Tekjuskattur og eignarskattur

Þriðjudaginn 05. desember 2000, kl. 18:28:50 (2731)

2000-12-05 18:28:50# 126. lþ. 40.9 fundur 196. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (skatthlutfall) frv. 150/2000, Frsm. meiri hluta VE (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 40. fundur, 126. lþ.

[18:28]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Vilhjálmur Egilsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og hv. þm. hefur væntanlega tekið eftir er næst á dagskrá málið fjáröflun til vegagerðar, 283. mál, þar sem stendur til að lækka þungaskatt. Það er kannski rétt að halda því til haga. (Gripið fram í.)

Hv. þm. fór aðeins fram úr sjálfum sér í ræðu sinni áðan með því að fjalla svo ítarlega um það mál, en ég geri ráð fyrir því að hann geti endurtekið ræðu sína á eftir þegar það mál kemur til umfjöllunar og geti þess enn þá einu sinni hvað þar er á ferðinni. Ég skal kannski ekki lengja þá umræðu hér og nú.

Það sem mér finnst skipta miklu máli í þessu er að þær breytingar sem hér eru að verða á fasteignagjöldum, á útsvari, á fyrirkomulagi á greiðslum úr jöfnunarsjóði og á þessari lækkun skatthlutfallsins, eru allt atriði sem fengust með ákveðinni niðurstöðu í vinnu sveitarfélaganna og ríkisins og sveitarfélögin stórt séð styðja. Ég veit ekki betur en að þokkalega góð sátt sé um þetta. Að vísu hafa komið fram óskir frá sveitarfélögunum um að tekjuskatturinn lækki enn frekar. En ef spurt væri hvort menn vildu kannski hætta við þetta allt saman og hafa þetta eins og það er, er ég hræddur um að hávær nei kæmu víðs vegar frá og þar á meðal úr Norðurlandskjördæmi vestra.