastyrk og dagpeninga og sitthvað fleira og að sjálfsögðu er hann karlmaður því ef hann væri kona þá væri hann ekki með þessi hlunnindi. Það væri a.m.k. miklu ósennilegra. Þetta var aðlagað og sett inn í dagvinnulaunin hans. Dagvinnulaunin voru hækkuð og það þýðir að grunnur lífeyrisréttindanna var hækkaður án þess að launin hans breyttust. Ekki var nóg með það heldur hækkaði lífeyrisþeginn sem var á undan honum í starfinu líka. Og ekki nóg með það heldur hækkaði líka maðurinn sem vann hjá ríkinu einhvern tímann og er löngu hættur.

[23:30]

Það er sem sagt verið að hækka út um allt. Ég barðist mikið á móti þessu á sínum tíma, greiddi atkvæði gegn þessu og lýsti því fyrir hinu háa Alþingi en það hafði ekkert að segja.

Þetta er að nálgast milljón á hvern einasta Íslending, litlu börnin meðtalin og gamla fólkið, sem er skuldbinding þjóðarinnar til opinberra starfsmanna. Og þetta borgum við að sjálfsögðu. Ég minni á að hæstv. fjmrh. var að borga 15 milljarða inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins um daginn, 15 milljarða borgaði hann inn í Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins. Það dugði fyrir helmingnum af árlegum hækkunum. Þetta er jafnt og allar lífeyrisgreiðslur Tryggingastofnunar sem hann greiddi inn í þennan eina sjóð. Þetta eru svo stórar tölur að ég sé þær ekki fyrir mér og ég geri ekki ráð fyrir að aðrir sjái þær heldur. Og þær eru svo stórar að enginn talar um það. En svo getum við verið að rífast um einhvern tíu milljón kall einhvers staðar, eitthvert slíkt smotterí. Og fjárln. getur setið hérna á fundum allt haustið og verið að vesenast í einhverju smotteríi.

Herra forseti. Ég má til með að tala um kennaradeiluna. Í fyrsta lagi er þar um að ræða mjög óraunhæfar kröfur og hv. þm. Ögmundur Jónasson gat um það að þeir væru með 130 þús. kr. dagvinnulaun. Það er rétt, en þeir eru líka með alls konar sporslur. Þeir fá nánast greitt fyrir allt nema að anda. Þeir eru með krítarpeninga, þeir eru með stílapeninga og það er fullt af peningum og þeir voru fyrstu tíu mánuði ársins með 220 þús. að meðaltali, þannig að ýmsir hafa verið miklu hærri. Byrjunarlaunin eru að sjálfsögðu lægri, en að meðaltali voru heildarlaunin 220 þús. kr. og eru sumarmánuðir inni í þessu. Þeir eru ekki með yfirvinnu. Þeir fara sennilega í 240 þús. kr. allt árið. Og þetta ætla þeir að hækka um 40--70% eftir því hvernig menn meta kröfurnar.

Ég mundi leggja til að þeim yrði boðin 10--20% hækkun gegn því að falla þá frá lífeyrisréttindunum sínum, þessum sérstöku, og þeir tryggi sig hjá Lífeyrissjóði verslunarmanna. Og svo fái þeir um 15% hækkun fyrir að vinna allan daginn frá kl. 8--16 eins og annað fólk, sem þeir eru alltaf að bera sig saman við. Síðan fái þeir svona 15% í viðbót fyrir að vera allt árið í vinnunni eins og annað fólk. (Gripið fram í.) Þannig að þeir eru komnir upp í um 200 þús. kall og mundu sennilega lækka í launum. Þetta er raunveruleikinn.

Herra forseti. Hvernig gerðist þetta? Og þá ætla ég að nefna eina kenningu. Hverjir voru að semja við hvern? Hæstv. fyrrv. fjmrh. var að semja við opinbera starfsmenn með sínu fólki. Og það merkilega er og ég segi það bara sisona, þeir eru allir í Lífeyrissjóði starfsmanna ríkisins. Svo geta menn hugsað eins og þeir vilja. (Gripið fram í: Þeir eru báðum megin.) Það sagði hv. þm., þeir eru báðum megin við borðið. Ekki sagði ég það.

Hvað vil ég gera, herra forseti? Ég vil lækka skatta, ég vil sjá það þegar tekjufrv. kemur fram, ég vil lækka skatta, eignarskatta á að fella niður, stimpilgjald á að fella niður, ég vil lækka skatta á atvinnulífið svo það geti greitt há laun, haldið áfram að greiða vaxandi laun og svo vil ég lækka tekjuskattinn til framtíðar þegar fer að ganga illa, þannig að menn séu viðbúnir því og fari þá ekki að hækka skattana. Svo vil ég selja Landssímann og bankana, ekki til þess að fá tekjur, nei, nei, heldur til þess að þeir verði betur reknir. Ég minni á að Landsbankinn skilaði aldrei, aldrei hagnaði. Það var verið að dæla í hann peningum alla tíð áður en hann var hlutafélagavæddur, 4 milljarðar voru það einu sinni, einu sinni 1 milljarður. Það datt engum í hug að hann skilaði hagnaði. Núna skilar hann milljarði á ári. Ef hann yrði einkavæddur þá skilaði hann enn meira. (Gripið fram í: Hver á hann?) Ríkið á hann að mestu leyti enn þá, svo hann mun sennilega skila 2 milljörðum þegar er búið að einkavæða hann alveg.

Ég vil sjá 100 millj. í afgang á fjárlögum (SJS: Áttu líka í Nasco?) þegar við göngum frá þessu endanlega. Ég hlakka til að sjá tekjuhliðina og þessi atriði þegar frv. kemur endanlega fram og vil stefna að því að hafa 100 milljarða í afgang.