Fjáraukalög 2000

Mánudaginn 04. desember 2000, kl. 15:49:53 (2622)

2000-12-04 15:49:53# 126. lþ. 39.1 fundur 156. mál: #A fjáraukalög 2000# frv. 145/2000, Frsm. meiri hluta JónK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 39. fundur, 126. lþ.

[15:49]

Frsm. meiri hluta fjárln. (Jón Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Ég held að við hv. 5. þm. Norðurl. v. getum verið sammála um að ein áhrifamesta aðgerðin í fjármálum sveitarfélaga sé að sporna við byggðaröskun. Það gekk eins og rauður þráður í gegnum starf nefndar um tekjustofna sveitarfélaganna, upplýsingar um hve þessi byggðaröskun hefur haft mikil áhrif á rekstur sveitarfélaga, bæði þeirra sem taka við fólki og þeirra sem missa frá sér gjaldendur. Í þessum fjárlögum og fjáraukalögum eru margs konar ráðstafanir til að reyna að sporna við byggðaröskun. Ég ætla ekki að rekja það núna. En það finnst mér vera eitt brýnasta verkefnið og það er brýnasta verkefnið í fjármálum og þjónustu sveitarfélaganna að sporna við fólksflutningum innan lands fram yfir það sem eðlilegt má teljast. Það verða alltaf einhverjir flutningar fólks en þeir hafa verið allt of miklir að undanförnu. Það ættu allir að vera sammála um og ég veit að við hv. þingmaður erum sammála um það.