Staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 13:59:24 (2684)

2000-12-05 13:59:24# 126. lþ. 40.94 fundur 168#B staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu# (umræður utan dagskrár), SJS
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[13:59]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það var og er fullkomlega skiljanlegt að Evrópusambandsþjóðirnar skyldu grípa til harðra aðgerða gegn kúariðufárinu sem þar hefur verið að gjósa upp. En það hefði auðvitað verið mikið áfall fyrir okkur ef íslenskt fiskimjöl hefði að ósekju verið sett út af sakramentinu í slíkum aðgerðum.

Því miður, eins og hér hefur ítrekað verið nefnt, hafa ýmsir í fóðurvöruiðnaðinum í Evrópu haft óhreint mjöl í pokahorninu í bókstaflegri merkingu og af þeim ástæðum verður að líta til þess --- og þær röksemdir fyrir tímabundnu allsherjarbanni eru skiljanlegar --- að vegna hættu á blöndun í skjóli þess að tilteknar gerðir mjöls væru leyfðar og vegna erfiðleika við að hafa á því eftirlit, yrðu menn að fara út í svona harkalegar aðgerðir.

Herra forseti. Ég skýt því inn í að mér fundust ýmsir aðilar hér heima vera fullfljótir á sér að útnefna umhverfisverndarsinna sem sérstaka óvini í þessu máli eða vera með getgátur uppi um að tillögur um allsherjarbann, þar með talið á fiskimjöli, væru frá slíkum komnar algerlega að tilefnislausu það best ég veit. Fyrir slíku hefur enginn fótur verið. Það að neytendamál eru eðlilega ofarlega á dagskrá í þessu sambandi hljóta allir sanngjarnir menn að viðurkenna að er skiljanlegt í ljósi þeirra hneyksla sem upplýst hefur verið um.

Herra forseti. Niðurstaðan sem liggur fyrir er mikill léttir fyrir okkur. Sá lærdómur sem ég tel að við eigum að draga af þessu öllu er sá að standa vel að málum hér heima fyrir og að héðan komi vottuð og viðurkennd gæðaframleiðsla sem sé viðurkennd og eftirsótt. Það er að mínu mati besta tryggingin inn í framtíðina. Ef þannig verður að málum staðið eru allar ástæður til að ætla að bjart sé fram undan í þessari atvinnugrein vegna þess að vaxandi eftirspurn er eftir gæðaframleiðslu af þessu tagi.