2000-12-01 00:08:56# 126. lþ. 37.1 fundur 1. mál: #A fjárlög 2001# frv., Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 37. fundur, 126. lþ.

[24:08]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég hef setið í fjárln. í átta ár og er vanur að heyra fulltrúa ráðuneyta gráta yfir því að þar vanti menn í yfirstjórn. Ég hef hins vegar ekki tekið að mér að gráta hér á Alþingi yfir því eins og hv. þm. þó að menn vanti í yfirstjórn ráðuneyta. Ég met það miklu meira að flytja störf út á land eins og gert hefur verið í þessu tilfelli en hv. þm. lét undir höfuð leggjast að geta þess í sinni ræðu.

Varðandi húshitunarkostnaðinn þá held ég að óhætt sé að hæla okkur sem höfum farið með stjórn síðustu fimm árin fyrir þau mál. Öll árin sem flokksbræður hv. þm. sátu í ríkisstjórn var niðurgreiðsla húshitunarkostnaðar óbreytt í krónutölu, 435 millj. kr. Nú er hún 760 millj. og verið að skoða hvort það eigi að hækka enn meira. Ég held að honum sé óhætt að hæla okkur fyrir það fremur en að halda fram þeim málflutningi sem hann hefur verið með hér.

Varðandi fjarkennslu og símenntunarstöðvar þá tók ég það fram í ræðu minni í dag að við hefðum þau mál til skoðunar. Þeim málum hefur verið hrint í framkvæmd á síðustu fimm árum ásamt öðrum byggðamálum, skógræktarverkefnum, fjarkennslu- og símenntunarstöðvum, jöfnun á námskostnaði og niðurgreiðslu á húshitunarkostnaði. Svo leyfir hv. þm. sér að segja að ekkert hafi verið gert í byggðamálum á síðustu árum. Það var ekkert gert í byggðamálum á árunum 1990--1995 þegar Alþfl. sat í ríkisstjórn. Það er hin kalda staðreynd í þessu máli.