Fjárlög 2001

Fimmtudaginn 30. nóvember 2000, kl. 23:43:27 (2538)

2000-11-30 23:43:27# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[23:43]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Herra forseti. Nú er það svo að kennarar eru að fara fram á að fá leiðréttingu á borð við aðrar stéttir sem þeir telja vera sambærilegar. Þetta er náttúrlega alltaf afstætt og stór spurning hvernig eigi að líta á launaþróunina. Þeir eru ekki að fara fram á að fá sömu kjarabætur og við skulum segja fjármagnseigendur hafa fengið á undanförnum mánuðum og missirum. Þeir eru ekki að fara fram á að fá sömu hlutdeild í þjóðarauðnum og þeir sem hafa hagnast á hlutabréfabraski, þeir eru ekki að gera það. Þeir eru að fara fram á að meðaldagvinnulaun upp á 130 þús. kr., byrjunarlaun upp á rúmar 100 þús. kr., verði hækkuð. Þetta er krafan sem þeir eru að fara fram á og vilja að að tveimur árum liðnum verði þessi laun komin upp í 190 þús. kr. fyrir dagvinnulaun. Það eru ekki há laun á Íslandi í dag. Það er staðreynd. Ef menn fara að horfa á annan tilkostnað heimilanna, tilkostnað við húsnæði, húsaleigu, matarkostnað, ferðalög, klæði o.s.frv., þá eru þetta ekki há laun.

Hitt er staðreynd að margt fólk býr við enn lakari kjör en þetta. Og að sjálfsögðu á það að vera okkur öllum keppikefli að bæta þau kjör. Vonandi verður þessi kjarabarátta til að stappa stálinu í aðrar launastéttir. Því að vandinn sem við búum við og stöndum frammi fyrir á Íslandi í dag er stórkostlegt misrétti og stórkostlega aukið misrétti í samfélaginu, fjármagnseigendum í hag og ofurtekjufólki sem telur mánaðartekjur sínar jafnvel í milljónum króna. Þetta er vandinn, ekki hitt að kjör kennara eða annarra stétta sem búa við of kröpp launakjör verði bætt og það verulega.