Staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 14:09:01 (2688)

2000-12-05 14:09:01# 126. lþ. 40.94 fundur 168#B staðan á fiskimjölsmörkuðum í Evrópu# (umræður utan dagskrár), ÞBack (ber af sér sakir)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[14:09]

Þuríður Backman:

Herra forseti. Ég hefði seint trúað því að ég mundi standa hér og bera af mér sakir en ég vil mótmæla orðum hæstv. landbrh. Ég tel að hvorki það sem ég sagði í minni stuttu ræðu áðan, í umræðum um daginn né í blaðagrein þeirri sem hæstv. ráðherra vísaði til áðan né að nokkur þau orð sem ég hef látið falla hafi gefið tilefni til þeirra ummæla sem hann fór með. Ég er ekki að blása upp pólitískar illdeilur. Ég ber hag íslensks landbúnaðar fyrir brjósti. Ég vil að við stöndum vörð um íslenskan landbúnað og ég vil að við förum meira inn í lífræna ræktun og betri vottun en við höfum gert fram að þessu og það er það sem vakir fyrir mér. Ég hef sagt hér aðvörunarorð. Ég hef óskað eftir því að við sýndum aðgát og þessi uppákoma varðandi fiskimjölið og þær aðgerðir sem eru í gangi í Evrópu núna hafa gefið tilefni til þess að við litum í eign barm og sýndum aðgát. Þess vegna hef ég beint því til hæstv. landbrh. að hann frestaði þeirri tilraun sem til stendur að koma á í byrjun janúar þar til þetta fár hefur gengið yfir, þar til við getum verið örugg um að ekki komi til óvísindalegrar uppákomu eða aðgerða gegn okkur sem erfitt gæti orðið að ráða við.