Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 15:24:26 (2617)

2000-12-04 15:24:26# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[15:24]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil nú ekki svipta hv. 7. þm. Reykv. ánægjunni af uppeldishlutverki sínu í fjárln. Þó vil ég minna hann á eitt, að sjálf lögin um fjárreiður ríkisins voru sett á síðasta kjörtímabili og þá var nú Samfylkingin ekki til, þ.e. þegar þau voru sett. Það voru núverandi stjórnarflokkar sem leiddu það og beittu sér fyrir því og með ágætu samstarfi allra flokka. Ég tek það fram. (Gripið fram í.) Og ykkar sem voruð í Alþfl. á þeim tíma.

En varðandi þessar breytingartillögur þá held ég að þær séu flestar því marki brenndar að þar eru framlög sem ekki voru fyrirsjáanleg. Og varðandi halla, af því að eitt embætti var nefnt þarna, þá finnst mér það réttlætanlegt að hluti halla sem tilkominn er á þessum árum, bæði á síðasta ári og yfirstandandi ári, sé leiðréttur á fjáraukalögum vegna þess að hann er tilkominn á yfirstandandi ári. Mér finnst það ekki óeðlilegt af því að viðkomandi stofnun er að okkar mati búin að taka á sínum málum og gera rekstraráætlanir sem við teljum að muni koma málefnum hennar í lag. Þess vegna tel ég að þetta 30 millj. kr. framlag til landlæknisembættisins sé verjanlegt í þessu ljósi. Mér finnst að það eigi að vera reglan að búið sé að taka á málefnum viðkomandi stofnunar ef leiðrétta á slíkan halla.