2000-12-01 00:04:33# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[24:04]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Það var makalaust að hlusta á ræðu hv. þm. Hann setur upp tölur um skattalækkanir úti á landsbyggðinni og reynir að finna sveitarfélög sem tapa á því að fasteignagjöld lækki um 1,1 milljarð kr. Þau gera það um næstu áramót. Það er frá 30% og upp í 60% lækkun fyrir íbúa þessara sveitarfélaga og tekjustofnanefnd hefur raðað þessu niður á hvert einasta sveitarfélag. Það er hins vegar staðreynd að sveitarfélögin eru ekki einsleitur hópur.

Þó að öll sveitarfélög á landinu noti um næstu áramót heimildir sínar til útsvarshækkunar þá er það 1,3 milljarðar, þ.e. öll sveitarfélög, Reykjavík, Reykjanes og öll sveitarfélög. Á móti kemur 1,1 milljarður í skattalækkun fyrir landsbyggðina. Svo segir hv. þm. að þetta sé íþynging á sköttum fyrir landsbyggðina. Ég þekki ekki þá lógík sem hv. þm. notar.

Hv. þm. talar um húshitunarkostnað sem er enn til athugunar í nefndinni. Hann hefur ekki getað gagnrýnt neitt í brtt. meiri hluta fjárln. og talar um það sem eftir á að athuga, t.d. húshitunarkostnað, Byggðastofnun og fleiri mál sem eru í athugun fyrir 3. umr. Hv. þm. virðist álíta að byggðamál verði best leyst með því að raða mönnum inn í iðnrn. Það er búið að flytja Byggðastofnun norður á Sauðárkrók, í hans kjördæmi. Það kallar hann ekki byggðamál en er að nudda út af einhverjum 5 millj. fyrir iðnrn. til að auka yfirstjórnina þar.

Ég skil ekki þennan málflutning.